Indónesíuferð 2: Java

Síðustu dagar hafa einkennst af miklum og löngum rútuferðum, þar sem sú síðasta myndi sóma sér með verstu Mið-Ameríku-rútuferðunum. Á nokkrum dögum höfum við farið landleiðina yfir næstum því alla Jövu. Ef maður dæmir eingöngu af stærð eyjunnar þá er það ekki mikið afrek – frá Jakarta til Ubud á Bali eru ekki nema um 1.000 kílómetrar. En vegalengdir segja ekki alla söguna.

Ég skrifaði síðast frá Yogyakarta, sem er á miðri Jövu. Þangað vorum við nýkomin frá Jakarta þegar ég bloggaði síðast. Fyrsta daginn tókum við því frekar rólega, löbbuðum aðeins um miðbæ Yogyakarta, skoðuðum markaði og létum áreita okkur af götusölum. Við kíktum svo aðeins á hallir, sem voru byggðir af súltánum sem að réðu þessum hluta Jövu í kringum árið 1800. Um kvöldið fengum við svo smá forsmekk af umferðarmenningu Jövu þegar við tókum stutta rútuferð frá Yogyakarta til Borobudur, smábæjar sem tekur nafn sitt af mögnuðum rústum búddahofs í nágrenninu. Þar gistum við á ótrúlega vel staðsettu hóteli sem er örstutt frá hofinu. Við gátum því það kvöld borðað kvöldmat með hofið í bakgrunni.

Borobodur er risavaxið búdda minnismerki, sem var byggt um 800 þegar að búddismi var enn aðaltrúarbrögðin á jövu (núna er það íslam). Vegna staðsetningar getur hótelið sem við vorum á boðið uppá að hleypa fólki að minnismerkinu um 4 leytið um morgun til að sjá þar sólarupprás. Við Margrét vorum því mætt á efstu hæð Borobudur rétt fyrir klukkan 5 og sáum þar sólarupprásina. Líkt og í Angkor Wat hérna um árið var þó þessi sólarupprás í skýjuðu veðri og áhrifin ekki þau sömu. Líkt og Angkor Wat er Borobudur magnaður staður. Minnismerkið samanstendur af 9 hæðum, sem geyma annaðhvort höggmyndir af fæðingu Búdda og fleiri atburðum, eða bjöllulaga styttur, sem innihalda litlar búdda styttur. Myndir lýsa þessu talsvert betur, en þetta er magnaður staður.

Frá Borobudur tókum við svo bíl til Prambanan, sem er samansafn af gríðarlega fallegum Hindúa-hofum, sem voru byggð á svipuðum tíma og Borobudur. Þessi Hindúa-hof hafa verið sett saman úr algjörum rústum, sem svo urðu fyrir miklum skemmdum í jarðskjálftanum á Jövu árið 2006. Í dag eru merki um skjálftan enn greinileg og enn unnið að endurbyggingu hofanna. Þau eru þó ótrúlega falleg og tignarleg. Við fórum með guide um svæðið og hann sýndi okkur flest hofin og útskýrðu fyrir okkur ólíka þýðingu þeirra. Að því loknu fórum við svo aftur til Yogyakarta.

* * *

Daginn eftir tókum við svo rútu til Probolinggo. Á þeirri löngu leið fengum við að kynnast “þjóðvega”-menningunni á Jövu. Beisiklí þá virðast engir almennilegir þjóðvegir eða hraðbrautir vera til staðar á Jövu. Allar þær leiðir sem við keyrðum voru á vegum þar sem aðeins voru tvær akreinar og nánast allar leiðir virtust liggja í gegnum bæji. Miðað við hið ótrúlega magn af fólki sem býr á Jövu þá er nánast með ólíkindum að ekki skuli vera til stærri vegir. Allan tímann sem við keyrðum voru á veginum gríðarlegt magn af gömlum vörubílum, sem flytja vörur á milli bæja á 50 kílómetra hraða. Í stöðugri baráttu við þá eru svo venjulegir bílar og rútur, sem að keppast við að taka framúr sem flestum vörubílum á sem skemmstum tíma. Á leiðinni til Probolinggo vorum við í míní-rútu, sem var keyrð af manni, sem virtist ekki hræðast það hið minnsta að vera á öfugri akrein á 100 kílómetra hraða með vörubíl sér við hlið og annan á leiðinni á móti sér. Tvisvar eða þrisvar þurftum við að biðja bílstjórann um að slaka á, svo að við kæmumst á leiðarenda á lífi.

