Helgin í Úthlíð

Vá hvað þetta var skemmtileg helgi!

Ég fór í útilegu með fullt af vinum mínum í Úthlíð. Tveir vinir mínir voru að útskrifast úr háskóla og þeir buðu heilum helling af fólki á tjaldsvæðið í Úthlíð. Á föstudagskvöldið voru ekkert rosalega margir mættir en þó var þar nóg af skemmtilegu fólki til þess að kvöldið væri frábært. Við grilluðum, drukkum, röltum um svæðið og enduðum í kassagítarstemningu þar sem að Afgan var spilaður sirka 15 sinnum. Á laugardeginum eyddum við svo löngum tíma í sundlauginni og í sólbaði enda veðrið alveg fáránlega gott.

Seinni partinn á laugardeginum kom svo fulltaf fleira fólki og laugardagskvöldið var sögulegt. Um miðnætti safnaðist allur hópurinn saman þar sem að nokkrir snillingar stóðu fyrir fjöldasöng. Þar var alveg ótrúlega góð stemnning og gaman.

Kvöldið hjá mér endaði svo í gamni slag við einn vin minn, þar sem mér tókst að rústa hnénu á mér. Í dag komst ég að því að ég var með áverka á liðþófa, sem er alveg einstaklega vont. Í gær eyddum við aftur heillöngum tíma í sundlauginni, lágum í sólbaði, tókum til á tjaldsvæðinu og vorum svo ekki komin í bæinn fyrr en um 7 leytið. Helgin kláraðist svo í sunnudags kvöldkaffi. Ótrúlega skemmtileg helgi, ein skemmtilegasta útilega sem ég hef farið í og ekki fræðilegur möguleiki að gera henni skil almennilega í bloggfærslu. Ég set þó inn myndir þegar ég endurheimti myndavélina mína, sem ég týndi á laugardagskvöldinu.

* * *

Ég fór uppá bráðamóttöku í dag og þar kom í ljós að það var ekkert slitið í hnénu, sem var það sem ég var hræddur við þar sem að sársaukinn var fáránlegur í gær. Ég er núna kominn í teygjusokk og ákvað að taka því rólega í dag og á morgun. Samkvæmt lækni á þetta að taka um 2 vikur að lagast, en ég má ekki spila fótbolta í 4 vikur.

Ég get ekki verið heima hjá mér í rólegheitunum án þess að fá samviskubit yfir því að ég skuli ekki vera að gera eitthvað gagnlegra. Ég var með smá þrýsting í hnénu þannig að ég lá uppí sófa og spilaði Grand Theft Auto IV. Þann leik keypti ég þegar ég kom heim frá Ísrael, en hafði samt ekki spilað hann, sem sýnir hversu mikið notuð Xbox vélin mín er. Ég fékk samt reglulega samviskubit yfir því að vera ekki að gera eitthvað gagnlegra.

* * *

Og já, einsog allir aðrir í útilegunni þá er ég alveg fáránlega brúnn eftir helgina. Ég held að ég hafi verið eini maðurinn, sem að tók með mér sólarvörn í útileguna. Íslendingar virðast almennt halda að þeir geti ekki brunnið á Íslandi. Það er misskilningur. 🙂

5 thoughts on “Helgin í Úthlíð”

  1. Ef þú ert ekki orðinn skárri í hnénu eftir nokkra daga þá myndi ég jafnvel kíkja til heimilislæknisins eða tíma hjá bæklunarlækni. Félagi minn fékk högg á hnéð í fótboltaleik, fór á slysó þar sem hann fékk þær fréttir að þetta væri bara smá liðþófasköddun og tæki 2 vikur. Hann fór í sjúkraþjálfun og svona skv. því. Eftir 2 mánuði var hann ekki skárri, fór til bæklunarlæknis og þar kom í ljós að hann væri með slitið krossband.

  2. Halldór, geri það.

    Gef ég semsagt fólki útþrá þegar ég skrifa um útlönd og heimþrá þegar ég skrifa um útilegur á Íslandi. Það er visst afrek.

  3. Að Svartur Afgan hafi bara verið spilað 15 sinnum er klárlega vanmat!

Comments are closed.