Tölvan mín deyr

Síðustu 3 ár hef ég notað sömu fartölvuna, 15 tommu Macbook Pro (sjá mynd). Ég hef notað hana í vinnunni á hverjum einasta degi í marga klukkutíma og hún hefur reynst mér alveg fáránlega vel – hún hefur aldrei bilað (ég hef skipt um batterí í henni einu sinni) og eftir að ég setti upp Snow Leopard á henni og hreinsaði hana algjörlega í september þá hefur hún verið alveg fáránlega spræk. Helsti galli hennar var að rafhlaðan entist bara í um klukkutíma, sem er auðvitað fáránlega stutt.

Fyrir akkúrat viku var ég á leið heim úr vinnunni og hafði eftir smá áfengissmökkun þar tekið með mér flösku af margaríta mixi til að prófa betur heima (þetta var í alvöru vinnutengt). Það fór ekki betur en svo að mixflaskan opnaðist í töskunni og yfir tölvuna mína flæddi um líter af margarítu mixi. Ég hljóp heim og reyndi að þrífa hana, en það fór svo að ég gat ekki kveikt á henni aftur. Ég fór því með hana í viðgerð á mánudaginn í Apple búð nálægt skrifstofunni minni, en í dag fékk ég svo símtal um að tölvan væri beisiklí ónýt. Skjárinn er ónýtur, lyklaborðið, minnið og eitthvað fleira (einhver sænsk tækniorð sem ég skildi ekki alveg). Viðgerðin átti að kosta umtalsvert meira en ódýrasta fartölvan frá Apple kostar ný útúr búð. Gögnunum tókst þó að bjarga, enda var harði diskurinn í lagi.

Því er nú komið að því að kaupa nýja fartölvu í fyrsta sinn í þrjú ár. Ég er auðvitað búinn að vera forfallinn Apple nörd megnið af mínu lífi þannig að annað kemur ekki til greina. Ég þekki auðvitað allar tölvurnar frá þeim og hef verið að hugsa síðustu mánuði um að kannski væri kominn tími til að uppfæra tölvuna, aðallega vegna þess hve batteríin í nýju vélunum eru orðin góð.

Ég er nokkuð ákveðinn í að kaupa mér Macbook Pro – ekki Air. Ég nota tölvuna 99% bara í vinnunni og myndir og slíkt er á heimilistölvunni, þannig að ég hef svo sem ekki mikla þörf fyrir mikinn kraft – en ég bara er ekki að fíla að Macbook Air sé bara með 2gb af minni. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér þeim möguleika að setja Flash drif í staðinn fyrir venjulegan harðan disk. Ég hef lesið nokkuð mikið um það og þeir sem hafa gert slíkt segja að það sé algjör bylting því að forrit hlaðist upp á sekúndubrotum. Þar sem þetta er bara vinnutölva og engar myndir eða tónlist á henni þá ætti mér að nægja 128gb (það er líka stærðin á disknum á ónýtu tölvunni og það var í fínu lagi – held að aðeins 50gb hafi verið full). Mér sýnist þó Apple selja sín SSD drif ansi dýrt. Ég sá strax Intel X25-M 160gb drif á um helmingi lægri upphæð en Apple selur sitt SSD drif. (ég mislas verðin hjá Apple – þau voru ekki svo slæm).

Núna er ég aðallega að velta því fyrir mér hvort ég eigi að kaupa tölvu 13″ eða 15″ skjá. Ég hef vanist að nota 15″, en sú tölva er stærri og þyngri (2,5kg vs 2) en 13″ vélin og þar sem ég er með tölvuna á mér mestallan daginn (og tek hana heim með mér) þá skiptir þyngdin máli. Kostur við stærri tölvuna er líka að hana er hægt að fá með möttum skjá, sem ég held að ég muni fíla betur (gamla tölvan var með möttum skjá).

100 Undur heimsins

Fyrir fimm (vá!) árum skrifaði ég á þetta blogg um ágætis síðu, Hillman Wonders þar sem að vanur ferðalangur hefur valið þá 100 staði sem honum þykja merkastir í heiminum til að sjá.

Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi og eflaust eru margir ósammála mörgum stöðum þarna á listanum (mér finnst t.d. vanta Saltvötnin í Bólivíu)

Þegar ég skrifaði þá færslu þá hafði ég séð 9 staði á þessum lista.

