"I'm afraid we might have awaken a sleeping giant"

Ég er svona aðeins að reyna að átta mig á atburðum dagsins. Þetta er búinn að vera alveg hræðilegur dagur.

Ég var á leiðinni í vinnuna þegar árásirnar áttu sér stað. Ég var að hlusta á Howard Stern (sem sendir út frá New York) en samt hljómaði ekkert óvenjulega. Þegar ég kom hins vegar inná skrifstofu sagði Mary Jo, sem vinnur með mér, að hún hefði heyrt á leiðinni að lítil flugvél hefði hrapað á World Trade Center. Mér fannst þetta dálítið skrítið og reyndi náttúrulega strax að komast á netið og við kveiktum líka á útvarpi. Þá heyrðum við að í raun hefðu tvær stórar farðegaþotur skollið á World Trade Center.

Það var ómögulegt að komast inná alla bandarísku fréttavefina, þannig að maður varð að treysta á útvarpið. Stuttu síðar komu svo fréttir frá Chicago um að verið væri að tæma Sears Tower, sem er hæsta bygging í Bandaríkjunum. Ég hringdi heim í Hildi og vakti hana og hún kveikti strax á CNN í sjónvarpinu.

Í dag var síðasti vinnudagurinn minn, en það var ekki mikið unnið. Ég sat frammi hjá ljósritunarvélunum og við hlustuðum þar öll á útvarpið, en CBS með Dan Rather, voru með samsendingu í útvarpi og sjónvarpi. Smám saman komu fréttirnar svo frá Washington D.C. og Pittsburg. Ég man að á tíma var talað um að ráðist hefði verið á Camp David og að enn ein flugvél væri á leið til Washington D.C. Maður vissi ekki hvort maður ætti að vera hræddur eða bara hissa. Konurnar á skrifstofunni voru grátandi, því að fréttirnar voru mjög ruglandi. Við þekkjum öll fólk bæði í New York og Washington D.C.

Svo um klukkan 11 var okkur gefið frí í vinnunni og sagt að fara heim. Aðalástæðan fyrir því var sú að fyrirtækið er mjög nálægt O’Hare, sem er sá flugvöllur í Bandaríkjunum, sem hefur mesta traffík.

Ég keyrði því heim og kveikti strax þar á sjónvarpinu og er síðan þá búin að horfa á sjónvarpið í mest allan dag. Við erum með um 80 stöðvar í sjónvarpinu. Ég held að um 3-4 hafi haldið áfram venjulegri dagskrá. Allar hinar stöðvarnar annaðhvort sýndu atburðina eða höfðu bara skilti, þar sem þeir lýstu yfir sorg yfir atburðunum. Öllum atburðum hefur verið frestað. Öllum íþróttaleikjum hefur verið frestað og mörg fyrirtæki munu hafa lokað á morgun.

Það eru margar spurningar, sem vakna eftir þessa atburði.

  • Hvernig í ósköpunum er hægt að ræna fjórum farðegaþotum í einu?
  • Ef að eina, sem var notað, voru hnífar einsog hefur verið haldið fram, af hverju gátu engir farþegar yfirbugað árásarmennina? Ef við ímyndum okkur að um 80 manns hafi verið í hverri vél, þá eru væntanlega 40 karlmenn. þannig að ræningjarnir hljóta að hafa verið margir. Ef þeir hefðu verið t.d. 5, þá hefðu 40 karlmenn örugglega yfirbugað þá, sama þótt árásarmennirnir hefðu verið með hnífa.
  • Hvert átti þotan, sem hrapaði við Pittsburg, að fara?
  • Af hverju er ráðist á Washington D.C. þegar George W. Bush er staddur í Florida

Hvað á maður að hugsa eða segja. Sumir vitna í Nostradamus, aðrir kenna stefnu Bandaríkjanna um. Ég á ekki orð til að lðsa fyrirtlitningu minni á þeim, sem fordæma þessi atvik ekki fyrirvaralaust. Það er ekki á nokkrum máta hægt að kenna utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þetta. Sama í hve mörgum löndum Bandaríkjamenn hafa afskipti, það hefur enginn rétt til, eða getur stutt, svona hræðilega og heigulslega árás. Það er hámark heigulsháttar að ráðast á saklaust án þess að taka á sig ábyrgðina.

