Framhaldið

Fyrir það fyrsta, þá verð ég að nýta tækifærið og þakka öllum kærlega, sem hafa sent mér kveðju á Facebook, í gegnum email, síma eða hér á blogginu. Ég mun reyna að svara öllum, en það mun bara taka smá tíma.

Það er núna rétt rúm vika síðan að ég fékk heilablóðfallið og ég hef það ótrúlega gott. Það gott að ég var útskrifaður af spítalanum á mánudaginn. Ég hitti tvo íslenska lækna þann daginn og þau voru sammála um að erfitt væri að útskýra þetta heilablóðfall. En svona eru hlutirnir stundum – þeir bara gerast án skýringa. Sama þótt ég væri ekki í neinum af áhættuhópunum þá bara gerðist þetta.

Sjónin í mér er ennþá dálítið brengluð (ég er með lepp þegar ég skrifa þetta), minnið er smá skrýtið og jafnvægisskynið er enn í ólagi (ég held áfram að rekast á hluti, sem eru hægra megin við mig) – en ég get varla kvartað. Ég er allavegana ótrúlega heppin hvað ég slapp vel útúr þessu áfalli. Emil er hérna úti til að hjálpa við daglega reksturinn á Serrano í Svíþjóð og það hjálpar líka hvað íslensku stelpurnar tvær, Sandra og Elínborg, sem sjá um að reka staðinn í Vällingby eru traustar.

* * *

Ég byrja hjá sjúkraþjálfara í endurhæfingu á föstudaginn. Þangað til má ég lítið hreyfa mig fyrir utan göngutúra. Í næstu viku má ég vonandi byrja að hlaupa úti, en ég þarf líklega að bíða í 4-5 vikur eftir því að ég geti byrjað að lyfta lóðum aftur. Læknarnir voru svo sammála um að Íslandsferðin, sem við Margrét höfðum skipulagt um páskana, kæmi of stuttu eftir áfallið og því urðum við að aflýsa henni.

Við munum því eyða páskunum hérna í vor-stemningunni í Stokkhólmi. Það er ekki slæmt því að við fluttum inní íbúðina okkar í gær. Það er reyndar verið að mála hana, þannig að við getum lítið unnið í henni fyrr en á föstudag. En við borðuðum allavegana fyrstu máltíðina þar í gær. Það var pizza, sem við borðuðum ásamt Emil á gólfinu í eldhúsinu.

Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessari nýju íbúð. Þetta er í raun í fyrsta skipti sem ég er að flytja inná stað sem ég er að tryllast úr spenningi fyrir. Allir aðrir staðir sem ég hef búið á síðustu 10 árin hafa annaðhvort verið skammtíma leiguíbúðir eða þá íbúðin mín í Vesturbænum sem ég var aldrei neitt sérlega spenntur fyrir. Það er því dálítið ný lífsreynsla hjá mér að láta mig það varða hvernig hlutirnir inní íbúðinni líta út.

16 thoughts on “Framhaldið”

  1. Ég held áfram að fylgjast með progressinu hjá þér, gott að heyra að þú ert allur að braggast! Og til hamingju með nýju íbúðina.

  2. Hæ Einar. Vildi bara senda þér kveðju og óska þér hraðs og góðs bata. “Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt” svo ég vitni í annað fólk. Gangi þér vel og til hamingju með íbúðina og góðu kærustuna þína.

  3. Farðu nú rólega af stað minn kæri og mundu “sígandi lukka er best”
    Til hamingju með íbúðina bæði tvö og ég hlakka til að koma í heimsókn 🙂
    Heitar kveðjur frá klakanum !!

  4. Ég er ein af þeim sem þekkja þig ekki neitt en hef lesið bloggið þitt of og til í einhver ár – þú átt ekkert smá mikið af svona “lurkers” greinilega 🙂

    En þetta var rosaleg færsla á undan þessari – hlýtur að hafa verið alveg svakalega scary að lenda í þessu, fyrir þig og þína nánustu. Gott að heyra að þú ert á batavegi.

    Og ef þú færð einhvern tímann leið á Serrano þá áttu klárlega góðan feril sem rithöfundur í bakhöndinni – hefur ótrúlega góðan ritstíl einhvern veginn.

  5. Þú verður að láta inn myndir á flickr af nýju íbúðinni, öllu processinu og hvernig hún lítur svo út þegar hún er tilbúin!

    Gangi þér vel í endurhæfingu.

  6. Sæll minn kæri..

    Maður er eiginlega orðlaus eftir að hafa lesið um þessa lífsreynslu þína síðustu daga. Fer á algjört tilfinningarflug með öllu sem því fylgir. En það er ákaflega gott að heyra að þú sért á batavegi og ég vona að þú náir þér fljótt á strik aftur. Alveg hreint ótrúlegt að þetta geti komið fyrir svona hraust og heilbrigt fólk og því er maður reynslunni ríkari eftir að hafa lesið um þessa reynslu þína til að geta þekkt þessi einkenni. Þú lýsir þessu einstaklega vel eins og þér er lagið.

    Farðu vel með þig.