Við vorum komin tin Probolinggo eftir sólsetur og þaðan tókum við svo aðra míní-rútu uppá fjöll og enduðum í Cemoro Lawang, litlu þorpi í mikilli hæð. Þegar við komum á leiðarenda (eftir svakalega rútuferð á örmjóum vegum í miðju fjalli) þá var hitinn úti kominn niður í 5-6 gráður, sem á Indónesískan mælikvarða er einsog 30 stiga frost. Við fengum herbergi á Cemoro Indah, verulega skrautlegu hótelio, sem að Margrét gaf fljótlega titilinn ógeðslegasti staður í heimi.

Í annað skipti á þremur dögum vorum við svo vöknuð klukkan 4 um morgun, fórum uppí 40 ára gamlan Toyota LandCruiser, sem keyrði okkur í niðamyrkri uppá útsýnispunkt. Þar horfðum við svo á ótrúlega magnaða sólarupprás yfir austur-hluta Jövu og þá sérstaklega Gunung Bromo eldfjallinu, sem er partur af fjallagarði þar. Eftir frábæran klukkutíma þar uppi (þar sem við leigðum okkur bæði þykkar úlpur til að lifa kuldann af), þá keyrði jeppinn okkur uppað sjálfu fjallinu, þar sem við gátum labbað uppá það og skoðað oní gíginn.

Frá Bromo byrjuðum við svo ferð okkar hingað til Bali, þar sem við sitjum núna inná netkaffihúsi í Ubud. Tíminn er búinn og ég á enn eftir að panta hótel og flugfar á netinu, þannig að ég læt þetta duga í bili.

*Skrifað í Ubud á eyjunni Bali í Indónesíu klukkan 17.50*

Indónesíuferð 1: Bangkok og Jakarta

Fyrstu dagarnir í þessari Indónesíuferð hafa farið í ferðalög á milli staða með stuttum stoppum. Fyrst núna erum við komin til borgar, Yogyakarta, þar sem við ætlum að vera í meira en sólarahring.

Við flugum frá Stokkhólmi til Bangkok (um 10 tímar), vorum þar í hálfan dag, flugum þaðan til Jakarta – skoðuðum þá borg í hálfan dag og tókum svo í morgun 9 tíma lestarferð hingað til Yogyakarta. Þannig að núna líður okkur einsog við höfum ferðast hálfan heiminn og getum byrjað að njóta ferðalagsins.

Bangkok og Jakarta eru auðvitað hálf geðveikar borgir. Ég hef áður komið til Bangkok – var þar árið 2006. Þá eyddi ég nokkrum dögum í borginni – gisti á Kao San, heimsótti öll hofin og borðaði ósköpin öll af Phat Thai.

Núna var tíminn mun skemmri. Við höfðum bara nokkra klukkutíma (auk þess sem að geðsjúkur krakki hafði lagt mig í einelti allt flugið til Bangkok með köllum á móður sína og því hafði ég ekkert sofið) og ákvað ég að sýna Margréti eftirminnilegustu staðina frá síðustu heimsókn, það er Wat Phra Keo og Wat Po. Ég hafði reyndar algjörlega gleymt reglum um klæðaburð í hofunum, þannig að ég þurfti að klæðast láns-náttbuxum yfir stuttbuxurnar mínar til að fá aðgang. Margrét fékk svo gullfallegt og tandurhreint pils til að vera í. Þetta jók á skemmtangildið því að náttbuxurnar juku á áhrif rakans og hitans.

