« Mið-Ameríkuferð 10: Cancun | Aðalsíða | Mið-Ameríkuferð 12: Ferðalok »

Mið-Ameríkuferð 11: Bandaríkin

3. október, 2005

Jæja, ferðin er nokkurn veginn búin. Er kominn til Bandaríkjanna og á morgun á ég flug heim til Íslands.

Tíminn í Cancun var fínn. Ströndin þar er æði og liturinn á sjónum er sá fallegasti, sem ég hef séð lengi. Ég borðaði svo tvisvar alambre de pollo með osti og beikoni, sem ég held að sé uppáhaldsmaturinn minn í öllum heiminum. Ólýsanlega gott.

Anja og ég fórum á djammið í Cancun, á stað sem heitir Mambo Cafe. Þar var brilliant 14 manna salsa band frá Kólumbíu, sem spilaði fyrir dansi. Við dönsuðum því salsa og eitthvað af merengue langt fram á morgun. Ég komst ekki nægilega oft útað dansa á þessum tíma í mið-Ameríku, en þetta djamm bætti upp fyrir það. Hún kann ekki að dansa og ég er kominn verulega úr æfingu, þannig að þetta var ekki eins smooth og vanalega. Í minningunni er ég nefnilega frábær salsa dansari, en það má sennilega þakka því að ég var alltaf leiddur af innfæddum gellum, sem gátu dregið mig áfram um allt gólfið. Ég er ekki alveg nógu fær til að leiða. Þyrfti að fá einhverja kennslu.

Við fórum svo og skoðuðum Chichen Itza, sem var fínt. Vorum eiginlega komin með nóg af Maya rústum, þar sem við höfðum heimsótt Lamanai í Belize og Tikal í Gvatemala á innnan við 10 dögum og auk þess er Tikal umtalsvert merkilegri rústir heldur en Chichen Itza, þannig að þetta var hálfgert anti-climax. En samt ágætt.


Flaug svo hingað til Washington í gær og gisti hjá vinum mínum. Fór á djammið í gær með nokkrum Íslendingum. Skemmti mér verulega vel á hefðbundnu bandarísku bara-fylleríi. Var því fáránlega þunnur í dag. Fórum á bar og horfðum á hörmungina í morgun. Það lagaði ekki beint þynnkuna. Er í raun ennþá hálf þreyttur. Kíktum svo yfir í Georgetown og borðuðum kvöldmat frá uppáhalds pizza staðnum mínum.

Kíkti á netið og sá að Santa Ana eldfjallið í El Salvador, sem ég var nálægt fyrir um þremur vikum er byrjað að gjósa. Á sama tíma er lítill fellibylur að fara yfir Yucatan og norður-Belize, þar sem ég var í síðustu viku. Anja, sem er enn í Cancun segir að þar hafi rignt stanslaust síðan að ég fór. Magnað.

Ég á svo flug heim annað kvöld. Ætla að reyna að ljúka þessari ferðasögu þegar ég kem heim. Já, og set inn myndir. Þetta er búin að vera yndisleg ferð…

Skrifað í Washington D.C., Bandaríkjunum klukkan 22:50

Einar Örn uppfærði kl. 02:50 | 407 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (1)


“Í minningunni er ég nefnilega frábær salsa dansari.” Haha - já það er alveg merkilegt hvað maður heldur alltaf að maður sé góður dansari. Nú er Ameríkaninn einmitt kominn með nýja seríu: “So You Think You Can Dance”. Frábær þáttur.

En vissulega er það staðreynd að reyndur danspartner, sérstaklega í salsa, bjargar öllu.

Álfheiður sendi inn - 04.10.05 02:26 - (Ummæli #1)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Leit:

Síðustu ummæli

  • Álfheiður: "Í minningunni er ég nefnilega frábær salsa dansar ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.2

.