Aðlögun

Ég er í stökustu vandræðum með að ákveða hvað ég á að skrifa nú þegar ég er fluttur heim. Mér fannst áður sjálfsagt að tjá mig um allt, sem ég var að gera. Núna þegar ég er kominn heim finnst mér þetta allt vera miklu meira prívat mál og ég er hræddur um að vera að tala um fólk, sem ég ætti kannski ekki að tala um. Eða að skrifa um atburði, sem ég mun kannski sjá eftir.

Allavegana, þá ætla ég að halda áfram að halda einhvern veginn dagbók á síðunni. Ég held þó að þetta muni færast meira út í skrif um stjórnmál. Það er erfitt fyrir mig að vita hvað fólk, sem sækir síðuna, vill lesa. Kannski er fólk bara hérna af því að það rakst inn í smá stund og nennir svo ekkert að lesa. Ég veit að það eru nokkrar síður á Nagportal, sem ég skoða oft, en nenni svo aldrei að lesa.

Allavegana, þá er ég ennþá að koma mér fyrir hérna heima og hefur það gengið misvel. Ég er búinn að vera eitthvað frekar slappur á kvöldin og ég hundskammast mín fyrir að hafa ekki talað við neina. Það eru meira að segja vinir, sem ég hef ekki hringt í einu sinni eftir að ég kom heim. Ég veit ekki hvað veldur. Það er búið að ganga svo mikið á hjá mér síðustu vikurnar að ég var í hálfgerðu sjokki þegar ég kom heim.