Hofin eru auðvitað jafnfalleg og fyrir þremur árum. Einstaklega glæsilegar byggingar, sem eru nánast einsog nýjar þrátt fyrir að hafa verið byggðar fyrir rúmum 200 árum. Eftir að hafa borðað Pad Thai fórum við svo aftur útá kónga-flugvöllinn þar sem að við biðum eftir fluginu til Jakarta.

* * *

Í Jakarta lentum við á Soekarno-Hatta, nokkuð gamaldags flugvelli sem er skreyttum með hótunum um dauðadóm fyrir fíkniefna-smygl. Fyrir utan tók við hefðbundið leigubílahark en að lokum fundum við bíl og upplifðum Jakarta í fyrsta sinn klukkan 2 um nótt á 120 kílómetra-hraða í gegnum borgina.

Ég verð að játa að ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast í Jakarta. Fáir túristar heimsækja hana og þeir sem gera það eru sjaldan hrifnir. Auk þess man ég ekki eftir að hafa séð margar myndir frá borginni. Það var því nokkuð skrýtið að upplifa hana í fyrsta sinn svona í myrkrinu – hún leit hreint ekki svo illa út – eiginlega betur en Bangkok, sem við höfðum keyrt um fyrr um daginn.

Daginn eftir (í gær) vöknuðum við seint og gátum loksins séð borgina. Af því litla sem við sáum þá er hún gríðarlega stór, með mikilli mengun og litlum sjarma. Við gistum nálægt miðpunkti borgarinnar, einkennilegu minnismerki sem að Soekarno (sem að stýrði landinu frá sjálfstæði – 1945-1967) byggði sér til dýrðar.

Við röltum aðeins um nágrennið, smökkuðum bandarískt keðjukaffi (ekki mjög svalt þegar maður er á fokking Jövu, ég veit) og fórum svo yfir í næsta hverfi þar sem að meðal annars er þriðja stærsta moska í heimi (á eftir Mekka og Medína) – Istiqlal. Sú bygging líkist meira risa-bílastæðahúsi en mosku. En þegar við fórum inn var tekið á móti okkur með opnum örmum af einstaklega vinalegum guide, sem að sýndi okkur aðeins um moskuna. Um kvöldið borðuðum við svo frábæran indónesískan mat.

Í morgun tókum við svo lest frá Jakarta. Á labbi okkar um bæinn í gær, sem og í lestinni í morgun var ekki erfitt að sjá verstu hliðar Jakarta. Borgin hefur vaxið gríðarlega á örfáum áratugum. Í dag er talið að í henni búi allt að 25 milljónir (official talan er 18,9 milljónir en flestir telja hana mun hærri), sem gerir svæðið að næst fjölmennasta svæði í heimi (á eftir Tókíó). Mikill hluti borgarbúa býr í hreysum, þar sem að vatn er ódrekkandi og rusl útum allt. Java öll er gríðarlega þéttbýl (hér búa 130 milljónir á svæði sem er um 30% stærra en Ísland – ótrúlegt) en Jakarta slær allt út.

Því miður er svo ekki mikið fyrir túrista að sækja í Jakarta, traffíkin í borginni er nánast óbærileg og vegna þess hversu víðfem hún er þá eru öll ferðalög á milli staða erfið.

Við ákváðum því að drífa okkur hingað til Yogyakarta. Við tókum lestina frá aðal-lestarstöðinni í Jakarta. Lestarferðin var um 9 tímar og ég svaf mestallan partinn á meðan að Margrét Rós las síðustu Harry Potter bókina. Yogyakarta verður okkar bækistöð næstu daga og auk þess að skoða borgina munum við nota hana sem bækistöð til að skoða Borobodur og Prambanan.

Mikið er gott að vera kominn af stað á ný.

