Egyptalandsferð 3: You're a lucky man

Það er dálítið skrýtið að ætla að skrifa um Egyptaland hérna á hóteli í Sharm El-Sheikh. Mér líður einsog við höfum ekki bara flogið yfir Suez skurðinn og yfir á Sínaí skaga, heldur til annars lands.

Sharm El-Sheikh er jú þessi típíski sumardvalarstaður sem að ég hef böggast útí allt mitt líf. Hann gæti alveg eins verið á Taílandi eða á Spáni – hér er ekkert sem bendir frekar til að maður sé á Egyptalandi fyrir utan það að við sundlaugina eru nokkrar stelpur í fullum klæðum í sólbaði í stað þess að vera á bikiní.

* * *

Annars hafa Egyptar komið mér fyrir sjónir (fyrir SES) sem talsvert meiri frjálslyndir heldur en til dæmis Sýrlendingar. Þeir eru gríðarlega opnir og hafa áhuga á okkur Margréti – karlmennirnir hafa sennilega aðeins meiri áhuga á Margréti en mér, en þeir eru þó ófeimnir við að lýsa því yfir að ég sé heppnasti maður í heiminum.

Í Egyptalandi (utan SES) eru nánast allar stelpur með slæðu. Munurinn þó á Egyptalandi og til dæmis Sýrlandi er að hérna eru langflestar með litríkar slæður yfir hárinu, en svo klæðast þær annars bara venjulegum fötum. Mjög fáar eru hér í svörtum kuflum miðað við hvernig þetta var í Sýrlandi, Jórdaníu og Palestínu, þótt þær séu vissulega nokkrar. Einhvern veginn finnst manni einsog slæðan sé bara til málamynda – hún er bara einsog tísku fylgihlutur einsog hattur væri á Vesturlöndum. Ég hafði svo sem lesið um það áður að Egyptar væru afslappaðari og frjálslyndari en múslimar í hinum Mið-Austurlöndunum sem ég hef heimsótt og ég get ekki annað en samþykkt það ef ég á að dæma af þessari stuttu heimsókn.

* * *

Margrét náði sér að lokum af magapestinni og við náðum að skoða Alexandríu vel á miðvikudaginn. Við löbbuðum um alla borgina á þeim degi og skoðuðum helstu hluti, svo sem safn þar sem haldið var utanum glæsilega sögu þessarar borgar. Borgin var jú í mikilli lægð í hundruði ára og það olli því að hennar frægustu minnismerki hurfu og liggja í dag annaðhvort undir hafsbotni eða undir nýbyggingum. Þannig er Vitinn í Alexandríu löngu horfinn þó að við höfum heimsótt þann stað þar sem hann var sennilega einu sinni. Og bókasafnið brann fyrir hundruðum ára, þó að í dag sé í Alexandríu nýtt og glæsilegt bókasafn.

Það síðasta markverða sem við gerðum svo í Alexandríu var að borða ljúffengan fisk á litlum grill-fiskistað áður en við tókum svo flugið hingað til Sharm El-Sheikh.

Hérna lærðum við það strax á flugvellinum þegar ég lét Margrét prútta niður leigubílaverð að verðlag er hérna með allt öðru móti. Hérna er allt margfalt dýrara en á öðrum stöðum í Egyptalandi. En hérna er líka yndislegur hiti (í Alexandríu var kalt á kvöldin) og hérna fyrir utan ströndina eru kóralrif og dýralíf sem margir segja að sé með því magnaðasta í þessum heimi. Það er einmitt á planinu okkar á morgun að kafa í Rauða Hafinu.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 18.10*