Picturing Burj Dubai in midtown Manhattan – Svona myndi Burj Dubai, hæsta bygging heims líta út ef hún væri í New York. Hreinasta geðveiki.
Author: einarorn
Halla um breytingarnar á Mogganum
Morgunblaðið : Blogg Höllu Gunnars – Halla Gunnarsdóttir, fyrrum þingfréttaritari skrifar um breytingarnar á Mogganum. (via Oligneisti á Feisbúk)
Bíp
YouTube – Unnecessary Censorship "Come and Play Edition" Jimmy Kimmel Live – Kannski er það bara ég, en mér finnst þetta fáránlega fyndið.
Lönd heimsótt
Lönd sem ég hef komið til – Flickr – Ég var að uppfæra heimskortið mitt með þeim löndum, sem ég hef komið til. Með þessum nýjustu (Færeyjar og Indónesía) þá er ég kominn uppá 51 land.
St Petersburg world heritage status threatened by skyscraper – Telegraph – Borgarstjórnin í St. Pétursborg í Rússlandi er búin að samþykkja byggingu risaturns Gazprom í borginni, sem mun gnæfa yfir 19.aldar húsin í borginni. Sorglegt mál fyrir þessa ótrúlega fallegu borg.
Indónesíuferð 9: Myndir og bækur
Þar sem ég er veikur heima, þá tók ég mér loksins tíma í að klára að vinna hluta af myndunum úr Indónesíuferðinni. Myndirnar voru um 1.500 talsins í byrjun, núna eru um 800 eftir. Ég setti fyrsta hlutann inn á Flickr, sem eru myndir frá Taílandi og Jövu. Ég reyndi að hafa ekki alltof margar myndir í settinu, en við sáum svo margt í þessari ferð að það er erfitt að velja og hafna.
Allavegana, myndir frá Jövu og Taílandi eru hérna.
Svo er hægt að horfa á þetta sem slideshow hér.
* * *
Svona til að reyna að klára ferðasöguna frá Indónesíu, þá er hérna listi yfir þær bækur sem ég las í ferðinni. Þær eru talsvert færri en í síðustu ferð (Mið-Austurlandaferðinni) sem stafar af því að ég var með ferðafélaga og svo horfði ég líka á sjónvarp í iPod-inum mínum, sem ég hef ekki gert áður.
- Richard Dawkins: The God Delusion: Án efa merkilegasta bókin sem ég las í ferðinni. Bók sem ég mæli með fyrir alla, hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki. Ég hef farið í marga hringi með það hverju ég trúi í gegnum tíðina. Það er sennilega efni í heilar færslur, en við Margrét lásum bæði þessa bók og upp frá henni spunnust óteljandi samræður í ferðinni.
- Ben Elton – Blind Faith: Leiðinlegasta Ben Elton bókin sem ég hef lesið.
- Michael Lewis – Liar’s Poker: Lewis, (sem varð frægur á Íslandi fyrir að skrifa um springandi Range Rover bíla í Reykjavík) skrifar á skemmtilegan hátt um reynslu hans af því að vinna sem trader hjá Salomon Brothers á níunda áratugnum þegar að það fyrirtæki (sem er núna hluti af Citigroup) fann upp leiðir til að græða á nýjan hátt á fasteignaviðskiptum. Ágætis lýsing á stemningunni, græðginni og allri vitleysunni sem tengdist því.
- Tom Perrotta – The Wishbones: Þetta er fyrsta bókin eftir Perrotta (sem hefur skrifað m.a. Little Children og Election, sem eru frábærar). Góð bók, þótt seinni bækur hans séu enn betri.
- David Bach – Go Green, Live Rich: Stutt bók um umhverfisvernd og hvað við getum gert til þess að hjálpa umhverfinu. Margrét elskar svona bækur og ég las þessa hjá henni. Hún er fín.
- Guðni Jóhannesson – Hrunið: Ég kláraði hana daginn áður en ég fór í ferðina, þannig að ég hef hana með hér. Góð bók um Hrunið, þó hún bæti svo sem ekkert rosalega miklu við sem maður vissi ekki áður.
- Bill Bryson – A short history of nearly everything (hljóðbók – ókláruð): Ég hef verið að hlusta á þessa bók sem hljóðbók ansi lengi. Í Indónesíu hlustaði ég á nokkra klukkutíma og hélt áfram að heillast að þessari bók. Hlustaði til að mynda á langa kafla um þróunarkenninguna á svipuðum tíma og ég var að lesa God Delusion, sem að passaði afskaplega vel saman. Bókin fjallar á skemmtilegan hátt um heil ósköp af hlutum, svo sem jarðfræði, efnafræði og líffræði – en gerir það á svo skemmtilegan hátt að maður fær áhuga á viðfangsefnum sem maður hafði lítinn áhuga á fyrir.
