Ferðasögur

Ég elska ferðabækur og þá sérstaklega ferðabækur eftir Bill Bryson. Ég hef lesið stærsta hlutann af bókunum hans, þar meðtalið [Lost Continent](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0060920084/qid=1106502191/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8830672-3264159?v=glance&s=books&n=507846) þar sem hann ferðast um Bandaríkin og [Neither here nor there](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0380713802/ref=pd_sim_b_2/102-8830672-3264159?%5Fencoding=UTF8&v=glance), þar sem hann rifjar upp bakpokaferðalagið hans um Evrópu. Þegar ég er á ferðalagi vegna viðskipta á ég það til að leiðast inní flugvalla bókabúðir og kaupa bækurnar hans. Á óspennandi viðskiptaferðalögum er yndislegt að láta sig dreyma um meira spennandi ferðalög en dagsferðir til Noregs.

Í Póllandsferðinni kláraði ég [In a Sunburned Country]( http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0767903862/ref=pd_sim_b_4/102-8830672-3264159?%5Fencoding=UTF8&v=glance), sem er ferðasaga Brysons frá því í Ástralíu. Ólíkt fyrri bókunum, þá er hann í þessari bók of heillaður af landi og þjóð til að vera jafn kaldhæðinn og vanalega. Bryson kolféll nefnilega fyrir Áströlum og landi þeirra. Og hann er alveg einstaklega góður í að lýsa kostum þeirra og í raun féll ég alveg fyrir Ástralíu bara af því að lesa bókina. Samkvæmt honum þá er Ástralía algjör paradís, full af hamingjusömu fólki, sem lifa í landi, sem er eitt hið ríkasta í heimi og njóta þess að hafa nærri fullkomið veður allan ársins hring. Ég get svo svarið það að oft á tíðum langaði mig að láta bókina niður og kaupa mér flugmiða beint til Sydney.

Ég hef reyndar kynnst nokkrum Áströlum um tíðina og þeir eiga það allir sameiginlegt að þeir geta ekki hætt að tala um Ástralíu. Þeir elska landið sitt og eru óendanlega stoltir. Þeir Ástralar, sem ég hef kynnst, eru einsog gangandi landkynning allan sólarhringinn. Þannig að það hlýtur að vera eitthvað verulega spes við þetta land. Mig langar allavegana að fara!


Hef annars klárað nokkrar bækur að undanförnu, sem eru þess virði að fólk lesi.

[What’s the matter with Kansas](http://www.amazon.com/exec/obidos/ASIN/0805073396/qid=1106502323/sr=2-1/ref=pd_ka_b_2_1/102-8830672-3264159) er frábær pólitísk bók, sem reynir að skýra hvernig Repúblikanar hafa smám saman náð völdum í miðríkjum Bandaríkjanna. Hún fjallar um það hvernig þeir fátækustu í landinu eru oft á tíðum dyggustu kjósendur Repúblikana, einungis vegna þess að fólk kýs útfrá trúarskoðunum í stað efnahagslegra ástæðna. Margt af þessu fólki hefur misst trúna á að stjórnvöld hjálpi við að bæta efnahagsástand þeirra og vona þess í stað að stjórnvöld beiti sér fyrir því að koma gildismati þeirra yfir á aðra. Þess vegna kýs þetta fólk Repúblikana, en efnahagsstefna þess flokks er þessu fólki beinlínis fjandsamleg.

Moral Values, sem þetta fólk telur mikilvægast allra málefna, breytist svo aldrei. Hollywood myndir halda áfram að versna, Howard Stern heldur áfram að vera vinsæll, fóstureyðingar eru ennþá löglegar og svo framvegis. Það eina, sem fólk hefur uppskorið eftir stuðninginn við Repúblikana eru skattalækkanir, sem hygla þeim ríkustu. Eða svo segir allavegana höfundurinn, Thomas Frank.

Las einnig [The Five People you meet in heaven]( http://www.amazon.com/exec/obidos/ASIN/0786868716/qid=1106502364/sr=2-1/ref=pd_ka_b_2_1/102-8830672-3264159), sem er góð. Já, og svo er [Moneyball](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0393324818/qid=1106502630/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8830672-3264159?v=glance&s=books&n=507846) frábær, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á baseball og viðskiptum.

