« Le Tallec og Ronaldo | Aðalsíða | Rússlandsferð 2: St. Pétursborg »

Rússlandsferð 1: Moskva

26. ágúst, 2003

Núna er ég búinn að vera hérna í Moskvu í fjóra daga og á varla orð til að lýsa þessari mögnuðu borg. Ég er staddur á netkaffihúsi í verslunarmiðstöð um 200 metra frá Rauða Torginu og Kreml.

Ég dýrka þessa borg. Hún er svo ólík öllu, sem ég hef séð áður. Allar sögur, sem ég hef heyrt um drykkfeldni Rússa, eru sannar. Eina málið er að þeir drekka ekki vodka, heldur bjór (nú skil ég vel hvernig Björgúlfsfeðgum tókst að verða svona ríkir). Hérna virðast ekki gilda neinar reglur um drykkju á almannafari og því sést varla neinn maður úti á götu nema með bjórflösku í hendinni. Þvílík snilld!

Ég er búinn að skoða helstu ferðamannastaði í Moskvu. Eyddi megninu af deginum í dag innan Kremlarmúra, þar sem ég skoðaði gamlar kirkjur og gersemar, sem Keisarafjölskyldurar söfnuðu að sér. Í gær labbaði ég um borgina, fór á Rauða Torgið og skoðaði hina stórkostlegu dómkirkju St.Basel, rölti svo yfir í almenningsgarð þar sem allar stytturnar af kommúnistaleiðtogum eru samankomnar.


Djammaði á laugardagskvöldið. Ég villtist á leiðinni á staðinn en hitti þá bandaríska landsliðið í Karate (hvorki meira né minna!) og gátu þeir með aðstoð túlksins síns komið mér á réttan stað. Djammið var geðveikt. Ég hélt að Rússinn við hliðiná mér á barnum gæti drukkið endalaust af vodka þangað til að hann varð allt í einu eitthvað pirraður og endaði á því að vera dreginn útaf staðnum. Ég hitti svo aftur bandaríska karateliðið á staðnum. Túlkurinn þeirra kenndi mér að segja "Gott Kvöld" og notaði ég þá línu á nokkurn veginn allar stelpurnar á klúbbnum. Svei mér þá ef þetta er ekki bara snilldar pikkup lína. Stelpunum fannst þetta allavegana mjög fyndið hjá mér.

En allavegana, hérna í Moskvu er fullt af sætum stelpum. Einn gaurinn í karateliðinu gekk svo langt að segja að hér væri meira af sætum stelpum en í Venezuela en það er nú fullmikið sagt. Það er samt frábært við rússneskar stelpur að þær virðast ganga í pilsum sama hversu andskoti leiðinlegt veðrið hefur verið hérna í Moskvu. Þetta er eitthvað, sem stelpur á Íslandi mættu taka sér til fyrimyndar. Það er mun sniðugara en að eiga 20 pör af svörtum buxum.


Það er líka greinilegt að kapítalisminn er kominn til að vera hérna í Rússlandi. Á leiðinni frá flugvellinum innað hóteli keyrðum við framhjá 5 (FIMM!) McDonald's stöðum. Auk þess sá ég svona 20 Nescafé og Pepsi skilti, Audi bílasölu og fleira í þeim dúr.

Einnig er það pottþétt að hér er fulltaf fólki, sem á fulltaf pening. Bara í svona kílómeters radíus frá Rauða Torginu eru þrjár Benetton búðir, tvær Boss búðir og tvær Diesel búðir. Þessar búðir eru alltaf fullar af rússneskum stelpum með fullt af pokum. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að það sé horft niður á mann af nýríkum rússum í jakkafötum, þegar maður kemur inní Diesel búðirnar í gallabuxum og strigaskóm.

En það er eitthvað yndislega heillandi við alla þessa geðveiki. Allar gömlu sovésku byggingarnar í sambland við ljósaskilti, sem myndi sóma sér vel í New York. Að dást að Kremlarmúrum og fáránlegri stærð Rauða Torgsins á milli þess sem maður fær sér Big Mac og rússneskan bjór.


Neðjanjarðarlestin hérna er líka sú allra magnaðasta, sem ég hef komið í. Það fara víst fleiri farþegar um þetta kerfi heldur en lestakerfið í New York og London til samans. Og sú tölfræði kemur mér EKKI neitt á óvart. Ein af snilldarhugmyndum Stalíns var að byggja lestirnar nógu langt ofaní jörðina, svo þær gætu líka þjónað tilgangi sem sprengibyrgi (þangað til að einhver áttaði sig á að það væri nokk sama hversu langt menn myndu grafa, það myndi ekki breyta miklu þegar að bandarískum kjarnorkusprengjum myndi rigna á borgina). Lestarstöðvarnar eru hins vegar hreinasta listaverk, uppfullar af myndum af sigrum Rússa og Sovétmanna.

Ég ætla mér að vera hérna í Moskvu í einn dag í viðbót. Á fimmtudag ætla ég í ferð til Vladimir og svo tek ég lest til St. Pétursborgar á fimmtudagskvöld.

(Skrifað í Moskvu klukkan 20.16)

Einar Örn uppfærði kl. 16:16 | 667 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (2)


Ég öfunda þig ekkert smá. Þetta er eitthvað sem ég mun gera. Gæti kannski orðið af einhverri útskriftarferð eða eitthvað ámóta. En þetta mun gerast. Skemmtu þér vel.

Strumpakveðjur :-)

Strumpurinn sendi inn - 26.08.03 20:18 - (Ummæli #1)

Stelpur í Bretlandi ganga í stuttum pilsum hvernig sem viðrar. Hins vegar sóma þær sér ekki vel í stuttum pilsum. Ættu satt að segja best að halda sig heima, sumar hverjar!

Oli sendi inn - 26.08.03 23:56 - (Ummæli #2)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2006 2002

Leit:

Síðustu ummæli

  • Oli: Stelpur í Bretlandi ganga í stuttum pilsum hvernig ...[Skoða]
  • Strumpurinn: Ég öfunda þig ekkert smá. Þetta er eitthvað sem ég ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.2

.