Hosting Your Windows 7 Party – Hjálplegt myndband fyrir alla, sem vilja fagna útkomu Windows 7 með því að halda partí. Nei, þetta er ekki grín.
San Francisco 2009 á Flickr – Myndir frá ferð okkar Margrétar til San Francisco þar sem við fórum í brúðkaup hjá Dan og Carrie vinum okkar og hittum líka Tomma snilling sem þar býr.
YouTube – Incredible, amazing, awesome Apple – Apple menn kunna að lýsa vörunum sínum.
Íslandsferð og síðustu dagar
Það er pínu skrýtið að vera kominn aftur til Stokkhólms eftir öll ferðalagin að undanförnu. Núna sit ég inní stofu á meðan að Margrét lærir með vinkonu sinni inní eldhúsi. Ég var að klára að horfa á ManU-ManC (sem var kennslustund í því hvernig er hægt að troða 7 mínútna uppbótatíma á leik þar sem ekkert réttlætir slíkt) og horfi núna á Chelsea-Tottenham með öðru auganu. Það er ágætt að hafa ekki mikið meira á planinu núna eftir hasarinn að undanförnu.
Við vorum semsagt að koma úr stuttri Íslandsheimsókn á þriðjudaginn (eftir ferðir til Færeyja og San Francisco nokkrum dögum áður). Tilgangurinn var að fara í brúðkaup Emils og Ellu, sem var haldið í Hafnarfirði síðasta laugardag. Brúðkaupið var frábært og í raun var öll ferðin frábær. Við Margrét héldum partí fyrir vini á föstudagskvöld, fórum í skírn og brúðkaup á laugardaginn og fórum auk þess í heimsóknir til vina okkar og í matarboð. Einsog við mátti búast þá var dagskráin fáránlega þétt.
* * *
Ég þurfti líka að klára nokkra hluti í vinnunni heima og því var mánudagurinn fullur af fundum og látum. Á föstudaginn opnuðum við nefnilega sjötta Serrano staðinn á Íslandi. Þetta er í fyrsta skiptið sem að ég er ekki viðstaddur opnun á Serrano stað og það var dálítið furðulegt og einnig gaman, því það er hressandi að sjá að hlutirnir ganga jafn vel upp þegar ég er ekki á Íslandi.
Staðurinn er við Höfðatorg – við erum fyrsta fyrirtækið sem að flytur inní nýju bygginguna þar. Með opnuninni erum við að breyta nokkrum hlutum á Serrano, sem við höfum verið að skoða síðustu mánuði. Fyrir það fyrsta þá er þetta stærsti staðurinn okkar með sætum fyrir um 40 manns, hann er svipaður að útliti og staðirnir okkar í Hafnarfirði og Smáralind með nokkrum litlum útlisbreytingum þó.
Stærsta breytingin, sem að viðskiptavinir taka eftir, er sennilega sú að við notum venjulega margnota diska, glös og hnífapör í stað einnota hluta á hinum stöðunum. Þetta er nokkuð sem við ætlum að taka upp á þeim stöðum sem við getum og einnig á nýjum Serrano stöðum hérna í Svíþjóð. Einnig verðum við með barnamatseðil í fyrsta skipti heima.
* * *
Helgin hérna í Svíþjóð er búin að vera góð. Veðrið er ennþá nógu gott til að labba um bæinn á stuttermabol og við vorum búin að sakna Stokkhólms mikið á öllu þessu flakki. Við Margrét fórum á föstudaginn á [Halvgrek +Turk](http://www.halvgrekplusturk.se/), sem er grískur veitingastaður í Östermalm. Það er enginn skortur á grískum stöðum hérna í Stokkhólmi og þessi var afskaplega góður. Ég eyddi svo stærstum hluta gærdagsins í að skipuleggja hlutina í gesta/vinnuherberginu okkar hérna í íbúðinni auk þess að horfa á [Liverpool vinna West Ham](http://www.kop.is/2009/09/19/18.25.32/). Í dag tókum við svo daginn snemma með ferð á Nýlistasafnið þar sem er í gangi sýning þar sem að [verkum Salvador Dalí og Francesco Vezzoli er blandað saman](http://www.modernamuseet.se/Templates/Pages/Exhibition.aspx?id=11187).