Nú fimm árum seinna hef ég ferðast til allmargra staða í viðbót. Ég er búinn að fara í langar ferðir um Mið-Ameríku, Suð-Austur Asíu, Mið-Austurlönd og Indónesíu – auk þess sem ég hef ferðast eitthvað innan Evrópu.

Þegar ég tók það saman fyrir einhverjum dögum þá sá ég að ég hef komið á 29 af 100 stöðum á listanum. Efst á þeim lista sem ég hef komið kemst Grand Canyon (þar sem myndin við þessa færslu er tekin í september árið 2004). Einsog ég talaði um fyrir fimm árum þá eru flestir staðirnir á listanum á Ítalíu þangað sem ég hef ekki enn komið.

En allavegana þeir staðir sem ég hef komið á eru:

[ 6. Grand Canyon ]( http://www.hillmanwonders.com/grand_canyon/grand_canyon.htm )
[ 7. Machu Picchu ]( http://www.hillmanwonders.com/machu_picchu/machu_picchu.htm )
[ 9. Iguazu Falls ]( http://www.hillmanwonders.com/iguazu_falls/iguazu_falls.htm )
[ 10. Bali ]( http://www.hillmanwonders.com/bali/bali.htm )
[ 14. Angkor Wat ]( http://www.hillmanwonders.com/angkor_wat/angkor_wat.htm )
[ 19. Teotihuacan ]( http://www.hillmanwonders.com/teotihuacan/teotihuacan.htm )
[ 22. Acropolis ]( http://www.hillmanwonders.com/acropolis/acropolis.htm )
[ 24. Jerusalem Old City ]( http://www.hillmanwonders.com/jerusalem/jerusalem.htm )
[ 26. Chichen Itza ]( http://www.hillmanwonders.com/chichen_itza/chichen_itza.htm )
[ 27. Petra ]( http://www.hillmanwonders.com/petra/petra.htm )
[ 35. Borobudur ]( http://www.hillmanwonders.com/borobudur/borobudur.htm )
[ 40. Louvre Museum ]( http://www.hillmanwonders.com/louvre/louvre_museum.htm )
[ 42. Versailles ]( http://www.hillmanwonders.com/versailles/versailles.htm )
[ 46. Metropolitan Museum ]( http://www.hillmanwonders.com/metropolitan_museum/metropolitan_museum.htm )
[ 48. Temple of the Emerald Buddha ]( http://www.hillmanwonders.com/temple_emerald_buddha/temple_emerald_buddha.htm )
[ 49. Hagia Sofia ]( http://www.hillmanwonders.com/hagia_sofia/hagia_sofia.htm )
[ 52. Prague Old Town ]( http://www.hillmanwonders.com/prague/prague.htm )
[ 58. Damascus Old City ]( http://www.hillmanwonders.com/damascus/damascus.htm )
[ 61. Rio Panoramic View ]( http://www.hillmanwonders.com/rio_panoramic/rio_panoramic.htm )
[ 68. Kremlin ]( http://www.hillmanwonders.com/kremlin/kremlin.htm )
[ 74. Baalbek ]( http://www.hillmanwonders.com/baalbek/baalbek.htm )
[ 76. Topkapi Palace ]( http://www.hillmanwonders.com/topkapi/topkapi_palace.htm )
[ 79. Angel Falls ]( http://www.hillmanwonders.com/angel_falls/angel_falls.htm )
[ 84. New York Skyline ]( http://www.hillmanwonders.com/new_york_skyline/new_york_skyline.htm )
[ 86. Eiffel Tower ]( http://www.hillmanwonders.com/eiffel_tower/eiffel_tower.htm )
[ 88. Niagara Falls ]( http://www.hillmanwonders.com/niagara_falls/niagara_falls.htm )
[ 89. The British Museum ]( http://www.hillmanwonders.com/british_museum/british_museum.htm )
[ 94. Hermitage Museum ]( http://www.hillmanwonders.com/hermitage_museum/hermitage_museum.htm )
[ 99. San Francisco ]( http://www.hillmanwonders.com/san_francisco/san_francisco.htm )

Þarna er auðvitað athyglisvert að ég hef ekki komið á neinn af topp 5 stöðunum (Píramídarnir, Galapagos, Taj Mahal, Kínamúrinn auk Serengeti dýraflutninganna). Og þótt mér finnist ég hafa ferðast mikið þá hef ég ekki einu sinni náð þriðjungi af þeim stöðum sem eru þarna á listanum.

