« Smá útúrdúr varðandi pyntingar. | Aðalsíða | Inní­ Tuol Sleng fangelsinu »

Suð-Austur Asíuferð 8: Nam

4. október, 2006

Víetnam, maður! Vá!

Ég efast um að það sé nokkur land í þessu heimi (utan Bandaríkjanna og Bretlands) sem ég hef séð jafnmargar kvikmyndir og lesið jafnmargar bækur um og Víetnam. Maður hefur heyrt þetta allt hundrað sinnum: Saigon, Mekong delta, My Lai, Ho Chi Minh, Khe Sanh, Viet Cong og svo framvegis og framvegis. En samt þá er þetta svo ótrúlega framandi, þar sem að langflestar myndirnar og bækurnar fjalla um stutt skeið í sögu þessa lands og þá aðeins með augum utanaðkomandi.

En, Nam! Núna get ég loksins sagt hluti einsog: “Þetta er nú ekkert miðað við það þegar ég var í Nam!

Víetnam er eitt af þessum löndum, sem ég hélt þegar ég var lítill, að ég myndi aldrei komast til. Allt, sem maður hafði lesið um það var að það væri lokað land, endalaus stríð og annað vesen. Þetta var svipað með Sovétríkin og því leið mér svo afskaplega undarlega þegar ég keyrði á taxa inní miðborg Moskvu.

Sama tilfinning kom yfir mig í gær. Ég hafði farið í rútu frá Mekong delta inn til Saigon. Svo á rútustöðinni fékk ég far með litlu mótorhjóli uppað hóteli. Þannig að um miðnætti í gær var ég á fleygiferð, á litlu mótorhjóli í sandölum og stuttbuxum, um breiðstræti Saigon borgar. Og ég fékk þessa æðislegu frelsis-tilfinningu sem ég fæ stundum á ferðalögum. Ég var bara einn og ég var búinn að gleyma öllum áhyggjum og naut þess bara að vera frjáls í algjörlega ókunnri borg. Yndisleg tilfinning.

(Borgin Saigon er í dag kölluð Ho Chi Minh borg, nafn sem a[ Norður-Víetnamar gáfu borginni eftir að hafa sigrað hana. En flestir kalla hana enn Saigon. Ég spurði rútubílsjórann í gær hvort rútan færi alla leið til Ho Chi Minh borgar. Hann sagði nei. Og svo stuttu seinna sagði hann: “en hún fer til Saigon”.)


En allavegana, síðast þegar ég skrifaði var ég víst í Kampot í Kambódíu. Ég eyddi laugardagskvöldinu inná hótelherbergi að horfa á enska boltann og lofaði sjálfum mér að þetta yrði síðasta langa inniveran útaf þessum veikindum (sem ég er allavegana núna orðinn hress af). Á sunnudag fór ég svo í túr uppí Bokor þjóðgarðinn. Það var skrautlegt.

Fyrir það fyrsta, þá vissi ég auðvitað að ég ætti ekki að hlusta á blaðrið í sölumanninum, sem sagði eftir að hafa horft á himininn á laugardeginum, að hann ætti ekki von á rigningu daginn eftir. Ég hefði frekar átt að hlusta á skynsama Einar, sem sagði mér að hlusta á veðurfréttamenn, sem voru á sama tíma að segja mér að þessi endalausa rigning í Kambódíu væri útaf fellibyl, sem hafði skollið á strönd Víetnam sama dag og leifar hvers voru að skella á Kambódíu.

Sem þýðir að í túrnum uppí Bokor rigndi stanslaust. Sem væri í lagi ef að.

  1. Við hefðum ekki verið aftan á pallbíl með ekkert þak
  2. Vegurinn hefði ekki verið fullur af sprengigýgum
  3. 90% af sjarmanum við ferðina hefði ekki verið útsýnið, sem skýin gjörsamlega rústuðu.

Við keyrðum á 4 klukkutímum uppá fjall eftir versta vegi, sem ég hef nokkurn tímann keyrt á. Punktur! Í Lonely Planet er talað um vegakerfið í Kambódíu og bókarhöfundum tekst aðeins að finna tvö lönd í heiminum þar sem vegakerfin eru verri: Austur-Kongó og Mósambík. Ég hef ekki upplifað vegakerfin í þeim lönd. En Jedúddamía hvað þau þurfa að vera hræðileg til að toppa Kambódíu.

Vegurinn upp til Bokor er þó í sérklassa. Þegar Víetnamar réðust inní Kambódíu þá héldu Rauðu Khmerarnir sig í Bokor garðinum og komu fyrir sprengjum á veginum, sem ullu því að stór hluti af malbikinu er farinn og í stað þess komnir miklir gýgar á nokkurra metra fresti. Af einhverjum ástæðum hefur ENGUM dottið í hug að laga þetta.

