Jón Baldvin og bandaríska leiðin

Ég og Hildur fórum í gær á Kaffi Victor, þar sem við sáum Jón Baldvin tala fyrir fullum sal.

Að þessu sinni einbeitti hann sér að því að tala um bandaríska heilbrigðiskerfið og skort á almennum sjúkratryggingum í því kerfi. Þetta var nokkuð athyglisverður fyrirlestur fyrir mig, sérstaklega þar sem einn tíminn minn í skólanum á þessari önn fjallaði einmitt mikið um bandaríska kerfið. Stjórnmálafræðikennarinn minn, Peter Swenson, hefur einmitt búið í Svíþjóð og heillast svo mikið af kerfinu á Norðurlöndum að hann hefur skrifað um það margar bækur, auk þess að kenna þennan tíma. Á lokaprófinu mínu í þessum tíma skrifaði ég stutta ritgerð um þetta málefni og ætla ég aðeins að skrifa núna um hvað mér finnst um bæði íslensku og bandarísku kerfin.

Bandaríska kerfið er nefnilega, hvað sem þeir hjá Frelsi.is segja, meingallað. Ég trúi því að ríkið eigi að afnema öll höft og hætta í öllum rekstri. Hinsvegar trúi ég því að ríkið eigi að sjá fyrir sjúkratryggingum fyrir alla. Bandaríska leiðin, þar sem atvinnurekendur skaffa tryggingarnar er meingölluð. Þannig fá þeir, sem eru atvinnulausir litlar bætur og einnig þeir, sem vinna í verktakavinnu. Einnig þeir, sem vinna í láglaunavinnustörfum, svo sem á McDonald’s.

Bandaríkjamenn hafa líka ákveðið að stjórna ekkert framboði á heilbrigðisþjónustu. Þeir rökstyðja það sem svo að almenningur eigi að vera skynsamur neytandi á heilbrigðisþjónustu alveg einsog þeir eru skynsamir þegar þeir kaupa sér kaffi. Málið er bara ekki svo einfalt, því að almenningur hefur lítið vit á að bera saman heilbrigðisþjónustu og þegar fólk þarf á þjónustunni að halda hefur það oftast lítinn tíma til að velta því fyrir sér hvar best sé að beina viðskiptum sínum.

Það að Bandaríkjamenn stjórna ekki framboðinu hefur orðið til þess að það er gríðarlegt offramboð af rúmum á sjúkrahúsi. Mörg sjúkrahús ná sjaldan yfir 50% nýtingu á rúmum. Ekki það að það sé skortur á sjúklingum, heldur er mörgum sjúklingum neitaður aðgangur vegna þess að þeir eru ekki (eða illa) tryggðir. Þannig að mörg sjúkrahús kjósa að láta fremur rúm standa auð frekar en að hjálpa fólki.

Með bandaríska heilbrigðiskerfinu hefur ójöfnuður aukist gríðarlega. Þeir sem hafa efni á þjónustunni geta notið afbragðsþjónustu, sem er án efa sú besta sem gerist í heiminum. Það eru hins vegar aðeins þeir efnameiri, sem geta nýtt sér þessa þjónustu.

Vandamál heilbrigðiskerfisins snýst um þrjá hluti: Að þjónustan sé sem best, Að þjónustan sé sem ódýrust, Að sem flestir geti notað þjónustuna. Það er hinsvegar ómögulegt að sameina þessa hluti. Þetta snýst einfaldlega að finna kerfi, sem getur hámarkað þessa þrjá hluti.

Bandaríska kerfið stendur sig ömurlega varðandi hlutina þrjá. Reyndar er þjónustan sú besta í heimi. Hins vegar eyða Bandaríkjamenn langmest allra þjóða (sem hlutfall af landsframleiðslu) í heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir það, þá eru tugmilljónir manna, sem fá enga þjónustu.

Íslenska kerfið er mun betra. Þar er þjónustan á mjög háu stigi, hún er tiltölulega ódýr og allir Íslendingar geta nýtt sér þjónustuna, sama hvað þeir heita eða gera.

Sennilega mun reynast erfitt að breyta bandaríska kerfinu. Þegar Bill Clinton varð forseti hafði kostnaður fyrirtækja af heilbrigðistryggingum starfsmanna aukist gríðarlega. Þess vegna studdu mörg stórfyrirtæki það átak, sem Clinton ætlaði að gera í tryggingamálum. Þegar hins vegar stóru hagsmunaaðilarnir sáu þetta, þá gerðu þeir sitt besta í að lækka kostnaðinn við tryggingar. Þeim tókst það og því minnkaði stuðningur stórfyrirtækjanna við Clinton og umbætur hans urðu að engu. Síðan hefur komið á daginn að eftir að Clinton planið misheppnaðist hefur kostnaðurinn aftur byrjað að vaxa á gríðarlegum hraða.

Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að Jón Baldvin var á fundinum í gær mjög gagnrýninn á bandaríska kerfið. Reyndar var fyrirlestur hans mjög svipaður því, sem maður hefur fengið að heyra frá prófessorinum mínum.

Jón Baldvin benti réttilega á að það bandarískt þjóðfélag mun ekki endalaust sætta sig við það lýðræði, sem er í gangi í landinu. Sögunni er ekki lokið einsog margir halda.