Skrifað í Yogyakarta á eyjunni Jövu, Indónesíu klukkan 22.06

Aftur af stað

Við Margrétum erum á leið í ferðalag á morgun.

Einsog alltaf hafa síðustu dagarnir fyrir frí verið uppfullir af stressi, sem getur oft verið ansi skemmtilegt.

Í dag prófaði ég m.a. tvo nýja mexíkóska staði, sem hafa opnað í Stokkhólmi undafarna viku. Annar með ekta mexíkóskan mat og hinn með tex-mex. Það þýðir að samkeppnin fyrir Serrano er að aukast, en við bjuggumst svosem alltaf við því og teljum okkur alveg geta staðist samanburð við alla staði. Ekta staðurinn var meira spennandi fyrir mig, enda var þar til sölu tacos al pastor, sem ég hef tjáð ást mína á áður. Í minningunni voru þó tacos í Mexíkóborg umtalsvert betri.

* * *

Ég er með pínu móral yfir því að yfirgefa Stokkhólm þegar að borgin lítur svona út. Veðrið er æðislegt og það eru fáar borgir í heiminum, sem eru fallegri en Stokkhólmur í góðu veðri.

En á morgun eigum við allavegana flug til Bangkok frá Stokkhólmi. Við eigum að lenda í Bangkok klukkan 5.50 morgunin eftir. Við eigum svo ekki flug til Jakarta fyrr en 8 um kvöldið þannig að við höfum daginn allan í Bangkok og getum því tekið smá túristarúnt þar. Svo fljúgum við til Jakarta um kvöldið og lendum þar um miðnætti. Þar ætlum við bara að eyða rúmum degi og svo fara í austurátt á Jövu.

Ég mun auðvitað blogga ferðasögur einsog vanalega.

Ég er orðinn spenntur.

1 ár

Um helgina var eitt ár frá því að við Margrét fórum á okkar fyrsta stefnumót.

Þessir 12 mánuðir hafa verið stórkostlegir. Án efa þeir bestu á minni ævi. Ég hreinlega gæti ekki hugsað mér betri kærustu.

Til að fagna þessu bauð ég Margréti í stutta ferð um lítil þorp í nágrenni Stokkhólms. Við leigðum okkur bíl og byrjuðum á því að keyra til Oaxen, sem er lítil eyja hér í skerjagarðinum. Þar borðuðum við á Oaxen Krog, sem er einn af frægustu veitingastöðum Svíþjóðar og er m.a á S.Pellegrino listanum yfir 50 bestu veitingastaði í heimi. Staðurinn er heimilislegur og kósí staður á þessari litlu eyju og eftir matinn gistum við í lítilli káettu á bát sem var bundinn við bryggju nálægt staðnum. Við fengum þar afskaplega frumlegan og góðan mat, en matseðlinum er algjörlega breytt á hverju ári.

Frá Oaxen keyrðum við svo til Mariefred þar sem við gistum á elsta gistiheimili Svíþjóðar. Þessi litli bær er þekktur fyrir Gripsholms Slott, sem er einstaklega fallegur kastali. Í Mariefred tókum við því bara rólega, skoðuðum kastalann, löbbuðum um bæinn og nutum lífsins í frábæru veðri.

Ég setti inn myndir á Flickr.

* * *

Í síðustu viku vorum við Margrét svo með gesti þegar að Helga vinkona hennar og Kjartan kærastinn hennar voru hérna í nokkra daga. Þau voru fyrstu gestirnir sem fengu að nota gesta/drasl/tölvuherbergið okkar (aðrir höfðu gist í stofunni). Við Kjartan fórum m.a. á leik með AIK á Råsunda vellinum (á meðan að stelpurnar fóru á Britney Spears tónleika), sem var nokkuð skemmtilegt auk þess sem við sýndum þeim aðeins borgina og borðuðum góðan mat.

Núna eru bara þrír dagar í Indónesíuferðina. Ég er á fullu að klára hluti í vinnunni, svo að ég geti sleppt því að hugsa um vinnuna allan daginn í Indónesíu líkt og ég geri hér.