Við sátum á trébekk aftan á pallbíl og hristumst svo svakalega að í lok dags var ég kominn með tvo marbletti á minn annars álitlega rass, og tvo marbletti á mjóbakið. Ég var algjörlega búinn. Þegar við komum uppá fjallið skoðuðum við yfirgefið franskt þorp, sem átti að vera hluti af pakkanum. Okkur var svo tjáð að vegna rigningar væri vegurinn uppað fossi, sem við áttum að skoða, lokaður (je ræt). Við fórum því aftur niður aðra fjóra klukkutíma í rigningunni. Þegar við komum svo niður tjáði gædinn okkur að skipstjórinn, sem ætlaði að sigla með okkur inní Kampot væri veikur (je rææææt) svo við misstum líka af þeim hluta ferðarinnar og vorum því bara keyrð uppá hótel.

Megi þetta túrfyrirtæki rotna í helvíti.


Ég tók svo daginn eftir rútu aftur til Phnom Penh. Kom þangað um eftirmiðdaginn og tékkaði mig inná sæmilegt hótel meðfram Tonlé Sap ánni. Fór svo á netkaffi þar sem ég fór að velta mér uppúr vandamálum heima fyrir og ákvað svo seinna um kvöldið að þar sem ég gæti ekki gert neitt gott með emailum og msn-um, þá myndi ég hætta að hafa áhyggjur af málum á Íslandi og einbeita mér að ferðalaginu mínu hérna. Það er vonandi að það virki. :-)

Í gær tók ég svo bát frá Phnom Penh inní Víetnam. Þetta var lítill hraðbátur, sem sigldi niður Mekong ána alveg niður að Mekong Delta svæðinu og inní bæinn Chau Doc í Víetnam. Chau Doc er skrautlegur bær. Fyrir það fyrsta virtist vera kviknað í hálfum bænum þegar við sigldu að höfninni.

Þegar ég kom í land pantaði ég mér strax rútuferð til Ho Chi Minh borgar (Saigon). Til að ég gæti náð rútunni þá kom bíll að sækja mig á hótelið, en eftir 10 mínútur fengum við símtal þar sem bílstjórinn sagðist ekki komast. Þess vegna fór einhver strákur með mér í átt að bílnum. Þar blasti við mér undarleg sjón. Stærsta umferðarteppa, sem ég hef séð, og samt ekki einn einasti bíll í sjónmáli. Þetta voru bara mörg hundruð mótorhjól, reiðhjól og gangandi vegfarendur, sem virtust ætla að sameinast á einu torgi, en enginn komst neitt vegna mannmergðar. Mitt í allri þessari hrúgu var svo bíllinn, sem ætlaði að sækja mig, að reyna að bakka útúr þvögunni. Ég stökk uppí bíl og eftir að hafa næstum því keyrt á allavegana þrjú mótorhjól, þá tókst okkur að komast útúr þvögunni og áleiðis til Saigon.


Víetnam er 14. fjölmennasta þjóð í heimi með um 84 milljón íbúa. Breytingin frá Kambódíu er gríðarlega mikil. Víetnam er auðvitað ennþá að nafninu til sósíalistaríki, en þá eingöngu að nafninu til. Það mátti svo sem búast við því að hvað þróun varðar yrði allt skref upp frá Kambódíu, og það er raunin með Víetnam. Hérna er allt umtalsvert nútímalegra, fólk virðist hafa mun meira pening á milli handanna og hlutir einsog rusl á víðavangi eru ekki nærri því jafn algengir í Víetnam og í Kambódíu. Í raun virðist munurinn á þessum löndum vera miklu meiri en tölur um þjóðarframleiðslu gefa til kynna (þjóðarframleiðsla í Víetnam er 43% hærri en í Kambódíu) en þó ber að hafa í huga að ég hef bara skoðað smá hluta af Suður-Víetnam, sem hefur vanalega verið betur stæður en norður hlutinn.

Það fyrsta, sem ég tók eftir var þó (surprise!) að víetnamskar stelpur eru miklu mun sætari en stelpur í Kambódíu. Miðað við nágrannalönd þá eru Víetnamar og Kambódíumenn mjög ólíkir þar sem Khmerar í Kambódíu eru líkir Indverjum í útliti en Víetnamar líkari Kínverjum. En hvað sem það er, þá hef ég séð alveg heilan helling af sætum stelpum hérna í Víetnam (þjóðbúningur kvenna hérna er líka æði!). Megi þessi ánægjulega þróun halda áfram. Áfram sætar stelpur!