    Baráttukveðja,

    Jón Haukur

  7. Sæll Einar Örn,

    Ég mátti til með að skoða sögu þína þegar tilvonandi tengdafaðir þinn sagði mér frá þessu öllu saman. Við vorum einmitt að ræða hvort við fengjum dætur okkar heim um páskana en Salli(Sigurjón), eins og ég kalla hann, tjáði mér að Margrét kæmist ekki heim þar sem kærasti hennar hefði fengið vægt heilablóðfall. Þá mundi ég eftir því að við höfum hist þegar þú varst hjá Danól og ég hjá Kaupás og kláruðum fræga Haribó dílinn. Það er merkilegt hvað heimurinn er lítill á “Íslandi” og víða annars staðar. Vona að allt gangi vel hjá þér og ykkur tveimur og þú komir tvíefldur út úr þessari raun.

    Líf og Fjör,

    Stefán Steinsen

  8. Elsku Einar

    Ég er svo glöð að sjá að þetta er allt á réttri leið hjá ykkur 🙂
    Leiðinlegt að fá ekki að knúsa ykkur um páskana en ég fæ þá bara að vera enn meira með ykkur þegar þið komið loks í heimsókn því þá verð ég búin í prófunum.

    Síðustu blogg hjá þér hafa verið alveg frábær og það myndu sko ekki allir geta lýst þessu á jafn skemmtilegan og fræðandi hátt eins og þér tekst svo sannarlega. Með því að deila reynslunni þinni þá kennir þú okkur að þekkja þessi einkenni betur og það er besta forvörnin sem hægt er að fá.

    Hafið það alveg rosalega gott í nýju íbúðinni ég hlakka SVO mikið til að koma í heimsókn til ykkar, vonandi sem allra allra fyrst.

    Stórt knús af Klakanum
    Eva Margrét

  9. Ég er ein af þeim sem þekkja þig fullt;)
    en gaman að sjá hvað þessi síða er mikið lesin og þú átt hellings af fans;p

    gott blogg að vanda & vá hvað ég hlakka til að sjá íbúðina 😀

  10. Sæll Einar
    Bróðir minn sem var að commenta hérna að ofan, sagði mér frá síðunni þinni og ég hreinlega verð að commenta, finnst ég þekkja þig, þar sem ég var með Erlu systir þinni í HR – en þekki þig í rauninni ekki neitt eins og svo margir sem eru að láta heyra í sér.. .. Ætlaði bara að segja þakka þér fyrir að deila þessu með heiminum, þetta mun ábyggilega bjarga einhverjum sem lendir í svipuðum aðstæðum. Gangi ykkur alveg rosalega vel.
    Kv.
    Brynja Steinsen

  11. Takk öll fyrir þetta.

    Stefán, ég man vel eftir þessu.

    Rosalega gaman að fá öll þessi komment frá fólki sem maður þekkir ekki neitt og auðvitað líka frá því fólki, sem ég þekki vel. Takk.

    Já, og hlakka til að fá ykkur öll, SAF, Evu Margréti og Elínu í heimsókn.

  12. gangi þér sem best, vona að þér batni fljótt og jafnvægisskynið og sjónin fari að lagast. Mikið áttu góða að, bæði kærustu, foreldra og vini.

  13. Sæll Einar Örn.
    Langaði bara að senda þér kveðju með ósk um góðan bata. Ég er búinn að fylgjast með þessari síðu í mörg ár eins og Liverpool-blogginu ykkar sem er besta síða í heimi.
    Mundu: You´ll never walk alone!!!
    Kær kveðja
    Árni Stefánsson

  14. Sæll Einar.

    Það er hreint ótrúlegt að lesa síðustu tvö bloggin þín! Merkilegast finnst mér hvað þér tókst að koma þér langt og gera mikið af hlutum á meðan á öllu þessu stóð. Yfirleitt finnur fólk fyrir einhverjum smá fyrirboða einkennum og svo hrynur það í gólfið!
    Ég veit að Margrét hugsar vel um þig, hún er engri lík eins og við vitum bæði 🙂

    Hafið það bara sem allra best, hlakka til að sjá ykkur í vor.

    Batakveðjur,
    Jónína

  15. Sæll Einar. Ég er enn einn sem þekkir þig ekki neitt en hef fylgst með þessu bloggi í langan tíma.

    Sem United maður les ég iðulega Kop.is eftir tapleiki Liverpool (enda “bipolarisminn” all svakalega skemmtilegur hjá Púlurum) og rata síðan hingað í framhaldi því. Ég gæti best trúað að þessi velgengni Liverpool undanfarið hafi stigið þér til höfuðs í bókstaflegri merkingu. Tapið fyrir Chelsea í gær kemur vonandi jafnvægi á líkamsstarfsemina hjá þér á nýjan leik.

    Pælingarnar hjá þér um lífið og tilveruna og ekki síst fótboltann eru mjög skemmtilegar og vona ég að þú náir fullum krafti sem fyrst og haldir áfram að deila þeim með okkur fjölmörgu aðdáendum síðunnar.

    Góðar kveðjur.

  16. Takk öll 🙂

    Tveir vinir mínir komu með þá kenningu að þetta heilablóðfall hafi verið bein afleiðing af þessum góða árangri Liverpool. Heilinn hafi einfaldlega ekki höndlað 4-0 sigur á Real Madrid, 4-1 sigur á United og 5-0 sigur á Aston Villa.

    Með síðustu úrslitum er komið meira jafnvægi á þetta allt saman.

Comments are closed.