Blessuð börnin

Ég er í þeim merka kjósendahóp “*stjórnendur undir 30, sem búa einir í Vesturbænum*”, sem nákvæmlega enginn stjórnmálaflokkur reynir að höfða til í þessum blessuðu kosningum. Þess vegna hef ég takmarkaðan áhuga á kosningunum, nema þá helst skipulagsmálum.

Þrátt fyrir að ég eigi ekki börn, þá trúi ég sem hagfræðingur á kosti þess að fólkið í kringum mig eigi börn. Við þurfum fleira fólk á Íslandi og það er hagkvæmt fyrir hagkerfið. Því tel ég að ríkið eigi að gera það, sem menn geta til að gera það heillandi fyrir ungt fólk að eignast börn.

Eeeeeen, erum við ekki komin útí vitleysu í þessari kosningabaráttu? Ef ég skil rétt þá, ef öll loforð verða uppfyllt, þarf ég á næsta kjörtímabili að borga eftirfarandi undir börn í Reykjavík: Leikskóla nánast frá fæðingu – allan kostnað, skólabúninga og allan matinn þeirra í skólanum.

Og það nýjasta nýtt, sem ég sá í Fréttablaðinu í dag: EXBÉ ætlar að láta mig borga 40.000 *frístundakort* fyrir öll börn í borginni! Þannig að ég á að fara að borga fyrir fiðlutíma hjá krökkum útí bæ. Erum við ekki aaaðeins að tapa okkur í sósíalismanum? Af hverju segir enginn neitt? Finnst öllum þetta eðlilegt? Hvað með krakka, sem hafa skrýtin áhugamál. Mér fannst til dæmis gaman að búa til módel þegar ég var lítill. Mjög gefandi og þroskandi áhugamál. Á að borga undir slík áhugamál?

Nú segi ég stopp.

Svona gerist í kosningabaráttu þar sem enginn hægri flokkur er fyrir hendi, aðeins ömurleg gerviútgáfa af gamla íhaldsflokknum, sem er að breytast í sósíalistaflokk vegna þess að hann hefur ekki lengur trú á sinni eigin stefnu. Jaðarflokkar einsog VG og Sjálfstæðisflokkurinn eru oft nauðsynlegir til að stoppa mestu vitleysuna í umræðunni.


Ég vann á Serrano í kvöld, þar sem Evróvisjónsjúkir starfsmenn höfðu biðlað til mín um frí. Frá 19.15 var Kringlan nánast tóm. Eina fólkið, sem verslaði hjá okkur var starfsfólk Kringlunnar, sem skiptist á sögum við mig um hvað rosalega væri tómt í húsinu. Jú, og nokkrir útlendingar komu líka og spurðu um þessa geðveiki.


Neil Young platan verður betri og betri. Allir saman nú:

>Let’s impeach the president for lyin’
Misleading our country into war
Abusing all the power that we gave him
And shipping all our money out the door

Hvar er allt unga fólkið í tónlistinni? Af hverju þarf sextugan Kanadamann til að syngja um ástandið í heiminum einsog það er? Ó, Neil – hann er snillingur.

>Let’s impeach the president for hijacking
Our religion and using it to get elected
Dividing our country into colors
And still leaving black people neglected

Jammmmmm…

11 thoughts on “Blessuð börnin”

  1. Iss, hafðu ekki áhyggjur af því að 40 þús. kallinn þinn fari í fiðlusarg.

    Með þessari útfærslu Framsóknarmanna – að senda öllum foreldrum ávísun – þá er tryggt að ríkið hirðir tæplega helminginn í tekjuskatt.

    Það verður því Árni Matthiesen sem tekur sitt en ekki fiðlukennarinn.

  2. Það er greinilegt að exbé-menn hafa meiri trú á að þeir nái inn manni í Reykjavík en Hafnarfirði. Hér lofa þeir 50 þúsund króna frístundakortum – eru greinilega að reyna að vinna sig upp úr óvissumörkunum í skoðanakönnununum…

  3. Já, mér einmitt líka alveg komið nóg. Módel smíði væri ekki sponsað áhugamál heldur er þetta aðeins greitt til “viðurkenndra” félaga. Væntanlega aðeins íþróttir í þeim pakka.
    Það er svosem allt í lagi að fólk fái niðurgreiðslu en að hafa þetta alveg frítt finnst mér fáránlegt því þá er alveg jafn líklegt að konur/menn sem eru heimavinnandi sendi krakkana á leikskólann til að “fá smá frí”. Tillögur sjálfstæðismanna finnst mér bestar.. meiri niðurgreiðsla án þess að fara alveg í ókeypis pakkann.
    Væri ekki rétt að bæta kjör hjá starfsfólki leikskólanna? Hvernig ætla þeir að fara að því ef þeir minnka tekjur sínar um tugi þúsunda á mánuði per barn?

  4. Einar, ætlar þú aldrei að skilja að á Íslandi er barnleysi um þrítugt talið í besta falli afbrygðilegt 😉

  5. Hmm… Einar, því að rétta foreldrum tómstundaávísun verður líklega fylgt á eftir með að draga úr beinum styrkjum til íþróttafélaga og félagasamtaka sem sinna tómstundum barna og unglinga. Þannig yrði foreldum gefinn kostur á að “kjósa með krónunum sínum” – frekar en að einhver kontóristi hjá borginni velji fyrir alla.

    Ættir þú sem kapítalisti ekki að vera fylgjandi svona breytingum?

    Ég hef allavega ósköp litlar áhyggjur af því að *ef* þetta loforð yrði uppfyllt, þá hefði það nein teljandi áhrif á raunútgjöld borgarinnar til tómstunda barna. Ég er löngu hættur að taka svona sjónhverfingar trúanlegar.

    Bloggarinn sem var áður þekktur sem Stefán Pálsson: Góður punktur hjá þér með tekjuskattinn af þessu. … en og þó… heldurðu virkilega að mönnum tækist ekki að finna þessum aurum leið fram hjá tekjuskattsskrímslinu?

  6. Varðandi Neil Young…

    Eins og þú segir, þarf Kanadamann til að syngja:
    Let’s impeach the president for lyin’
    Misleading our country into war
    Abusing all the power that we gave him
    And shipping all our money out the door

    Just saying…

  7. Birkir, Neil Young hefur búið í USA í tugi ára og á börn, sem eru fædd þar og hafa búið alla ævi.

    Már, það hefur ekkert komið fram um að taka eigi þessa peninga frá öðru. Eða allavegana hef ég ekki skilið málflutninginn þannig. Ef það er málið, þá er þetta ágætis hugmynd. En einsog exbé kynnir þetta, þá eru þetta bara ókeypis peningar fyrir alla.

  8. Alltaf gaman að heyra þvaður frá tónlistarmönnum sem eru búinn að steikja heilan á sér með dópi. Er þetta ekki sami hálfvitinn og vældi yfir Pepsi. Flottur tónlistarmaður samt

  9. Ég veit að Young hefur búið í USA í áratugi… það var bara skemmtilega kaldhæðið að þú tókst fram að hann væri kanadamaður…

  10. Regla 37 í alþjóðasamskiptum: Aldrei kalla Kanadamenn “American”.

    Það er svona næstum eins móðgandi einsog að kalla Kínverja eða Kóreubúa Japana. Og verri mógðun á þessum síðustu og verstu tímum en að kalla Íra Breta 🙂

Comments are closed.