Það er nokkuð ljóst að almenningur í Bandaríkjunum vill hefnd. Sumir gera sér ekki grein fyrir því að almenningur í Bandaríkjunum á afskaplega erfitt með að skilja af hverju fólk hatar þetta frábæra land. Ég hef auðvitað lítinn skilning á ástæðunum. Öfund er vissulega stór þáttur, en aðrir þættir spila væntanlega þar líka inní.

En fólk vill hefnd. Á skrifstofunni minni í morgun heyrði ég konurnar heimta aðgerðir. Þær, einsog flestir Bandaríkjamenn vilja aðgerðir sem fyrst. Ég held að það sé þó ljóst að Bandaríkjamenn munu ekki grípa til aðgerða nema að þeir finni út nákvæmlega hverjir stóðu að baki þessu.

Það er kannski dálítið kaldhæðið að á þessum hræðilega degi fyrir Bandaríkin þá erum við Hildur að flýja land. Við ætlum að halda til hins friðsæla lands í norðri, Kanada.

Árni Johnsen og systir mín

Fróðlegt að lesa um þessi Árna Johnsen mál heima á Íslandi. Ég er handviss um að Anna systir mín er mjög ánægð þessa dagana, því Árni Johnsen er ekki í miklu uppáhaldi hjá henni. Annars skil ég ekki hvernig Árni getur komist á þing, því það styður hann í raun enginn. Sjálfstæðismenn skammast sín fyrir að hafa hann í flokknum og allir í stjórnarandstöðunni hafa alltaf fordæmt afstöðu hans til flestra mála. Enda er Árni Johnsen fastur aftur í fornöld.

Annars er skrítið að enginn skuli segja neitt þegar að hann kallar samkynhneigða kynvillinga eða lemur Pál Óskar á þjóðhátíð en svo eru núna allir vitlausir útaf einhverjum úttektum í BYKO.

Vitleysa

Ég var að skoða pólítík.is og fann þar þessa miklu speki:

Á frídeginum er einnig mikið um að vera. Sundstaðir fyllast, ísbúllur blómstra, öndunum er gefið, kaffihúsin iða af lífi, garðurinn er tekinn í gegn, bakaríin eru tæmt, pizza er pöntuð heim, hraðbankarnir eru tæmdir, bíllinn er þveginn og fylltur af bensíni fyrir bíltúrinn og kvikmyndahús eru nýtt til hins ýtrasta.Frídagar í miðri vinnuviku auka ekki einungis hagvöxt með aukinni neyslu heldur einnig lífsgleðina en einmitt sú gleði er ástæðan fyrir því að við erum að þessu öllu saman. Rómverjarnir vissu nákvæmlega hvernig gera átti hlutina. Þeir héldu hátíð þriðja hvern dag.

Maðurinn, sem skrifar þetta mun án efa bylta öllum hugmyndum hagfræðinga hingað til. Samkvæmt þessari kenningu væri hægt að hafa frí allt árið kaupa bara nógu mikið og þá myndi hagvöxturinn slá öll met.

Hagfræði

Ég er að skrifa hagfræðiritgerð um nýju frjálshyggjuna (new liberalism). Þá er ekki úr vegi að vitna í Subcomandante Marcos, leiðtoga Zapatista í Mexíkó:

To the powers that be, known internationally by the term “Neoliberalism”, we did not count, we did not produce, we did not buy, and we did not sell. We were a cipher in the accounts of big capital. Then we went to the mountains to find ourselves and see if we could ease the pain of being forgotten stones and weeds. Here, in the mountains of southeastern Mexico, our dead live on.

Hroki

Ég veit að ég á ekki að vera að gagnrýna Ágúst Flygenring, þar sem ég er viss um að hann lifir á því að fólk sé að hneykslast á honum. Ég hef hins vegar komist að því að hann er með ólíkindum hrokafullur.

Til dæmis vil ég benda á skoðanakönnun hans um hver sé “skástur” forseta Bandaríkjanna á þessari öld. Með þessu orðavali, að tala um skásta forsetann er hann að segja að í raun sé enginn forseti, sem geti talist góður á þessari öld. Hann segir að enginn sé bestur, heldur bara skástur. Þetta er ótrúlegur hroki, sem er alltof algengur hjá Íslendingum og Evrópubúum gagnvart Bandaríkjunum.