Það er þó varla hægt að tala um sætar stelpur hérna í Víetnam (og Kambódíu) án þess að tala um gamla kalla í sömu andrá. Það er nefnilega alveg ótrúlegt magn af ungum gullfallegum stelpum hérna (sem gætu margar eflaust verið 16 - ég á mjög erfitt með að greina á milli 16 og 25 ára víetnamskra stelpna), sem haldast í hendur með umtalsvert eldri karlmönnum frá Evrópu eða Bandaríkjunum. Í raun má segja að ferðalangar í Kambódíu hafi verið af þrennu tagi. Í fyrsta lagi hópferðalangar í Angkor Wat, en á öðrum stöðum voru það annars vegar ungir bakpokaferðalangar (sem ég hlýt að tilheyra) og hins vegar kallar með ungum og fallegum asískum stelpum.

Nú er mjög erfitt að berja í mig einhverjum femínisma eða brennandi áhuga á mansali, en þegar maður sér þetta svona á hverjum einasta degi þá hættir þetta að vera sniðugt. Kambódía er sérstaklega þekkt sem land þar sem menn geta nælt sér í stelpur allt niður í 13-14 ára gamlar. Það er hreinn viðbjóður.


Úff, þetta er orðið alltof langt. Ég sit hérna inná netkaffi með ískaldan Tiger bjór, sem hleypir þvílíkum krafti í mig. Verð að bíða með að segja frá labbi um Saigon í dag þangað til næst. Ég verð hérna í Saigon allavegana í tvo daga í viðbót.

Skrifað í Ho Chi Minh borg (Saigon), Víetnam klukkan 19.54)

Einar Örn uppfærði kl. 12:54 | 1467 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (7)


Gaman að fylgjast með ferðalaginu þínu. Góða skemmtun og farðu varlega!

Arna Rut sendi inn - 04.10.06 17:27 - (Ummæli #1)

Takk kærlega :-)

Einar Örn sendi inn - 05.10.06 11:05 - (Ummæli #2)

Já svakalega gaman að lesa pistlana þína. Verst hvað þeir kitla ævintýraþrána hjá manni sjálfum :-)

Inga sendi inn - 05.10.06 12:29 - (Ummæli #3)
Nú er mjög erfitt að berja í mig einhverjum femínisma eða brennandi áhuga á mansali

Þetta bíður nú soldið upp á misskilning? Ertað spá í að skella þér út í smá mansal on the side? :-)

Hvað er annars málið með þig og rútur? Þú gætir örugglega skrifað heila bók um ævintýralegar rútuferðir. Held þú ættir bara að leigja þér tuk-tuk! Bon voyage!

Jensi sendi inn - 06.10.06 00:16 - (Ummæli #4)

Takk, Inga. Ég hefði haldið að það væri bara gott :-)

Og Jensi, ég held að ég haldi mig við mín gömlu störf - þarf ekki að bæta því við. Varðandi rútuferðir, þá veit ég ekki hvað þetta er. Kannski ætti ég að ferðast um þróaðri lönd - það myndi ábyggilega hjálpa. :-)

Einar Örn sendi inn - 06.10.06 10:50 - (Ummæli #5)

Damn skemmtilegt að lesa hvað á daga þína drífur.

Varðandi rútuferðir, þá hef ég aðeins einu sinni upplifað rútuferð með þér Einar, á bakaleiðinni þá varstu afar þreyttur eftir erfitt, en gleðilegt kvöld í Istanbul. Spurning um að þú farir frekar að ferðast með langferðabílum? :-)

Ok, ok, I’ll take my coat…

SSteinn sendi inn - 07.10.06 15:03 - (Ummæli #6)

Takk, Ssteinn.

Ef manni liði alltaf jafn vel og í þeirri rútuferð, þá myndi ég ekki kvarta. :-)

Einar Örn sendi inn - 09.10.06 11:49 - (Ummæli #7)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Ég áskil mér allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart mér sjálfum eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar? -


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Leit:

Síðustu ummæli

  • Einar Örn: Takk, Ssteinn. Ef manni liði alltaf jafn vel og í ...[Skoða]
  • SSteinn: Damn skemmtilegt að lesa hvað á daga þína drífur. ...[Skoða]
  • Einar Örn: Takk, Inga. Ég hefði haldið að það væri bara gott ...[Skoða]
  • Jensi:
    Nú er mjög erfitt að berja í mig einhv ...[Skoða]
  • Inga: Já svakalega gaman að lesa pistlana þína. Verst h ...[Skoða]
  • Einar Örn: Takk kærlega :-) ...[Skoða]
  • Arna Rut: Gaman að fylgjast með ferðalaginu þínu. Góða skemm ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.2

.