Það er nóg eftir.

Aðeins um skattahækkanir

Ég á ansi marga vini sem eru Sjálfstæðismenn.  Það er ein afleiðing þess að vera fæddur í Garðabæ og hafa svo farið í Verzló. Það gerist því undantekningarlaust þegar að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru viðraðar að ansi margir á Facebook hjá mér fríka út.  Öskra hvað þetta sé hræðilegt, að þessi vinstri stjórn sé ómöguleg, byrja að uppnefna flokkana í stjórninni, segja að allt sé ómögulegt með flugfreyju sem forsætisráðherra og svo framvegis.

Fyrst gerðist þetta þegar að skattar á áfengi og tóbak voru hækkaður.  Þá þótti það nú merki um að allt væri að fara til fjandans.  Allir ætluðu að flytja burt frá Íslandi og svo framvegis.  Það sama gerist núna þegar að hærri tekjuskattur fyrir þá hæstlaunuðustu er nefndur.

* * *

Reyndar er nóg af rangfærslum þegar að fólk talar um þessar skattahækkanir (sem hafa jú ekki verið kynntar formlega).  Sumir halda að manneskja með 499.000 í laun borgi miklu minna en manneskja með 501.000 í laun en staðreyndin er auðvitað sú að samkvæmt þessum tillögum – einsog fjallað hefur verið um þær – þá borgar sá með hærri launin bara hæsta skatt af tekjunum sem eru umfram 500.000 krónur. (sjá hérna ágætis pistil um hvað þetta kostar hvern tekjuhóp)

Þessu virðast margir ekki hafa áttað sig á og með því má eflaust skýra hluta af æsingnum í sumum.  Þetta er bein afleiðing af því að þessum hugmyndum um skattahækkanir sé (að því er virðist) lekið í fjölmiðla.  Það veldur því að umræða einkennist oft af ranghugmyndum fólks þar sem að hugmyndirnar eru ekkert kynntar formlega og útskýrðar almennilega fyrir fólki.

* * *

Miðað við aðstæður líst mér ágætlega á þessar tillögur.

Aðstæðurnar eru þannig að ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða halla.  Það gengur ekki að velta þeim vanda bara áfram til barna okkar, heldur verðum við að takast á við vandann núna.  Til þess eru tvær leiðir.  Annaðhvort að skera niður eða auka tekjur.

Ég tel að það eigi að gera meira í niðurskurði á mörgum sviðum.  Einkafyrirtæki eru að gera það á hverjum degi og það getur ríkið líka. Ég tel að ekki hafi verið nóg gert eða allavegana hefur ríkisstjórnin ekki sýnt nægilega fram á það hvar hún ætlar að spara.

En við *verðum* líka að ná í frekari tekjur fyrir ríkissjóð.  Annað kemur hreinlega ekki til greina, nema að við fórnum algerlega okkar heilbrigðis- og menntakerfi.  Og við náum bara í auka tekjur fyrir ríkissjóð með hærri sköttum og gjöldum.

Ríkisstjórnin hefur lagt til ýmsa skatta.  Mér fannst til dæmis skattar á álver vera góð hugmynd.  En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá berst SA bara fyrir hagsmunum mannfárra verksmiðja, en ekki fyrir hagsmunum mannaflsfrekari smærri fyrirtækja.  Því virðist ríkisstjórnin ætla að draga í land með þá skatta og hækka frekar tryggingargjald (maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað minni fyrirtæki séu almennt séð að gera í SA).  Einnig hafa verið lagðir á ákveðnir neysluskattar, sem ég er almennt séð mótfallinn – en ég get ekki mótmælt mikið í því ástandi sem núna er.

* * *

Og svo eru það skattar á laun.  Ég er búinn að rökræða við fulltaf fólki á netinu síðustu daga.  Mörgum finnst ekkert jafnræði í því að fólk borgi mismikla skatta og sumir vilja meira að segja flatan krónuskatt.  Slíkar hugmyndir finnst mér fráleitar.