Fyrirgefðu, en er FD Roosevelt ekki bara nokkuð góður forseti (ég kaus hann), maðurinn, sem leiddi Bandaríkjamenn útúr mestu kreppu þessarar aldar? Var það ekki nokkuð gott hjá Truman að koma á Marshall aðstoðinni? Reyndar þá minnist Ágúst ekki einu sinni á menn einsog Richard Nixon (sem m.a. hóf samskipti við Kína, þrátt fyrir að hann hafi gert önnur mistök), LB Johnson og Gerald Ford. Er það ekki bara nokkuð gott hjá Reagan að enda í raun kalda stríðið? Og er það ekki bara nokkuð gott hjá Bill Clinton að stýra Bandaríkjamönnum í gegnum 8 ára uppsveiflu? Ágúst segir um Clinton:

Svo má ekki gleyma að honum mistókst ekki að stýra Bandaríkjunum í gegnum eitt mesta góðæri síðustu áratuga.

Hvers konar bull er þetta eiginlega? Þetta er gríðarlegur og óþolandi hroki hjá dreng, sem kann ekki einu sinni að stafa “Roosevelt”.

Er ég ekki hugsjónamaður?

Það er mér löngu orðið ljóst að Ágúst Flygenring er einn af allra duglegustu pennunum á naggnum. Ég hef í raun oft haldið að hann skrifi með þeim einum tilgangi að hneyksla og fara í taugarnar á öðrum, því sumir vefleiðarar gera í raun ekkert annað en að svara Ágústi.

Ég hef þó mjög gaman af að lesa síðuna hans Ágústs, því ég hef ávallt mikinn áhuga uppá hverju hann tekur næst. Mér fannst til dæmis mjög sniðugt þegar hann tók sig til og sagði frá því að á náttborðinu síðustu daga hefði legið fjárlagafrumvarpið. Ef þessi gaur er ekki á leiðinni inná þing, þá skal ég hundur heita.

Pistillinn hans í dag minnti mig á að það er eitt, sem fer alveg ofboðslega í taugarnar á mér í málflutningi Ágústs. Reyndar hef ég líka tekið eftir þessu hjá fleiri vefleiðurum. Ágúst fjallar í skondnum pistli sínum í dag um jafnrétti og jöfnuð. Þar ber hann saman það sem hann kallar jafnrétti og sósíalisma. Hann endar svo pistilinn á orðunum:

Svo er aftur á móti spurningin hversu mikinn jöfnuð við erum að tala um. Þá erum við komin með útþynnta theoríu, sem oft hefur verið kallaður “kratismi” og er það allt annað.

Ef ég hef einhvern tímann stutt stjórnmálaflokk á Íslandi þá var það sjálfsagt Alþýðuflokkurinn undir stjórn Jóns Baldvins. Ég var sammála þeim flokki í mörgum málum, t.d. landbúnaðarmálum (þar sem menn voru ekki hræddir við að mótmæla framsóknarmennsku), Evrópumálum og langflestu í efnahagsmálunum. Ég tilheyrði sennilega hægri helmingi flokksins. Ég tel mig vera mun hægrisinnaðari en flesta Sjálfstæðismenn, en það sem ég þoli ekki við Sjálfstæðisflokkinn er að í honum er of mikið af Íhalds- og framsóknarmönnum. Eftir að Samfylkingin varð til þá hef ég ekki fundið flokk, sem ég er fullkomlega sáttur við.

Já, ég ætlaði víst að tala um Ágúst. Málið er að ég á erfitt með að þola það þegar það að vera krati þýðir að maður geti ekki verið hugsjónarmaður. Eins og Ágúst kallar það, þá er “kratismi” útþynnt theoría. Ég er ekki sammála þessu. Samkvæmt Ágústi þá þurfa menn að vera öfgamenn til hægri eða vinstri til að geta talist hugsjónarmenn. Ágúst hefur oft kallað þá sem skrifa fyrir Múrinn hugsjónarmenn (og efast ég ekki um það), en hann hefur svo oft í sömu andrá gefið í skyn að þeir sem séu nær miðju séu bara einhverjir vitleysingar, sem trúi ekki á hugsjón, heldur séu bara valdagráðugir. Þetta er ekki sanngjarnt. Ég tel mig alveg vera jafnmikinn hugsjónarmann og þá, sem skrifa fyrir frelsiog múrinn. Ég er hins vegar hlynntur stefnu, sem fær lánað það besta úr báðum áttum. Ég held að flestir séu sammála um það að öfgarnar ganga ekki alveg upp.