Egyptalandsferð 1: Kaíró

Það eru ansi margir búnir að vara okkur við Kaíró. Við menguninni, umferðinni, öllu fólkinu, skítnum, hávaðanum og öllum köllunum, sem myndu klípa Margréti.

Eflaust er ég ansi mörgu vanur af ferðalögum, en eftir þessa tvo fyrstu daga þá finnst mér Kaíró alls ekki slæm. Í raun er ég mjög skotinn í þessari borg. Vissulega er skíturinn og mengunin mikil, en öll geðveikin er líka ótrúlega heillandi. Kaíró er 11.stærsta borg í heimi með um 18 milljón íbúa, þó að margir segji að hér búi mun fleiri. Hún er langstærsta borgin í Afríku (Lagos í Nígeríu er næst stærst með um helmingi færri íbúa) og hún er sögð vera ein sú versta í heimi þegar að kemur að mengun.

Ég hef lengi verið spenntur fyrir Kaíró. Að ég held alveg frá því þegar að ég sá Raiders of the Lost Ark þar sem að Sallah, vinur Indiana Jones, sýnir honum Kaíró. Þá var Kaíró sennilega meira heillandi en í dag. Í dag er hún á margan hátt lík þeim risaborgum sem ég hef farið til utan Evrópu og Ameríku – yfirfull af fólki og bílum. Bílarnir keyra um á bensíni með blýi í og því er mengunin slæm, auk þess sem umferðin er líka hálf geðveik og ekki ólíkt asískum stórborgum þá byrjar maður á því að labba yfir götu og vonast til að bílarnir stoppi í stað þess að bíða eftir því að gat myndist í umferðinni. Slíkt gerist aldrei.

En borgin er líka gríðarlega heillandi, full af ótrúlegu lífi. Við höfum verið boðin velkomin til Egyptalands sirka 150 sinnum síðan að við komum hingað, í lang, langflestum tilfellum af fólki sem hafði engan áhuga á að selja okkur neitt. Það er erfitt að verða ekki hrifinn af borg þegar að íbúarnir eru jafn gestrisnir.

* * *

Við komum hérna til Kaíró seint á föstudagsnótt eftir flug frá Stokkhólmi (via Amsterdam). Við höfðum skipulagt pick-up frá hótelinu því mér leiðist fátt meira en að díla við leiguílstjóra á flugvöllum í nýjum löndum.

Fyrstu tveim dögunum hérna höfum við eytt á labbi um borgina og í að skoða Egypska safnið.

Í gær eyddum við deginum á labbi um miðbæinn og yfir í íslamska hluta borgarinnar (borgin er jú öll íslömsk fyrir utan smá kristinn hluta en hverfið er samt ennþá kallað þetta). Þetta er ansi langt labb og við erum ekkert voðalega góð í að lesa götuskilti á arabísku, þannig að við villtumst nokkrum sinnum. Inná milli eru götuskilti á ensku líka en það er frekar tilviljanakennt og stundum er götuskiltum bara alveg sleppt. Á þessu labbi frá miðbænum yfir í íslamska hlutann sjást tveir ólíkir hlutar af Kaíró. Allt frá nútímalegum miðbænum yfir í eldgamlar byggingar í íslamska hlutanum. Þar er auðvitað frægust bygginga Al-Azhar moskan, sem í minni upplifun líður fyrir það að jafnast alls ekki á við Umayyad í Damaskus, en hún var byggð í kringum árið 1.000.

Íslamski hluti Kaíró er þó þekktastur fyrir Khan al-Khalili markaðinn, sem hefur verið aðalmarkaður Karíó búa í yfir 600 ár. Þarna er hægt að finna ótrúlegt magn af drasli, en þar er líka sjarmerandi að vera, sérstaklega þegar maður labbar í gegnum kryddhlutana með sterkum lyktum og sér að þetta er ekki bara túristamarkaður, heldur líka markaður þar sem að fólk gerir enn í dag sín innkaup. Við þurftum ekki að labba langt frá Hussein torgi til þess að vera bara meðal innfæddra.

Gærkvöldinu eyddum við svo á egypskum veitingastað þar sem við hlustuðum á fullkomlega óbærilega klassíska egypska tónlist þar sem að fjórir karlmenn með Fez húfur börðu á einhverjar trommur á meðan að gömul kona söng eitthvað lag, sem varla heyrðist útaf trommunum.

* * *

Hápunktur dagsins í dag var svo heimsókn á Egypska safnið. Á því safni er stórkostlegt samansafn af egypskum fornleifum. Það er jú sennilega fáar þjóðir, sem geta státað af jafn ótrúlegu safni af fornleifum og Egyptar. Vissulega er eitthvað af þessum fornleifum í dag á Metropolitan, British Museum eða öðrum evrópskum söfnum, en stærsti hlutinn er þó hér í Kaíró. Safnið er fyrir löngu búið að sprengja utanaf sér húsnæðið og það er í raun með ólíkindum að koma þarna inn og sjá sumum fornmununum nánast staflað uppá hvorn annan. Fornleifar sem í öllum öðrum löndum myndust teljast stórkostlegir eru lítið annað en uppfyllingarefni á Egypska safninu.

Safnið er þekktast fyrir Dauðagrímu Tutankhamun, stórkostlega 11 kílóa gullgrímu, sem fannst í Dali Kónganna. Sá fornleifafundur er einn sá merkasti í veraldarsögunni og góður hluti safnsins inniheldur muni úr þeim uppgreftri og þar frægasta grímu Tutankhamun.

Auk þessa er stórkostlegt safn af munum, sem hafa fundist um Egyptaland á safninu og þar er líka hægt að sjá múmíur kónga sem voru uppi fyrir 3-4.000 árum. Að standa fyrir framan hauskúpur fólks sem var uppi 2.000 árum fyrir Krist er ótrúlegt.

* * *

Auk Egypska safnsins höfum við í dag skoðað Kristna hluta Kaíró, þar sem við skoðuðum kirkjur Kopta. Þetta er svo skrifað á netkaffihúsi (undir bænakallslhljóðum frá moskunni hér við hliðiná) á eyjunni Gezira í Níl á þar sem við höfum labbað um Zamalek hverfið.

Á morgun ætlum við svo að skoða hið eina sem eftir stendur af hinum uppaflegu sjö undrum veraldar, Píramídann Mikla í Giza.

*Skrifað í Kaíró, Egyptalandi klukkan 18.14*

2 thoughts on “Egyptalandsferð 1: Kaíró”

  1. Ánægður með gamla góða ferðabloggið 🙂 Góða skemmtun áfram!

  2. Mundu að taka með þér sólgleraugu til Giza. Glampinn frá sandinum er óbærilegur án sólgleraugna.

Comments are closed.