« Uppljóstranir!! | Aðalsíða | Bíómyndir »
Afmælishelgi
Ég átti afmæli um helgina. Er orðinn 24 ára gamall. Helgin var alveg meiriháttar skemmtileg.
Á afmælisdaginn sjálfan (föstudag, 17.ágúst) bauð Hildur mér út að borða og fórum við á The Stained Glass, sem er í miðbæ Evanston. Þar fengum við alveg geggjaðan mat og vín og sátum við þar heillengi og borðuðum. Síðar um kvöldið röltum við svo yfir á Kaffein, sem er kaffihús, sem er mjög vinsælt hjá Northwestern nemendum, og þar fengum við okkur æðislegan desert.
Á laugardag vaknaði ég eitthvað um hálf átta og keyrði niður í miðbæ Chicago yfir á Fado, þar sem ég horfði á Liverpool-West Ham ásamt nokkrum öðrum gallhörðum Liverpool mönnum. Við Hildur höfðum ætlað að horfa á "Air & Water Show", sem átti að vera við vatnið, en veðrið var leiðinlegt, þannig að við kíktum bara aðeins í búðir.
Um kvöldið voru það svo tónleikar með Molotov. Þeir voru alveg ótrúleg snilld. Við vorum sennilega eina ljóshærða fólkið meðal 5000 mexíkóskra innflytjenda, enda var starað á okkur og nokkrir spurðu okkur hvaðan við værum, því þeir skildu ekkert í að við skildum fíla þessa tónlist. Allavegana þá komu La Ley fyrst á sviðið og tóku nokkur af sínum bestu lögum og voru þeir mjög góðir, sérstaklega söngvarinn, sem fær 10 fyrir sviðsframkomu.
Svo um hálftíma eftir að La Ley höfðu klárað komu Molotov fram á svið. Þeir byrjuðu fyrst á sinni útgáfu af Bohemian Rapsody, sem er hreinasta snilld. Síðan tóku þeir flest sín bestu lög, einsog Parasito, Voto Latino, Matate-te-te, Gimme Tha Power og enduðu svo á Puto.
Ég hef ekki farið á eins brjálaða tónleika hérna í Bandaríkjunum. Svei mér þá, ég held að ég hafi ekki svitnað eins mikið síðan ég fór á Rage Against the Machine í Kaplakrika. Þetta var alger snilld. Maður hoppaði og söng við tónlistina og stemningin var ótrúleg. Sérstaklega eftirminnilegt var þegar þeir tóku Gimme Tha Power. Það er skrítið að vera meðal 5000 mexíkanskra innflytjenda í Chicago og hrópa "Viva Mexico cabrones".
Ummæli (0)
Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".
Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote
Ég áskil mér allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart mér sjálfum eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.
|
|
Ummæli:
Muna upplýsingar?
|