9 thoughts on “Ferðasögur”

  1. Ég hef ekkert lesið eftir Bryson, en tékka á honum í næsta ferðalagi eftir þessi orð þín. Ég myndi einnig mæla með Bill Holm sem góðum ferðabókahöfundi: Eccentric Islands fjallar um ferðir hans til afskekktustu eyja heims (þar á meðal Íslands), Coming Home Crazy fjallar um veru hans í Kína, Playing the Black Piano er frábær ljóðabók þar sem hann fjallar um öll þessi ferðalög sín í ljóðrænu formi … og loks er The Heart Can Be Filled Anywhere On Earth yndisleg bók þar sem hann fjallar um erfiðleikana sem fylgja því að koma heim aftur til Minnesota, USA eftir að hafa eytt mörgum árum í að ferðast um heiminn.

    Frábær penni og ógeðslega gaman að lesa skrif hans um heiminn. Mig langar t.d. ógeðslega mikið til Madagascar eftir að hafa lesið Eccentric Islands….. 🙂

  2. Nota bene – þessar bækur fást allar í Bóksölu Stúdenta og/eða Eymundsson í Austurstræti. Keypti þær þar sjálfur, þannig að ég get ábyrgst það… 😉

  3. Önnur góð leið til að fara yfirum og enda á því að kaupa flugmiða til Sydney eða á álíka spennandi stað er að horfa á Globe Trekker þar sem Ian Wright er lýsandi. Hann er fyndinn, sniðugur og sýnir löndin á skemmtilegan hátt.

    T.d. er þáttur hans um Kenya og Tansaniu frábær sem og Outback Ástralía. En þetta er að sjálfsögðu fyrir þá sem vilja fremur sjá myndrænt en ljóðrænt form á ferðakynningum.

    Mæli með þeim, sjást á Discovery Travel og stundum á DR1 ef þú ert með breiðbandið.

    Annars á ég flesta þættina líka ef áhugi er fyrir því :biggrin2:

  4. Já, ég hef ekki séð þessa þætti. Ég var að fá digital Ísland og þar virðast vera fullt af stöðum. Hefði áhuga á að sjá þá. Held þó að ég sé ekki með þessar tvær stöðvar, sem þú minnist á.

    Og Kristján, þú getur fengið Bryson bækurnar lánaðar hjá mér ef áhugi er fyrir. Er allavegana með Ástralíubókina heima hjá mér en einhverjar eru í útláni.

  5. Já takk fyrir það. Kíki á þær eftir önnina… verð hvort eð er á ferð og flugi í allt sumar sjálfur, fínt að hafa ferðabækur við höndina. 🙂

  6. Þar sem ég á það reglulega til að “detta inn í” Travel Channel þá get ég staðfest að Ian Wright er helsta stjarna stöðvarinnar. Er m.a.s. með eigin “skemmti-ferða-þátt”, þar sem hann segir sögur á bak við þættina, ýmislegt sem ekki er sýnt í ferðaþáttunum hans og er aðallega hylltur af miðaldra kven-áhorfendum sínum (þetta er frekar furðuleg sjón ef út í það er farið).

    Hann er í danska ríkissjónvarpinu, einsog Kristján segir, og svo Travel útgáfunni af Discovery.

    Já, ég horfi of mikið á ferðaþætti. Samt aðallega þegar ég er í 8-4+ vinnu. Hef einhvern veginn ekki eins mikla þörf fyrir svona þætti þegar ég er nýkominn af framandi slóðum 🙂

  7. Annars finnst mér Ástralía hræðilega gallaður áfangastaður út frá nytjahyggjunni. Er hægt að fara þangað án þess að eyða 500 þús. kalli?

    Það má ferðast mun meira fyrir þann pening á skemmtilegum stöðum :confused:

  8. Flug frá London til Sydney með Quantas kostar um 800 pund, eða um 100.000 kall. Svo er væntanlega hægt að lifa ódýrt á gistiheimilum og slíku.

  9. Ég veit ekki hvaða pakka þú ert með Einar en DR2 er á Digital Island því ég sá hana hjá afa kallinum.

    Og þá kem ég að því aftur. Ég ruglaðist, þættirnir eru á DR2 ekki DR1.

    Fyrir þá sem hafa áhuga að sjá góða þætti læt ég heimasíðu þeirra fylgja með en hún er uppfærð mjög reglulega um hvenær og hvað er á dagskrá hjá DR2.

    Varðandi ástrálíu fór félagi minn þangað fyrir stuttu, keypti miða gegnum STA Travel og borgaði 1100 US$ eða um 65þúsund með British Airways svo þetta ætti ekki að kosta alltof mikið ef skynsamlega er ferðast.

    Sendu mér póst ef þú hefur áhuga á þáttunum Einar, á ágætis úrval af þeim frá öllum heimsálfum. Áhugamál að safna sem flestum. :biggrin2:

Comments are closed.