Indónesíuferð 5: Sautján þúsund eyjar

Indónesía er gríðarlega stórt, fjölmennt og margbreytilegt land. Landið samanstendur af yfir 17.000 eyjum, sem eru allt frá pínulitlum eyjum uppí tvær af þremur stærstu eyjum heims, Borneo og Papúa (sú stærsta er auðvitað Grænland). Indónesía ræður þó aðeins yfir hluta þeirra eyja (á Borneo eru líka Brunei og Malasía – og á Papúa er líka Papúa Nýja Gínea).

Landið er fjórða fjölmennasta land í heimi (á eftir Kína, Indlandi og Bandaríkjunum) og reglulega erum við minnt á það að Indónesía er fjölmenasta múslimaríki í heimi, sem að eykur sennilega áhuga umheimsins á landinu. Fjölbreytileikinn er þó mikill. Í landinu búa ólíkir kynþættir (það fólk sem býr á Bali er býsna ólíkt því fólki, sem býr á Papúa) og í raun má segja að landið sem þjóðríki sé það eina helst byggt á landafræði og sameiginlegu tungumáli – indónesísku (sem svipar til malaísku – hér er notað vestrænt stafróf), sem að stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að útbreiða.

Að vera á Jövu og á Lombok er alls ekki ósvipað því sem ég upplifði í síðustu ferð minni til Suð-Austur Asíu. Mannmergðin er gríðarleg og maður sem túristi verður fyrir miklu áreiti frá sölufólki, leigubílstjórum og slíku. Samt er athyglin sem maður fær, sem hvítur Evrópubúi, ekkert sérstaklega mikil. Svo sannarlega mun minni en ég fékk til dæmis í Mið-Ameríku eða Víetnam og Laos. Fólkið er þó upp til hópa mjög vinalegt og einstaklega brosmilt. Á Bali er fólk að mörgu leyti ólíkt því sem maður finnur á Jövu – til að mynda eru stelpurnar mun fallegri.

Landið var áður hollensk nýlenda – hér réð Austur Indíafélagið öllu og landið fékk ekki sjálfstæði fyrr en 1949 – eftir að Japanir höfðu hersetið landið í Seinni Heimsstyrjöldinni og Hollendingar höfðu gert misheppnaða tilraun eftir stríð til að ná landinu aftur undir sína stjórn. Þjóðhátíðardagur landsins er 17.ágúst, sem er einmitt afmælisdagur minn.

* * *

Meginhluti Indónesa eru múslimar og síðustu ár man ég varla eftir frétt um Indónesíu án þess að á það sé minnst að þetta sé fjölmennasta múslimaríki heims. Ég ferðaðist í fyrra um nokkur múslimalönd (Sýrland, Jórdaníu, Líbanon og Palestínu) og ég verð að segja að munurinn á þeim og Indónesíu er gríðarlegur.

Á Jövu og Lombok var maður vissulega vakinn um miðjar nætur með bænaköllum (sérstaklega í Yogyakarta) en annað er ólíkt því sem maður fann í Mið-Austurlöndum. Útlitslega eru hlutirnir til að mynda mjög ólíkir. Afar fáir karlmenn eru hér með skegg og klæðnaður múslimskra kvenna er mun frjálslyndari. Fyrir það fyrsta þá virðist stór hluti múslimskra kvenna alls ekki klæðast neinum sérstökum fötum. Þær sem gera það eru aðallega með slæðu utanum hárið. Þær slæður eru þó vanalega litríkar og notaðar nánast sem partur af tískunni. Ég hef hér enga konu séð í fullum hijab. Allar reglur varðandi áfengi og aðra hluti eru svo einnig mjög frjálslyndir miðað við múslimaland.

Landið hefur komist í fréttirnar útaf hryðjuverkasamtökunum Jemaah Islamiyah (indónesísk stjórnvöld telja sig hafa drepið leiðtoga þeirra – við horfðum á það í beinni útsendingu yfir morgunmat í Senggigi), sem að vilja stofna íslamskt ríki í Indónesíu og Malasíu – en stuðningur við slík samtök virðist ekki vera útbreiddur hér. Svo sannarlega sjást hvergi stuðningsveggspjöld líkt og maður sá útum allt í Palestínu og á Sýrlandi.

Hér á Bali eru flestir Hindúar, en annars sér maður ekki mikinn mun vegna trúarbragða – allavegana ekki á yfirborðinu. Það er vissulega staðreynd (sem þarf svo sannarlega að endurtaka alltof oft fyrir suma) að yfirgnæfandi meirihluti múslima hefur engan áhuga á ofbeldi.

Landið er líka fátækt. Samkvæmt AGS er landið í 116. sæti yfir hæstu þjóðartekjur á íbúa. Það setur landið fyrir neðan lönd einsog Marokkó, Írak, Georgíu, Paragvæ og fleiri. Af þeim löndum, sem að ég hef heimsótt kemst Indónesía þó yfir lönd einsog Hondúras, Bólivíu, Laos og Kambódíu. Samkvæmt ríkinu er atvinnuleysi hér um 10% en ég hef ekki minnstu hugmynd um það hvernig þær tölur eru fundnar út, því að fólk án atvinnu og með ótrygga atvinnu er án efa mun fleira. Alls staðar þar sem maður kemur þá virðist alltof margt fólk vera að vinna einföld störf. Á veitingastöðum eru fjórum til fimm sinnum fleiri starfsmenn en myndu sinna sama fjölda kúnna í Evrópu og úti á götum er alltaf fullt af fólki, sem virðist hafa lítið sem ekkert að gera.

* * *

Ég og Margrét höfum verið hérna í Kuta í tvo daga. Til þess að sleppa við flugfar þá tókum við ferjuna hingað frá Kuta á Lombok. Tókum reyndar bíl í tvo tíma, svo 5 tíma ferju og svo 2 tíma í bíl til að komast frá Kuta á Lombok til Kuta á Bali. Við komum hingað til Kuta á Bali rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöld og höfðum þá ekkert hótelherbergi pantað, þar sem að öll hótelherbergi í ferðahandbókinni okkar voru upptekin (það er martröð að ferðast hér í ágúst mánuði). Við löbbuðum því um miðbæ Kuta með bakpokana okkar þangað til að við enduðum á hóteli þar sem að við fengum að gista í herbergi, sem er vanalega ekki leigt út. Herbergið var án sturtu og vasks og á gólfinu voru tveir notaðir smokkar. Já, tveir.

Annars er Kuta á Bali skemmtilega geðveik blanda af strönd og mannlífi. Ég skrifa um það betur seinna.

Við eigum tvo daga eftir hér og eftir það förum við til Borneó.

*Skrifað í Seminyak á eyjunni Bali, Indónesíu klukkan 21.25*

4 thoughts on “Indónesíuferð 5: Sautján þúsund eyjar”

  1. Mæli með að þið farið til Jimbaran (http://en.wikipedia.org/wiki/Jimbaran) og borðið kvöldmat á ströndinni, passið þó að vera komin tímanlega til að sjá sólsetrið sem er æðislegt. Maður situr úti á strönd og borðar nýveitt og grillað sjávarfang – humarinn er frábær.

  2. Takk fyrir þetta, Sævar. Við fórum þangað einmitt síðasta daginn (eftir athugasemdina frá þér) á Bali og það var mjög skemmtilegt.

Comments are closed.