Árið 2004

Svona leit þetta blogg út árið 2004 þökk sé hinu íslenska Vefsafni, sem er afskaplega skemmtileg síða þar sem maður getur skoðað gamlar útgáfur af íslenskum vefsíðum.

Ég verð að segja að þessar færslur eldast bara furðuvel og útlitið er líka furðugott miðað við að það var gert fyrir fimm árum. Það besta við þetta er að tenglar virka líka innan Vefsafnsins. Þannig að vísun mín á aðrar íslenskar vefsíður frá því fyrir fimm árum virka enn þó að vísanirnar séu úreltar á sjálfu netinu.

Aperture vs Light Room – á ég að skipta?

Ég er að rembast við að klára að merkja og laga myndirnar mínar úr Indónesíuferðinni og uppúr því fór ég að spá í hvaða forrit ég ætti að nota við þetta verk. Ég nota Aperture og hef gert síðasta árið, en það forrit er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Sérstaklega finnst mér leiðinlegt viðmótið þegar að ég er að skýra og tag-a mikið af myndum. Þegar ég skýri myndirnar þá reynir Aperture alltaf að giska á hvað ég ætla að skýra hana, sem er ÓÞOLANDI og svo eru aðrir litlir böggar farnir að fara í taugarnar á mér.

Nú spyr ég – er einhver þarna úti sem hefur prófað bæði forrit og getur gert upp á milli þeirra? Nú er slatti af Makka-Nördum sem að notar Light Room (Gruber hjá Daring Fireball t.d.), sem hlýtur að vera hrós þar sem Apple framleiðir Aperture. Ég er að spá í að skipta, en það er eflaust slatta mál og ekki er forritið ókeypis, þannig að ég vil ekki skipta nema að ég sjái kostina. Þegar ég reyni að google-a eitthvað um samanburð á forritunum, þá finn ég fátt nema einhvern eldgamlan samanburð.

Síminn minn

iPhone símanum mínum var stolið í Indónesíu fyrir næstum því tveimur mánuðum. Síðan þá hef ég verið að nota Nokia 2760, sem er lélegur sími.

Lélegur er eiginlega ekki rétta orðið. Hryllilegur væri betra orð. Svo hryllilegur að ef ég fengi svona síma gefins með Stjörnumáltíð á McDonald’s, þá er ég ekki viss um hvort ég myndi halda honum. Það ískrar í sjálfum símanum þegar ég opna hann, ég annaðhvort heyri ekki í fólki eða þá að það er einsog það sé að tala í gjallarhorn 3cm frá eyranu mínu og svo framvegis. Á hverjum degi langar mig til þess að dúndra honum í næsta vegg. Ég meira að segja passa mig á að hafa hann ekki nærri mér þegar ég er að horfa á Liverpool af ótta við að hann myndi fjúka útum gluggann ef að mínir menn myndu klúðra góðu færi.

Síðan að ég kom heim hef ég verið með mál í gangi hjá sænska tryggingafélaginu mínu til að fá iPhone símann bættann. Þeir báðu um lögregluskýrslur og slíkt, sem ég hafði vissulega frá Indónesíu. Í dag fékk ég loksins í póstinum bréf frá tryggingafélagina þar sem mér var tjáð að þeir myndu bæta mér símann upp að fullu og ég gæti því farið útí Telia og keypt mér nýjan iPhone. Ég nánast trylltist af gleði, faðmaði Margréti og labbaði útí Telia búð áðan.

…þar sem mér var tjáð að iPhone væri uppseldur og að þeir vissu ekki hvenær hann kæmi aftur.

Ég hef komist að því á þessum vikum að ég var orðinn algjörlega háður iPhone símanum mínum. Hann er svo langsamlega besti síminn sem ég hef átt að það er nánast ekki fyndið. Ég nenni varla að fara útað hlaupa þar sem að ég get ekki notað GPS tækið í símanum mínum til að mæla hlaupið, ég meika varla langar lestarferðir lengur þar sem ég get ekki kíkt á póstinn minn – og ég enda alltaf á að bíða lengur útá lestarstöð þar sem ég get ekki notað símann til að sjá nákvæmlega hvenær næsta lest kemur. Ég hef misst af fundum þar sem ég hafði ekki dagatalið í símanum. Núna þarf ég að vera með iPod, síma og minnisbók í staðinn fyrir bara iPhone. Og svo framvegis…

Já, ég veit að þetta er væl, en ég sakna gamla símans míns.