Ég hef alltaf talið að sanngjarnasta skattkerfið í velferðarþjóðfélagi sé að þeir sem eru með hæstu launin borgi hlutfallslega mest.  Þeir sem eru með lægstu launin borgi hlutfallslega minnst.  Ég get ekki séð annað en að þessi skattahækkun stuðli nákvæmlega að því.  Þeir sem eru með lægstu launin fá annaðhvort skattalækkun eða halda sömu skattprósentu.  Þeir sem eru með há laun borga hærri skatta.  Einstaklingur með 600.000 borgar 16.900 aukalega á mánuði. Sumir vilja meina að 5-600.000 krónur séu í raun frekar litlar tekjur. En ef 600.000 eru litlar tekjur þá eru 300.000 væntanlega ennþá minni tekjur og varla er sanngjarnt að fólkið með 300.000 beri þyngri byrðar. Meirihluti landsmanna er eftir allt með tekjur langt undir 600.000 krónum.

Enn sem komið er hefur enginn í þessum umræðum mínum á netinu geta bent á sanngjarnari leið til að skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð.  Einu rökin sem menn virðast hafa er að þetta muni minnka skatt-tekjur ríkissjóðs.  Það má vel vera að einhverjir kunni að vinna minna og að einhverjir svíki undan skatti.  En að svona hófleg skattahækkun muni leiða til allsherjar svindls tel ég vera afskaplega ólíklegt.

Þeir sem eru á móti þessari skattahækkun, sérstaklega ef þeir eru stjórnmálamenn að atvinnu, verða að benda á hvaða leiðir til tekju-aukningar hjá ríkisstjóði séu sanngjarnari. Ég hef allavegana ekki fundið þær.

Landakort

Í gesta/tölvu/lærdóms herberginu okkar hérna á Götgötunni er ég búinn að hengja upp heimskort og byrjaður að setja pinna fyrir þá staði, sem ég hef komið á (bláir pinnar fyrir mig, rauðir fyrir Margréti).

Ég hef lengi ætlað að framkvæma þessa hugmynd. Ég man alltaf eftir atriði úr The Mask (þessari frá 1985) þar sem að aðalkarakterinn hafði merkt inná Bandaríkjakort þá staði sem honum langaði til að heimsækja. Fyrir nokkrum árum fékk ég þá flugu í höfuðið að ég yrði að setja upp svona kort með þeim stöðum, sem ég hef komið á.

Þannig að ein af fáum kröfum mínum varðandi innréttingar hérna í íbúðinni var sú að setja í eitt herbergið upp svona kort. Ég pantaði það fyrir einhverjum vikum frá Bandaríkjunum og lét setja það á mjúkan bakgrunn hérna í Stokkhólmi og núna er það loksins komið upp.

Kortið er risastórt (sennilega um tveir metrar á lengd) og það er magnað að sjá hversu gríðarlega stóran hluta heimsins maður hefur aldrei komið nálægt. Ég hef heimsótt mjög stóran hluta Ameríku (flestallt merkilegt í Bandaríkjunum og alveg niður til Buenos Aires í Argentínu – en þó lítið fyrir sunnan og norðan þá staði). Og svo hef ég heimsótt stóran hluta Evrópu. En utan þess hef ég ekkert komið til Afríku, langstærsta hluta Asíu, Eyjaálfu og allra litlu eyjanna í Kyrrahafi. Það er nóg eftir að sjá.

sonicsgate.org

Sonicsgate – Virkilega góð heimildamynd um það hvernig Seattle Supersonics liðið var flutt til Oklahoma á ótrúlegan hátt.  Það er magnað að í amerískum íþróttum sé hægt að færa lið á milli borga og skilja þar með eftir þúsundir heitra aðdáenda án uppáhaldsliðsins síns.  (via Kristján Atli)

The Jobless Rate for People Like You – Interactive Graphic – NYTimes.com

The Jobless Rate for People Like You – Interactive Graphic – NYTimes.com. – Á þessari NYTimes síðu getur maður skoðað atvinnuleysi í Bandaríkjunum eftir menntun, aldri og kynþætti.  Það er magnað að leika sér með þessar tölur.  Atvinnuleysi meðal svartra án framhaldsskólaprófs á aldrinum 15-24 er 48,5% – fyrir hvíta í sama hópi er það 25,6%.  Þeir sem koma verst útúr atvinnuleysinu eru minnihlutahópar með litla menntun.