Bensínverð

Ekki hef ég trú á að undirskriftarsöfnun muni lækka bensínverð á Íslandi. En öllu athyglisverðari er [þessi tafla yfir bensínverð í ýmsum löndum heims](http://money.cnn.com/pf/features/lists/global_gasprices/).

Dýrasti lítrinn á þessum lista er í Hollandi, en þar kostar gallon af bensínu 6,48 dollara. Hvað kostar gallonið á Íslandi? Jú **6,82 dollara**. Auðvitað erum við númer 1! Við erum langbest!

Gallonið í Venezuela kostar 0,12 dollara. Það þýðir að lítrinn af bensíni á bensínstöð í Caracas kostar rúmar 2 krónur (já, tvær krónur). Þegar að ríkisstjórnin í Venezuela ætlaði að hækka bensínverð þegar ég bjó þar, þá kveiktu rútubílstjórar í bílum og lokuðu götum, þannig að ég komst ekki í skólann. Mikið var það nú gaman.

One thought on “Bensínverð”

  1. Ég sá einmitt svona lista í DV (minnir mig) um helgina.

    Þar var Egyptaland í 2. sæti á eftir Venesúela.

    Þar kostar lítrinn eina gínneu/egypskt pund. Það eru tæpar 11 krónur.

    Síðustu mánuði hefur hinsvegar ekki fengist bensín fyrir það verð nema fram að circa 20. hvers mánaðar. Þá eru “birgðarnar” búnar og fólk verður að kaupa óniðurgreitt bensín fyrir 1,8-1,9 gínneur.

    Þetta þótti einmitt mikið vandamál. En einhvern veginn varð ríkisstjórnin að spara niðurgreiðslurnar og nú er verið að tala um að aðeins fátækir fái “skömmtunarseðla” fyrir ódýru bensíni.

    Svo er það góð spurning, hvaða “fátæklingar” eiga bíla í þróunarlöndum á borð við Egyptaland?

    Ekki það að þeir sem eiga nýjustu og fínustu bílana kaupa 95 oktana bensín á sérstökum bensínstöðvum, þar sem lítrinn kostar upp í 2,5 gínneur.

Comments are closed.