Indónesíuferð 9: Myndir og bækur

Þar sem ég er veikur heima, þá tók ég mér loksins tíma í að klára að vinna hluta af myndunum úr Indónesíuferðinni. Myndirnar voru um 1.500 talsins í byrjun, núna eru um 800 eftir. Ég setti fyrsta hlutann inn á Flickr, sem eru myndir frá Taílandi og Jövu. Ég reyndi að hafa ekki alltof margar myndir í settinu, en við sáum svo margt í þessari ferð að það er erfitt að velja og hafna.

Allavegana, myndir frá Jövu og Taílandi eru hérna.

Svo er hægt að horfa á þetta sem slideshow hér.

* * *

Svona til að reyna að klára ferðasöguna frá Indónesíu, þá er hérna listi yfir þær bækur sem ég las í ferðinni. Þær eru talsvert færri en í síðustu ferð (Mið-Austurlandaferðinni) sem stafar af því að ég var með ferðafélaga og svo horfði ég líka á sjónvarp í iPod-inum mínum, sem ég hef ekki gert áður.

  • Richard Dawkins: The God Delusion: Án efa merkilegasta bókin sem ég las í ferðinni. Bók sem ég mæli með fyrir alla, hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki. Ég hef farið í marga hringi með það hverju ég trúi í gegnum tíðina. Það er sennilega efni í heilar færslur, en við Margrét lásum bæði þessa bók og upp frá henni spunnust óteljandi samræður í ferðinni.
  • Ben Elton – Blind Faith: Leiðinlegasta Ben Elton bókin sem ég hef lesið.
  • Michael Lewis – Liar’s Poker: Lewis, (sem varð frægur á Íslandi fyrir að skrifa um springandi Range Rover bíla í Reykjavík) skrifar á skemmtilegan hátt um reynslu hans af því að vinna sem trader hjá Salomon Brothers á níunda áratugnum þegar að það fyrirtæki (sem er núna hluti af Citigroup) fann upp leiðir til að græða á nýjan hátt á fasteignaviðskiptum. Ágætis lýsing á stemningunni, græðginni og allri vitleysunni sem tengdist því.
  • Tom Perrotta – The Wishbones: Þetta er fyrsta bókin eftir Perrotta (sem hefur skrifað m.a. Little Children og Election, sem eru frábærar). Góð bók, þótt seinni bækur hans séu enn betri.
  • David Bach – Go Green, Live Rich: Stutt bók um umhverfisvernd og hvað við getum gert til þess að hjálpa umhverfinu. Margrét elskar svona bækur og ég las þessa hjá henni. Hún er fín.
  • Guðni Jóhannesson – Hrunið: Ég kláraði hana daginn áður en ég fór í ferðina, þannig að ég hef hana með hér. Góð bók um Hrunið, þó hún bæti svo sem ekkert rosalega miklu við sem maður vissi ekki áður.
  • Bill Bryson – A short history of nearly everything (hljóðbók – ókláruð): Ég hef verið að hlusta á þessa bók sem hljóðbók ansi lengi. Í Indónesíu hlustaði ég á nokkra klukkutíma og hélt áfram að heillast að þessari bók. Hlustaði til að mynda á langa kafla um þróunarkenninguna á svipuðum tíma og ég var að lesa God Delusion, sem að passaði afskaplega vel saman. Bókin fjallar á skemmtilegan hátt um heil ósköp af hlutum, svo sem jarðfræði, efnafræði og líffræði – en gerir það á svo skemmtilegan hátt að maður fær áhuga á viðfangsefnum sem maður hafði lítinn áhuga á fyrir.