Breytingar og komment

Í gærkvöldi var ég í product myndatöku fyrir Serrano. Þar voru ég og Hans rekstrarstjóri að búa til matinn okkar án tillits til bragðgæða, heldur hugsuðum við aðeins um að maturinn liti sem best út. Þetta getur oft verið talsvert flókið mál, sérstaklega þegar matnum er haldið saman af tannstönglum og slíku.

Það er núna ár síðan ég fór fyrst með matinn í myndatöku. Þá var ég ein taugahrúga og kunni ekki almennilega að brjóta saman burrito. Þess vegna er burritoinn okkar flatur á matseðilssmyndum. Það hefur valdið víðtækum misskilningi, sem mun vonandi hverfa þegar við breytum um útlit á staðnum.

Í myndatökunni í fyrra var ég með magaverk úr stressi því ég fékk það á tilfinninguna að ég væri að fara útí einhverja djöfulsins vitleysu. Fannst ég ekki vita eða kunna neitt um mat og fattaði ekki alveg hvernig mér datt í hug að opna veitingastað.

En þetta reddaðist svo sem. Núna á laugardaginn eftir viku eigum við semsagt 1. árs afmæli. Þá munum við breyta aðeins um útlit á staðnum. Í myndatökunni vorum við líka að taka myndir af nýjungum, sem við ætlum að kynna smám saman á næstu mánuðum.


Annars, þá er komment númer 1000 komið á þessari síðu. Það var þetta komment hjá Matta. Hann fær engin blóm, því miður 🙂

Þess má geta að færslurnar eru komnar uppí 950 stykki. Með þessu áframhaldi ætti ég að komast yfir 1000 fyrir lok þessa árs. Í gærkvöldi hrundi svo MySQL gagnagrunnurinn, sem gaf mér létt sjokk. Allar færslurnar og öll komment hurfu í nokkra klukkutíma. En (eftir 4 taugaáföll) tókst mér að redda því aftur.

10 thoughts on “Breytingar og komment”

 1. Langar bara að óska ykkur til hamingju með afmælið!
  Fór nokkrum sinnum á Serrano áður en ég flutti út og var aldrei svikin. Held ég hafi meira að segja farið oftast þangað af öllum skyndibitastöðum á þessum tíma 🙂

 2. Er sniðugt að skrifa á síðuna að maturinn sem fólk pantar eftir myndum er ekki maturinn sem fólk fær?

  Bara svona frá viðskiptalegu sjónarmiði. Ég mæti samt pottþétt á Seranó um jólinn og dreg Katrínu með vegna hreinskilni þinnar.

 3. Maturinn á myndunum er náttúrulega sá sami og fólk fær. En samt, þá hugsar maður öðruvísi. Til dæmis er óþroskaður avocado ýkt flottur á mynd en alveg óætur í raun og veru.

  En þetta er náttúrulega svona á öllum stöðum. Ljósmyndarinn sagðist aldrei hafa getað borðað mat, sem hann hefði verið að mynda vegna þess að það var alltaf búið að klína kennaratyggjó eða sprauta olíu á matinn :biggrin2:

  Og takk Eyrún. Það gengur hins vegar náttúrulega alls ekki að viðskiptavinir okkar séu að flytja til útlanda 😉

  Og auðvitað er kominn tími á að netkærstan mín fari að borða á Serrano. Þetta er orðið algert hneyksli!

 4. AHA! Þarna er nefnilega komið atriði sem hefur pirrað mig óskaplega á öllum skyndibitastöðum, myndirnar á matseðlinum eru ekki nálægt því að líkjast því sem maður fær svo afhent þó maður panti eftir akkúrat því númeri sem myndin var merkt.

  Nokkrum sinnum hef ég verið nálægt því að mæta með upptökuvél og þrasa við starfsfólkið og bíða eftir að það útbúi fyrir mig alveg eins og er á myndunum!

 5. Það er nú hæpið að ætlast til að maturinn sé nákvæmlega einsog á myndum á svona skyndibitastöðum. Einsog ég sagði, þá er innihaldið það sama og á myndunum, en því er ekki raðað jafn vandlega þegar við afgreiðum fólk. Enda er hætt við því að fólk yrði orðið ansi geðveikt ef maður færi að spá í því hvort tómaturinn ætti að snúa inn eða út og hvort hann ætti að vera vinstra eða hægra megin þegar maður væri að afgreiða 🙂

  Ég held að það sé ekki hægt að framkalla eins vöru í tvö skipti nema í verksmiðju. :confused:

  Hitt er svo annað mál ef að maturinn er beinlínis ógirnilegur í raunveruleikanum (einsog í Falling Down, til dæmis :-))

  En ég held nú að ég hafi varla verið að ljóstra upp einhverju atvinnuleyndarmáli, Jói. 🙂 Maturinn okkar lítur allavegana mjög vel í raunveruleikanum líka. 🙂

 6. ég vona að þið spæsið í sterkari salsa og bætið búrítóið, sry en það er bara ekki að standast samanburð á texmex búrítóið í útlöndum, taco bell er meira að segja með betra búrító en þið, það þarf að vera sterkara m.a.
  samt mjög gott framtak að opna svona stað hérna heima

 7. Hmm… Hef heyrt þetta áður. Málið er bara að mér finnst sterka sósan okkar alveg fáránlega sterk, þannig að ef hún er eitthvað sterkari, þá verða bragðlaukarnir mínir alveg óvirkir.

  Þurfum að safna saman svona hetjum, sem þola endalaust sterkan mat til að prófa okkur áfram með nýjar sósu 🙂

  En come on, maður, við erum tíu sinnum betri en burritoin á tacobell!

Comments are closed.