Indlandsferð 5: Bleika borgin

Dagarnir okkar tveir í Jaipur hafa verið býsna ólíkir. Við komum hingað í gær og dagurinn fór í eintómt vesen og leti, en dagurinn í dag hefur farið í massíft túristaprógramm.

Við komum til Jaipur klukkan 5 í gærmorgun eftir 12 tíma næturlest frá Jaisalmer. Það var okkar fyrsta reynsla af indverskum lestum og hún var bara fín. Við vorum í loftkældum klefa (ekki vegna hitans, heldur vegna næturkuldans) og vorum þar með fjórum nokkuð vinalegum Indverjum. Í klefanum voru 6 kojur (3 hæðir) og við fengum hreint lak og teppi. Lestin fór þetta svo hægt og örugglega. Samkvæmt því sem ég mældi á símanum mínum (er það eitthvað sem iPhone getur ekki?) þá var meðalhraðinn um 40 km á lestinni, en hún fór uppí 100 km hraða á einhverjum punktum. Það er mun betra en rútur bjóða uppá hér.

Við fórum svo beint uppá hótel, þar sem var búið um okkur inná veitingastaðnum þar sem að herbergið var ekki tilbúið.

Dagurinn fór svo í vesen. Við ætluðum að senda pakka með dóti, sem við keyptum á markaðnum í Jaisalmer og það reyndist 3 klukkutíma ferli. Við þurftum að fara á pósthúsið, þaðan í þrjár búðir á markaðnum til að finna pökkunarefni, svo aftur á pósthúsið – og allt þetta ferli tók yfir 3 tíma. Eftir það vorum við orðin svo sólgin í kaffi að við löbbuðum hálfa borgina í leit að kaffihúsi, sem seldi eitthvað annað en lapþunnt skyndikaffi. Það tókst ekki. Við enduðum því heima á hóteli, þar sem við héngum á netinu í einhverja klukkutíma – ég svaraði vinnupósti og við skipulögðum ferðalagið næstu vikurnar.

* * *

Grafhýsi nálægt Jaipur

Vegna þess hversu illa gærdagurinn nýttist höfðum við í raun bara daginn í dag til að sjá Jaipur, sem er eftir allt stærsta borgin í Rajasthan. Þess vegna fengum við strák á Rickshaw til þess að vera okkar prívat bílstjóri í allan dag. Hann fór með okkur í Bleiku borgina (miðhluti Jaipur er kallaður bleika borgin vegna þess að mörg húsanna voru máluð bleik í tilefni heimsóknar ensks konungs í byrjun síðustu aldar), þar sem við skoðuðum konungshöllina.

Nú gæti einhver spurt hvaðan þessar konungshallir koma allar. Jú, Rajasthan ríkið var fyrir sjálfstæði Indlands mun fleiri lítil ríki, sem áttu hvert sinn konung og sitt virki. Þau voru sameinuð stuttu eftir sjálfstæði og konungarnir misstu sín völd. Konungshallirnar og glæsileg virki standa þó enn og eru vinsæl meðal túrista.

Virki nálægt Amber höllinni

Allavegana, við skoðuðum líka grafhýsi konunga og keyrðum svo út til Amber þar sem við skoðuðum konungshöll, sem er ekki jafn falleg og sú í Jaipur, en er á ótrúlega fallegum og mikilfenglegum stað í miðri fjallshlíð. Staðsetningin og virkismúrarnir í kring gerðu þetta að frábærum stað til að skoða í dag.

* * *

Ferðaplanið okkar er farið að skýrast nokkuð núna. Planið er að fara á morgun í Ranthambore þjóðgarðinn og reyna að sjá tígrisdýr. Þaðan til Pushkar, svo upp til Delhi og þaðan til Amritsar þar sem við ætlum að skoða Gullna Hofið. Svo snúum við við, förum í gegnum Delhi og til Agra þar sem við sjáum Taj Mahal. Þaðan til Occha og svo að Varanasi þar sem ég ætla að synda í Ganges ánni (eða ekki) og þaðan til Calcutta. Frá Calcutta eitthvað norður, sennilega til Darjeeling og Sikkim. Svo aftur til Calcutta, þaðan sem ég fer í nokkra daga til Bangladess og endum svo á Andaman eyjum.

*Skrifað í Jaipur, Rajasthan Indlandi klukkan 20.15*

2 thoughts on “Indlandsferð 5: Bleika borgin”

  1. Þessar lestir eru skemmtilegur ferðamáti. Ekki verra að lestirnar fari hægt ef það er hægt að sofa í þeim, einskonar næturlestir. Sálin verður allavega ekki eftir, eins og Laxnes sagði, þegar hann flaug á milli landa.
    Þið eruð að kynnast landinu mjög vel með þessum máta.

    Hlakka til að heyra meira af næsta áfanga.

    Kv. Finnbogi Kr.

  2. Jamm, það er alger snilld að vera í lestum. Maður þarf ekki að hafa áhyggjur af traffík, það fer vel um mann og maður sér landið miklu betur.

Comments are closed.