Hvað ert þú að gera þessa dagana, Einar Örn?


**”Hvað ert þú að gera núna, Einar Örn?”**

Ég hef sennilega ekki fengið margar spurningar jafnoft að undanförnu. Þessi spurning hefur sennilega tekið við af spurningum um hvað sé í gangi í ástarmálum mínum. Staðreyndin er auðvitað sú að ég hætti í vinnunni minni sem markaðsstjóri Danól síðasta sumar.

Það þýðir að ég var í raun “bara” í einni vinnu, sem er framkvæmdastjóri Serrano. Kannski hefur fólk svona mikið álit á mér, eða kannski finnst mönnum framkvæmdastjórastaða á veitingastað vera léttvæg, en fólk er oft ekki að kaupa það að ég sé “bara” að vinna í þessari einu stöðu.

Það er nefnilega pínu skrýtið að í þessu þjóðfélagi þykir það oft merkilegra að vera í skrifstofustarfi í stað þess að vera frumkvöðull. Í Bandaríkjunum er frumkvöðullinn kóngur. Hérna er orðið athafnamaður frekar notað í neikvæðri merkingu um fólk.

En ég tók fyrir nokkrum mánuðum þá ákvörðun að helga mig Serrano, allavegana í ákveðinn tíma. Ég og Emil höfum rekið þetta sem nokkurs konar hobbí síðustu 4 ár, en vorum komnir á þá skoðun að miðað við stærð staðarins og mikla velgengni, þá gengi það ekki til frambúðar – sérstaklega ekki ef við ætluðum okkur að ná fram þeim markmiðum, sem við vildum ná fram.

Þannig að ég hætti og helgaði mig Serrano. Það hefur þýtt að mestallan nóvember og desember mánuð hef ég oft staðið sveittur í eldhúsinu á Serrano í stað þess að sitja hreyfingarlaus fyrir framan tölvu einsog áður.

En mér þykir einfaldlega gríðarlega vænt um veitingastaðinn okkar Emils og vil sjá hag hans sem bestan og því finnst mér ekkert að því að ganga þar í öll störf sem þarf að ganga í.

Og það er kannski ekki úr vegi að tilkynna það hér að við ætlum í lok janúar að **opna nýjan Serrano stað**: Þessi staður verður á nýrri ESSO stöð sem er verið að byggja við Hringbraut. Þessi stöð er á milli BSÍ og Hljómskálagarðsins og stefnt er að því að opna þann 26.janúar.

Þetta þýðir að aðdáendur Serrano geta fengið að borða líka á kvöldin, en við höfum fylgt opnunartíma Kringlunnar, sem þýðir að við höfum hingað til lokað klukkan 7 marga daga vikunnar.

En allavegana, ég er orðinn verulega spenntur fyrir nýja staðnum. Við höfum á síðustu vikum verið að breyta nokkrum hlutum, sem að bæta gæði og þjónustu á staðnum og munum halda áfram að bæta staðinn á næstu vikum og mánuðum með nokkrum spennandi nýjungum. Ég er sannfærður um að þetta ár verði spennandi ár fyrir staðinn okkar.

6 thoughts on “Hvað ert þú að gera þessa dagana, Einar Örn?”

  1. Glæsilegt! Til hamingju með nýja staðinn…

    Já og Einar, engin pressa, en útibú á Akureyri hlýtur að vera næst á stefnuskránni? 🙂

  2. Nei, við hækkuðum um að meðaltali 7% í desember, sem skýrist af gríðarlegu launaskriði og hækkun á innfluttum vörum.

    Varla næg ástæða fyrir viðskiptabanni hjá Hagnaðinum fyrir innkomuna í miðbæinn. 😉

    Verðið verður svo lækkað í mars.

  3. Neinei, ég stunda reglulega viðskipti við Serrano.

    Fór að vísu nokkrum sinnum á Culiacan, en þeir fóru í instant viðskiptabann þegar þeir fóru að vikta kjúklinginn á burrito-ið.

    Svo eru líka sætari stelpur á Serrano :blush:

  4. Okei 🙂

    Nú stunda ég ekki Culiacan, segðu mér – hvernig vigta þeir kjúklinginn? Eru þeir bara með vigt í borðinu? Svona einsog Quiznos?

    Magnað.

  5. Nei, þeir voru með svona mál, desilítramál hugsanlega. Svo stóð einn kjúklingabitinn aðeins uppúr, og þá var hann fjarlægður. Það átti sko ekki að setja of mikið kjöt á þennan burrito.

    Svo settu þeir ansi lítið af hinu dótinu, sem var kannski sjálfum mér að kenna. Átti að biðja um meira.

    Annars þekki ég fólk sem finnst Culiacan miklu betra en Serrano, en það er önnur saga.

Comments are closed.