Indlandsferð 4: Thar eyðimörkin

Í annað skiptið á ævinni er ég núna að drepast í löppunum eftir úlfaldaferð. Ég fór í eftirminnilega ferð á úlfalda í Jórdaníu og núna sitjum við Margrét á veitingastað og jöfnum okkur eftir tveggja daga úlfaldaferð í Thar eyðimörkinni rétt hjá landamærum Pakistan. Við erum að bíða eftir því að kveikt sé á heita vatninu á gistiheimilinu okkar svo við getum loksins farið í sturtu.


Ég skrifaði síðast af þaki gistiheimilsins okkar í Jodhpur með útsýni yfir Mehrangarh virki. Við heimsóttum það síðan á sunnudaginn. Virkið er í dag safn, sem er viðhaldið af kónginum yfir Marwar, sem hefur í dag engin raunveruleg völd. Við fórum um það með audiotúr í eyrunum, sem var skemmtilegur og fræðandi. Mehrangarh virkið er gríðarlega stórt og það er auðvelt að sjá hvers vegna engum óvinaher tókst að sigrast á því. Inní því er konungshöllin, sem er undirstaða safnsins og svo er hægt að labba um virkisveggina, sem bjóða uppá frábært útsýni yfir Jodhpur.

Útsýni yfir bláu borgina, Johdpur

Við vorum hrifin af borginni þótt hún glími vissulega við sömu vandamál og aðrar indverskar borgir – skít, hávaða, umferð og gríðarlega mengun. Gamla borgin er einsog völundarhús af litlum götum og bláum húsum (ansi mörg húsanna í borginni eru máluð blá – það kælir þau og ver þau gegn flugum). Við eyddum ágætum tíma á markaðinum og borðuðum svo bestu máltíð ferðarinnar á frábærum veitingastað og drukkum með henni indverskt rauðvín og viskí.


Frá Jodhpur tókum við rútu hingað til Jaisalmer, sem liggur við Thar eyðimörkina. Öll húsin eru gul, byggð úr sandlitum múrsteinum og líkt og Jodhpur þá er stórt virki miðpunktur borgarinnar. Virkið hérna í Jaisalmer er reyndar miklu minna en í Jodphur, en á móti kemur að í virkinu hér er ennþá búið. Þar búa um 2.000 manns og auk þess eru fjölmörg hótel. Fjöldi hótela hefur valdið vandræðum því að fráveituvatn frá þeim hefur byrjað að síjast oní jörðina undir virkinu og ógnað stöðugleika þess. Ferðahandbækur mæla því sumar gegn því að fólk gisti innan virkisveggjanna.

Fyrsta daginn okkar í Jaisalmer skoðuðum við virkið, safn inní virkinu, markaðinn og keyptum okkur nokkra hluti, sem við þurftum fyrir eyðimerkur-ferðina, svo sem slæður til að verjast sólinni.

Flestir þeir, sem koma hingað til Jaisalmer fara héðan í ferð á úlfalda útí Thar eyðimörkina. Við vildum ekki vera öðruvísi og pöntuðum okkur tveggja daga ferð. Ég mundi það vel eftir Jórdaníu hversu þreyttur ég var eftir þriggja klukkutíma setu á úlfalda, en flestir mældu með þessari lengd á ferð. Við vorum í 6 manna hóp með pari frá Póllandi og pari frá Kanada/USA. Fyrst vorum við keyrð í jeppa að Bada Bagh, þar sem við skoðuðum minnismerki um dána kónga og síðar keyrði jeppinn okkur áleiðis að eyðimörkinni þar sem að hópur úlfalda tók á móti okkur ásamt gædunum okkar.

Margrét á úlfalda

Við tók svo 6 tíma labb inní eyðimörkina á úlfalda, sem var brotið upp með löngum hádegismat undir tré einhvers staðar á leiðinni þar sem við borðuðum hefðbundinn indverskan mat – blómkál, kartöflur og Chapati brauð, sem að sumir Indverjar borða með öllum mat -ekki ósvipað og Mexíkóar gera með tortillur. Um 6 leytið komum við svo að sandgryfjum, þar sem við gistum um nóttina.

Það tekur verulega á að sitja á úlfalda svona lengi. Úlfaldar eru það stórir að ístað myndi sífellt nuddast inní þá og því situr maður á úlfalda með hangandi lappir. Það setur gríðarlega pressu á innanverð læri og eftir nokkra klukkutíma verður verkurinn frekar slæmur. Við vorum því verulega þreytt þegar við komum að sandgryfjunum í gærkvöldi. Við borðuðum þar Dahl (linsubaunir) og Chapati í kvöldmat og eftir að hafa setið við varðeld sváfum við á þunnri dýnu á sandinum undir berum og stjörnubjörtum himni. Það var orðið verulega kalt þegar við fórum að sofa – veðrið var ekki það gott um daginn – og því var búið um okkur í svefnpoka og með 3 teppum oná, þannig að okkur yrði ekki kalt.

Thar eyðimörkin

Í morgun vaknaði ég frekar stirður – eyðimörkin er ekki gott rúm – og auk þess var ég stífur eftir úlfaldalabb gærdagsins. Við löbbuðum svo í um 4 tíma í dag í áttina að Jaisalmer. Veðrið var fallegra í dag og á tíma þegar við vorum að labba í gegnum gróðurinn í sólinni, þá var útsýnið ótrúlega magnað. En þreytan í líkamanum var orðin slík að eftir hádegismat þá vorum við alveg komin með nóg af úlföldum. Úlfaldarnir okkar voru nokkuð góðir, fyrir utan það hversu mikið þeir reka við framan í úlfaldann á eftir sér – sérstaklega úlfaldinn hennar Margrétar, sem var á undan mér. Einnig voru úlfaldatemjararnir með einn auka úlfalda, sem þeir voru að þjálfa (hann er sjö ára, hinir sem við vorum á eru 10-12 ára), sem að gaf frá sér mikil öskur þegar þeir voru að fá hann til að setjast niður.


En núna erum við semsagt komin aftur inná hótel dauðþreytt eftir ævintýri síðustu daga, með sand útum allt. Við ætlum að eyða nóttinni hérna í Jaisalmer og seinni partinn á morgun tökum við svo næturlest til Jaipur. Þaðan er planið að heimsækja Ranthambore þjóðgarðinn, þar sem við gerum okkur veika von um að sjá tígrisdýr.

Skrifað í Jaisalmer, Indlandi klukkan 18.20