Indónesíuferð 6: Í regnskógum Borneo

Við Margrét erum búin að eyða síðustu fjórum dögum hérna á Borneo. Það er einum degi lengra en við áætluðum þar sem að fluginu okkar aftur til Jövu í gær var seinkað um heilan sólahring. Því erum við núna stödd á netkaffihúsi í bænum Pangkalang Bun. Þessi bær er vanalega lítið meira en smá stopp á ferðalagi fólks frá flugvellinum hér til Tanjung Puting þjóðgarðarins. En þar sem fluginu okkar var seinkað svona svakalega þá höfum við fengið að eyða hér sólarhring. Hérna eru útlendingar ekki algengir, sem sést á athyglinni sem að við vekjum hvert sem við löbbum. Allir heilsa okkur, krakkar hlæja að því þegar við heilsum þeim tilbaka og svo framvegis. Á hótelinu talar svo enginn ensku, sem er ekki gott.

Ég er enn að reyna að ná mér niður á jörðina eftir að hafa byrjað daginn á því að skoða kop.is þar sem ég sá að Liverpool hafði tapað sínum fyrsta leik. Andskotans djöfulsins fokking kjaftæði. Ég ætla að reyna að ná mér niður og skrifa eitthvað blogg um síðustu daga, sem hafa jú verið frábærir.

* * *

Við komum hingað á föstudaginn með flugi frá Jakarta. Höfðum gist nóttina áður á flugvallarhóteli í Jakarta þar sem við borguðum morðfé fyrir að sofa í þrjá klukkutíma. Fluginu okkar frá Bali var nefnilega seinkað um heila 5 klukkutíma og við lentum því ekki í Jakarta fyrr en rétt fyrir fjögur um morguninn. Við vorum búin að panta okkur ferð með skrifstofu, sem að íslenskur gaur benti okkur á, og vorum því sótt útá flugvöll hér í Pangkalang Bun og keyrð strax til Kumai, sem er lítill og skrýtinn bær sem liggur við (man ekki nafn núna) ána. Þar byrjuðum við á því að borða stjarnfræðilega viðbjóðslega máltíð á aðalveitingastað þorpsins og síðan fórum við yfir í bátinn okkar, sem var okkar heimili næstu þrjá daga.

Báturinn, sem heitir klotok á indónesísku er lítill trébátur á tveim hæðum. Niðri er matur eldaður og öll stjórntæki, en uppi er fínn pallur þar sem við gátum legið á dýnum og um kvöld var þar sett upp moskítónet, svo við gætum sofið undir berum himni. Ótrúlega skemmtilegt.

Eftir smá bið byrjuðum við svo að þoka okkur upp ána inní frumskóga Borneo. Þetta var ekkert ósvipað því sem ég upplifði í regnskóginum í Venezuela. Nokkuð þröng, brúnlituð á og allt í kring endalaust af trjám, sem virtust vaxa uppúr vatninu við bakkann. Fyrsta daginn gerðum við lítið nema að liggja uppá palli og virða fyrir okkur umhverfið, hlusta á óteljandi dýrahljóð í skóginum og horfa á Probiscus apana, sem að hoppuðu á milli trjáa sem við sáum úr bátnum og svo skoðuðum við lítið þorp í miðjum skóginum. Við gistum svo á föstudagskvöldið einhvers staðar inní regnskóginum á bátnum okkar.

Tanjung Puting er þjóðgarður á Borneo. Þessi eyja, sem inniheldur auk Indónesíu Malasíu og Brunei hefur verið misnotuð af yfirvöldum og fyrirtækjum í tugi ára. Gríðarlega stór hluti af rengskóginum hefur verið hogginn niður eða einflaldlega brenndur, aðallega til þess að rýma fyrir ræktunarland, sem hefur aðallega verið notað undir pálmatré til framleiðslu á pálmaolíu, sem er notuð í snyrtivörur og mat – aðallega í Evrópu (í garðinum er Palmolive sápa notuð sem dæmi um típíska vöru, sem er unnin á landi sem var áður regnskógur). Þessi eyðilegging hefur unnið óbætanlegan skaða á eyjunni. Auk þess hafa indónesísk stjórnvöld í áratugi stuðlað að fólksflutningum á milli eyja – frá fjölmennum eyjum einsog Jövu og Bali til eyja þar sem að fáir búa, einsog Papúa og Borneo. Þetta hefur bæði stuðlað að ófriði á milli innfæddra og aðfluttra og einnig þá gaf flutningur fólks til Borneo fyrirtækjum sem stóðu í að eyðileggja skóginn, ódýrt vinnuafl.

