Indónesíuferð 3: Frá Jövu til Balí

Ég lauk síðasta bloggi á því að segja frá lokum á útsýnistúr um Gunung Bromo eldfjallið. Við höfðum verið talsvert óviss um það hvernig planið fyrir næstu daga ætti að vera en ákváðum að lokum að koma okkur til Bali og færa okkur þaðan til Lombok eða Flores.

Rútuferðin til Bali varð hins vegar aðeins skrautlegri en við áttum von á. Á ferðaskrifstofunni var okkur tjáð að ferðin til Denpasar á Bali tæki um 8 klukkutíma. Það reyndist ekki alveg rétt. Í Probilinggo vorum við sett uppí loftkælda rútu, sem átti að fara til Denpasar (þrátt fyrir að á skilti framan á rútunni stæði eitthvað annað). Þar hittum við strax Egypta með ofsóknarbrjálæði, sem var sannfærður um að öll Indónesía væri í allsherjar samsæri gegn honum sem ferðamanni. Eftir um 2 tíma rútuferð stoppuðum við í bænum Jember og var þar sagt að við þyrftum að skipta um rútu. Við vorum þá orðin alveg peningalaus, þannig að ég samdi við einhvern strák um að skutla mér á vespu í hraðbanka. Egyptinn fylgdi með og fékk ég því að bíða eftir honum í 10 mínútur á meðan að hann reifst við einhverja konu um gengi á bandaríkjadollar.

Á rútustöðinni beið Margrét. Þegar ég hitti hana aftur ákváðum við að borða á eina staðnum, sem seldi mat og það eina sem þar var selt virtust vera pakkanúðlur, sem höfðu verið soðnar nokkrum klukkutímum áður. Furðulega skrautlegur matur, sem að Margrét segir að sé uppspretta magakveisunnar sem að hún er með núna. Við prófuðum líka eitt versta “klósett” sem ég hef séð (gólf til að pissa á væri sennilega betri lýsing en klósett), sem var svo einnig bænaherbergi. Mjög skemmtileg samblanda.

Loks fór nýja rútan af stað. Hún var reyndar ekki með loftkælingu og þar sem við þurftum að bíða í 15 mínútur á hverri stoppistöð þá vorum við ekkert agalega hress fyrstu tímana í ferðinni. Auk þess reyndist ferðin svo vera mun lengri en þeir 8 klukkutímar, sem okkur var sagt í byrjun. En með brjálæðislegum ofsa-akstri tókst okkur þó að koma okkur til Denpasar á Bali um 13 klukkutímum eftir að við fórum frá Bromo (aðeins 5 tímum á eftir áætlun). Þar tók svo við leigubílaferð hingað til Ubud.

* * *

Hér í Ubud höfum við svo tekið því rólega. Við vorum eftir allt á ferðalagi í 19 klukkutíma á fimmtudeginum, svo við eyddum gærdeginum á besta hóteli ferðarinnar (sem er bungalows inní miðjum skóginum með á við hliðiná – geggjað) í sólbaði og afslöppun. Í dag ætluðum við að fara í hjólaferð, en Margrét vaknaði með magapest og þarf því að taka því aðeins rólega. Hún er því uppá hóteli (sem við vorum að skipta á, þar sem að hitt var upp-pantað í dag – þurfum svo aftur að skipta um hótel á morgun, mjög hressandi) og sefur.

Planið er að vera hérna í Ubud í einn dag í viðbót og reyna að sjá bæinn og nágrenni betur á morgun. Á mánudaginn ætlum við svo að fara yfir til Gilli eyjanna, sem eru rétt undan strönd Lombok. Þar ætlum við að fara á köfunar-námskeið (Margrét fyrir byrjendur, ég á upprifjunarnámskeið). Svo er áætlunin að feta okkur í átt til Flores, með viðkomu á Komodo.

(p.s. Ég setti inn nokkrar myndir frá Jövu á Flickr. Ég er ekki búinn að laga þær neitt til, ég geri það þegar við komum heim. Hérna er tengill á slide-show, sem er sennilega skemmtilegri leið til að skoða myndirnar.)

*Skrifað í Umbud á eyjunni Bali, Indónesíu klukkan 18:29.*

2 thoughts on “Indónesíuferð 3: Frá Jövu til Balí”

  1. Vona að konan hafi látið sér batna! Myndi alveg fórna mér í að vera með á Bali OG í köfuninni. Jájá. En ég er líka ofsalega sátt við að sitja bara í Lögbergi og skrifa ritgerð. Heitar kveðjur til ykkar héðan úr stuðinu.

Comments are closed.