Til hamingju!

Mikið ótrúlega er þetta ánægjulegur dagur!

island-i-esb

Ég er búinn að bíða eftir þessu í mörg, mörg ár. Ég hef verið ESB sinni nánast frá því að ég byrjaði að hugsa um pólitík. Á stundum hélt ég að þetta væri alveg töpuð barátta og við myndum aldrei sækja um. En kjósendur sýndu vilja sinn í síðustu kosningunum og í dag sjáum við loksins fram á aðildarumsókn hjá ESB. Ég er búinn að vera með í maganum síðustu daga útaf þessari atkvæðagreiðslu og það var ekki auðvelt að fylgjast með henni með því að refresh-a vísi.is á 2 mínútna fresti. En þetta tókst!

Ég gæti ekki verið glaðari. Til hamingju Ísland!

Hálfmaraþon

Fyrir um ári var ég í sögulegri útilegu í Úthlíð og var þar tæklaður af vini mínum svo illilega að ég gat ekki hlaupið í marga mánuði. Um jólin fór ég í fótbolta með nokkrum strákum og var þá svo slappur að ég sagði við Margréti þegar ég kom heim að ég yrði eitthvað að gera í málinu. Ég var vissulega í ágætis formi, enda hafði ég lyft reglulega, en það var alveg ljóst að hlaupaformið var orðið afleitt.

Janúarmánuður fór í að opna Serrano hérna í Stokkhólmi, en í byrjun febrúar byrjaði ég svo að hlaupa eftir prógrammi, sem að Margrét lét mig fá. Þetta er 13 vikna prógramm sem átti að undirbúa mann undir hálf maraþon. Ég byrjaði 4. febrúar og hljóp þá í 36 mínútur. 1 mínúta hlaup, 2 mínútur labb – 12 sinnum. Ég hljóp þetta á hlaupabretti og ætli ég hafi ekki farið um 3-4 kílómetra.

Prógrammið hélt svo áfram þrisvar í viku, alltaf blanda af labbi og skokki. Til að byrja með voru þetta vanalega 3-6 kílómetrar í hvert skipti. Ég þurfti nokkrum sinnum að taka mér hlé frá prógramminu. Ég fór í ferðalag til Frakklands í viku og svo fékk ég auðvitað heilablóðfall í lok mars. Síðasta hlaupið fyrir heilablóðfall var nokkrum dögum fyrir það og í kjölfarið tók ég mér um mánuð í frí samkvæmt læknisráði. Þegar ég byrjaði hins vegar aftur að hreyfa mig eftir heilablóðfallið þá var hlaup það fyrsta sem ég gerði, nokkru áður en ég byrjaði til að mynda að lyfta lóðum.

Það tók mig smá tíma eftir heilablóðfallið að ná fyrra þoli, en það hefur smám saman komið og ég hef smám saman farið að hlaupa vegalengdir sem ég hafði aldrei áður hlaupið. Áður en ég byrjaði á þessu prógrammi þá hef ég sennilega hlaupið mest einhverja 10 kílómetra á bretti, en síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum náð að bæta það og lengst hljóp ég einhverja 12,2 kílómetra í gríðarlegum hita. Síðustu vikur hafa hlaup uppá 6-8 kílómetra verið afskaplega létt.

Í dag var svo síðasti dagurinn á þessu plani og planið var einfalt: 21,1 kílómetri. Það mesta sem ég hef hlaupið hingað til var 12,2 kílómetrar þannig að ég var ekki alveg viss um að ég gæti þetta. Ég sagði því engum nema fólki sem var hér í matarboði í gær. Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega, nema að ég borðaði talsvert meira af brauði í gær en ég geri vanalega. Í morgun vaknaði ég um 2 tímum fyrir hlaup, fékk mér að borða, hitaðið smá upp og byrjaði að hlaupa. Og þetta tókst.

half-marathon

Sjá kort hér á Google Maps.

