Indlandsferð 13: Eh, Bangladess

Rickshaw umferðarteppa í Dhaka

Rickshaw umferðarteppa í Dhaka

Ok, ég veit ég veit – það passar ekki alveg að kalla þessa færslu Indlandsferð því að ég er jú í öðru landi, Bangladess. En mér til varnar, þá er erfitt að sjá muninn á Dhaka í Bangladess og öðrum borgum Indlands, sem við höfum verið í að undanförnu.

Hérna eru sömu lætin, sama umferðin, rickshaw (hjóla og vélknúnir), fólkið lítur út eins, konur í sarí og svo framvegis. Um 90% íbúanna í Bangladesh eru múslimar, en maður sér samt ekki mikinn mun útá götu. Jú, það hljóma bænaköll einsog í öllum borgum Indlands og hér eru menn með hvítar húfur og konur með slæður. En fatnaður kvenna er samt ótrúlega frjálslegur og maður hefur á tilfinningunni að konurnar séu með slæður frekar til að verjast sólinni en vegna þess að einhver skipi þeim að vera með þær.

Semsagt, þetta er allt voða frjálslegt. Fólkið hérna virðist eiga miklu meira sameiginlegt með Indverjum í Vestur-Bengal heldur en Pakistönum í Punjab.

* * *

Bangladesh hefur verið sjálfstætt ríki í aðeins 40 ár – eða frá 1971. Þegar að Indlandi var skipt upp stuttu fyrir sjálfstæði hafnaði Austur-Bengal í Pakistan vegna þess að meirihluti íbúa á því svæði voru múslimar. Pakistan var hálf skrítið land í upphafi því það var engin land-tenging á milli Austur-Pakistan (Bangladess) og Vestur-Pakistan (í dag, Pakistan) – auk þess sem að fólkið talaði sitthvort tungumálið. Öllu landinu var svo stjórnað af fólki frá Vestur-Pakistan. Það fór líka svo að þegar átti að gera Urdu að þjóðarmáli Pakistans þá gerðust kröfur um sjálfstæði Austur-Pakistans háværari (hér er töluð bengalska). Það fór svo að lokum eftir 9 mánaða stríð við Vestur-Pakistan með hjálp frá Indlandi (og gríðarlegan fjölda fallna) að Bangladesh varð að sjálfstæðu ríki.

Bangladess er 8. fjölmennasta ríki veraldar. Hér búa um 160 milljón manns, sem er fjórföldun á fólksfjölda frá árinu 1950 (semsagt, fjöldi íbúa hefur farið úr 40 milljónum í 160 á 60 árum!) Landið er þéttbýlasta stóra land heims (það er að segja eingöngu borgríki og mjög lítil ríki eru þéttbýlari). 90% íbúanna eru múslimar og hin 10% eru nánast allir hindúar. Landið er í 158. sæti yfir landsframleiðslu per íbúa í heimi, fyrir neðan bæði Pakistan og Indland. Landið er því fátækasta land í heimi, sem ég hef heimsótt. Landsframleiðsla per íbúa er til að mynda hærri á Haiti, Mali og í Kyrgyzstan.

* * *

Ég kom hingað til höfuðborgarinnar Dhaka með flugi frá Kolkata. Dhaka er gríðarlega stór og fjölmenn borg (9. fjölmennasta borg í heimi með um 15 milljón íbúa) og umferðin og mengunin er nánast óbærileg. Menguninni er bjargað frá enn verra ástandi vegna þess að hérna virðast vera sæmilegar strætó-samgöngur (strætóarnir eru eldgamlir og hanga saman á einhvern undraverðan máta) og einnig er gríðarlega mikið af (fallega skreyttum) hjóla-rickshaw um alla borg.

Ég eyddi gærdeginum í skoðanaferð um borgina. Ég var slappur eftir hálf skrítinn svefn undanfarna daga (höfðum þurft að vakna fyrir kl 5 3 daga í röð), en átti þó ágætis dag í borginni. Ég borgaði hjóla-rickshaw gaur fyrir að taka mig á helstu túristastaði í gömlu Dhaka. Ég skoðaði búdda musteri, moskur og svo Bleiku höllina, sem liggur við bakka Buriganga ánnar. Ég skoðaði líka hafnarsvæðið, þar sem að farþegaferjur og litlir bátar fullir af vatnsmelónum sigla um.

Ég gisti á hóteli rétt fyrir norðan elsta hluta borgarinnar. Hótelherbergið mitt er hreinræktað ógeð. Það er í mid-range kaflanum í 6 ára gömlu Lonely Planet bókinni minni og það fær mig til að efast um annaðhvort geðheilsu höfunda bókarinnar eða skynsemi þess að vera með 6 ára gamla gædbók. Eini kosturinn við hótelið er að hérna í lobbíinu eru tölvur og sturtan var furðugóð.

Annars er Dhaka ekkert sérstaklega heillandi borg þegar að kemur að byggingum og slíku. En fólkið hérna er jafn yndislegt og Indverjar. Þótt að ég hafi verið á Indlandi í sjö vikur þá finnst mér það ennþá magnað hversu merkilegur maður þykir hér. Krakkar hópast í kringum mann og alls konar fólk starir á mann líkt og maður sé það mest spennandi, sem hafi komið fyrir þau þessa vikuna. Þegar íslenskir krakkar eru litlir er þeim kennt að stara ekki. Ef að 230 cm svartur maður hefði labbað inná skólalóðina þegar ég var 8 ára þá hefði ég reynt einsog ég gat að stara ekki – en það sama á ekki við hér. Börn, jafnt og fullorðnir stara á mann og eitt lítið bros frá mér er nóg til þess að gera alla glaða. Þetta er furðuleg tilfinning. En það gerir það líka að verkum að þrátt fyrir mengunina og lætin þá er erfitt að vera ekki heillaður af Dhaka og Bangladess.

*Skrifað í Dhaka, Bangladess klukkan 11.04*

2 thoughts on “Indlandsferð 13: Eh, Bangladess”

  1. Takk fyrir fína ferðapistla. Mig langar samt að spyrja að einu. Þér finnst ekki að þú hafir yfirgefið Indland aðeins of snemma? Það hefði líklega verið ansi gaman að vera þar og fylgjast með viðbrögðunum eftir sigurinn á Pakistan í cricket. Var að lesa að einn milljarður hafi fylgst með þessum blessaða undanúrslitaleik. Ég þurfti að tala við einn Indverja í síma í vinnusamhengi fyrir leikinn. Það var vægast sagt erfitt að fá hann til að tala um vinnuna.

  2. Takk Örn. Ég var nú ekki svo klár að gera ferðaplanið eftir því hvenær þessir krikket leikir eru. 🙂

    Það var annars gríðarlegur áhugi á krikket leiknum hérna í Bangladess, enda allir hérna annaðhvort heitir stuðningsmenn Indlands eða Pakistan. Það var alveg nóg fyrir mig.

Comments are closed.