Sennilega er besta vonin fyrir regnskóga Borneo að þjóðgarðarnir verði smám saman stækkaðir. Tanjung Puting þjóðgarðinum er um 4.000 ferkílómetrar, sem er ekki mikið á þessari risastóru eyju. En hann er samt sem áður helsti griðarstaður Orangutan apa (sem búa bara á Borneo og Súmötru). Órangútar eru eina tegund risaapa, sem að búa utan Afríku.

Við byrjuðum laugardaginn á því að sigla enn lengra upp ána. Þar vorum við svo ótrúlega heppin að sjá algjörlega villta órangútan apa sveifla sér í trjánum við ána. Eftir smá siglingu komum við á stað þar sem órangútan öpum er gefið að borða. Við biðum í hálftíma eftir að sjá hvort þeir myndu koma að ná sér í mat, en enginn lét sjá sig – aðallega vegna þess að svo margir ávextir eru þroskaðir í skóginum á þessum tíma að lítil ástæða er fyrir apana að leita sér að frekari mat.

Næst fórum við í Camp Leaky búðirnar, sem voru settar upp í kringum 1970 til þess að hjálpa órangútan öpum, sem hafði verið bjargað (oftast vegna þess að heimili þeirra hafði verið brennt), til að komast á fætur og aftur út í rengskóginn. Þar var fylgst með þeim og margt af því sem við vitum um þessa stórkostlegu apa er tilkomið vegna rannsókna sem fóru fram í Camp Leaky.

Við upplýsingamiðstöðina í Camp Leaky sáum við strax órangútan apa (kvenkyns) sem hefur búið í búðunum í mörg ár. Það hefur komið í ljós með árunum að margir aparnir verða aldrei aftur fullkomlega sjálfsæðir – flestir kunna að meta þau þægindi sem felast í því að fá mat tvisvar í dag í búðunum, en svo búa þeir frjálsir í skóginum þess á milli (þeir eru líka frjálsir í búðunum, labba þar um á meðal manna). Eftir hádegismat sáum við svo þegar að öpunum er gefið að borða í Leaky. Þar er stór pallur í miðjum skóginum (langt frá búðunum) þar sem settir eru á bananar, sem að aparnir sækja svo í. Sú sjón er með ólíkindum. Þarna komu um 20 apar, margir með lítil börn hangandi í sér og sveifluðu sér í trjánum og komu svo niður á jörðina þar sem þeir voru óhræddir að labba meðal okkar og leita í guide-ana, sem að þeir þekktu. Þessar skepnur eru með ólíkindum líkar mönnum og þær geta lært ólíklegustu hluti.

Við tókum slatta af myndum þarna, sem að lýsa þessu betur – en þetta var ógleymanleg lífsreynsla.

Á laugardagskvöldinu var báturinn svo festur við einhverjar trjágreinar ofar á ánni og þar sváfum við þrátt fyrir öll hljóðin í skóginum.

Á sunnudeginum héldum við svo aftur til Kumai. Á leiðinni hittum við einn apann úr Camp Leaky búðunum, sem að var að leika sér í skóginum nálægt búðunum. Við fengum að kasta til hennar nokkrum bönunum, sem var ótrúlega skemmtilegt. Það ætti að skylda alla bandaríkjamenn, sem trúa ekki þróunarkenningunni, að skoða þessa apa í nokkra klukkutíma og sjá hversu ótrúlega líkir okkur þeir eru.

Frá Kumai tókum við svo leigubíl útá flugvöll þar sem okkur var tjáð að fluginu hefði verið frestað um sólahring og því sitjum við hér á þessu netkaffi. Um þrjú leytið í dag eigum við svo flug til Jakarta og þaðan til Denpasar á Bali þar sem við ætlum að eyða síðustu dögum ferðarinnar.

*Skrifað í Pangkalang Bun á eyjunni Borneó í Indónesíu klukkan 11.20*

3 thoughts on “Indónesíuferð 6: Í regnskógum Borneo”

  1. Er það ekki rétt munað hjá mér að aparnir opna banana öfugt? Bíta þeir ekki af endanum og kreista hann upp í sig? Mig minnir að það sé eini munurinn á þeim og okkur,… 🙂

    Æðislega ævintýraleg ferðasaga,.. gerir vistina hérna í háskólakjallaranum aðeins líflegri.

    Kv. Borgþór

  2. Boggi, held þetta sé rétt hjá þér, reyndar eru ekki allir menn jafn loðnir á afturendanum og þú en það er önnur saga 🙂

    Einar, til hamingju með daginn

    bkv,
    Emil Helgi

  3. Júmm, þeir opna bananana á skringilegan hátt. Ég set inn vídeó þegar ég kem heim.

    Gaman að heyra að þetta geri lífið bærilegra.

    Og takk, Emil. Fyrir kveðjuna, það er.

Comments are closed.