Leiðin sem ég fór var mjög svipuð og er hlaupin í Stokkhólmsmaraþoninu (það er tveir hringir). Ég byrjaði reyndar hérna á Söder (vanalega er byrjað á Ólympíuleikvanginum), hljóp yfir Vesturbrúna yfir á Kungsholmen, þaðan niður í miðbæ, svo uppá Odengatan og Valhallarvägen. Þar eftir kemur sennilega leiðinlegasti kafli leiðarinnar þegar hlaupið er að Frihamnen og þaðan niður á Strandvägen á Östermalm. Strandvägen var svo frekar erfiður kafli leiðarinnar þar sem ég var kominn með slæman sting í bakið, auk þess sem þar var rosalega mikið af fólki, sem var að borða ís og njóta dagsins. Þaðan hljóp ég svo framhjá Konungshöllinni á Gamla Stan og þaðan aftur yfir á Slussen þar sem ég kláraði.

Tíminn: 1:51:56

Ég er nokkuð sáttur við það. Eina takmarkið hjá mér í þetta skiptið var að klára hlaupið og gera það helst á undir tveimur tímum. Það tókst. Það er aðeins verra að gera þetta einn. Maður hefur enga hvatningu og ég þurfti að halda á vatninu allan tímann. Auk þess þurfti ég stundum að bíða á rauðu ljósi, en það skipti ekki neinu svakalegu máli. Núna eru um tveir tímar síðan ég kom heim og ég er að sötra einhvern prótínsjeik og reyna að jafna mig í löppunum sem eru afskaplega þreyttar. Mér fannst aldrei reyna sérstaklega á lungun í hlaupinu, en þegar ég kom heim þá hóstaði ég mikið sem er búið að lagast núna. En það sem hefur verið að bögga mig fyrst og fremst í hlaupum að undanförnu hefur verið að lappirnar þreytast verulega. Það var þó ekki jafn mikið vandamál í dag og ég bjóst við.

Ég er afskaplega ánægður með þetta. Ég er dálítill nörd og ég verð að játa að það sem hefur haldið mér gangandi í gegnum þetta hefur verið að halda utanum árangurinn. Það að prenta út prógrammið og skrifa á það tíma og vegalengdir eftir hvert hlaup hefur hjálpað mér. Einnig er það að nota GPS tækið í iPhone-inum gríðarlega skemmtilegt þar sem maður hefur eitthvað til að keppa við. Ég er viss um að ég hefði ekki enst jafnlengi í þessu ef ekki hefði verið fyrir það. Einnig er Stokkhólmur alveg einstaklega falleg borg og hérna er alveg frábært að hlaupa. Hérna er endalaust af fallegum leiðum og það sem hjálpaði mér klárlega í dag var að ég var að hlaupa alveg nýja leið. Hafði t.a.m. aldrei hlaupið yfir Vesturbrúna, sem er algjörlega æðisleg.

Ég er sáttur.

ESB hringavitleysa

Stundum fallast mér hreinlega hendur þegar að kemur að málefnum tengdum ESB á Íslandi.

Síðan ég man eftir mér hefur vart mátt tala um ESB umsókn. Þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar hafi viljað sækja um aðild, þá hafa stjórnmálaflokkarnir ekki geta klárað þetta mál og aldrei komið til greina að hlusta á almenning. Núna þegar allt er hrunið og við kjósum til þings og flokkar, sem vilja ESB aðild, ná meirihluta á þingi, þá virðist lausn andstæðinga aðildar vera sú að halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Til að tefja það enn frekar.

Bjarni Benediktsson hlýtur að fara að setja eitthvað met í fjölda skoðanna á ESB aðild. Hann vildi sækja um aðild í [desember](http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item241823/), svo vildi hann ekki sækja um aðild eftir landsfund og fyrir kosningar, en núna vill hann halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hver ætli skoðun hans verði á morgun? Það verður spennandi að sjá.

Þvílík vitleysa.