Mið-Austurlandaferð 15: Haifa

Þá styttist í lokin á þessari ferð. Mér er búið að líða hálf einkennilega eftir Jerúsalem. Aðallega vegna þess að eftir að ég kláraði þá borg, þá er ég búinn með alla þá hluti, sem mig hlakkaði mest til að sjá þegar ég var að skipuleggja ferðina.

Ég á um viku eftir og hlutirnir sem ég á eftir að sjá eru ekki svo rosalega spennandi miðað við það, sem er búið í ferðinni. Kannski liggur leiðin alltaf niður á við eftir Jerúsalem. Ég er reyndar alveg ofboðslega þreyttur akkúrat núna eftir mikið labb í miklum hita í dag. Vaknaði hress í morgun syngjandi Three Little Birds (ó hvað ég elska það lag) þrátt fyrir að ég hafi drukkið stærsta hlutann af rauðvínsflösku í garðinum á hótelinu í gær á meðan ég sagði einhverjum Könum ferðasögur, heyrði sögu annars Kana – sem er að ganga í ísraelska herinn, og sagði Portúgala hversu mikið ég hataði Cristiano Ronaldo.

* * *

Allavegana, í gær komst ég loks uppá Musterishæðina í Jerúsalem. Þar er hægt að taka myndir af byggingunum að utan, en við infidels getum víst ekki farið inní Al-Aqsa moskuna né heldur Dome of the Rock. Þannig að það er lítið að gera á hæðinni nema að pósa fyrir framan þessar byggingar, sérstaklega hina mögnuðu Dome of the Rock.

Ég labbaði svo einu sinni enn um miðbæinn og tók svo rútu hingað upp til Haifa. Ég er því aftur kominn að Miðjarðarhafinu, þar sem þessi ferð hófst fyrir um fimm vikum. Haifa er þriðja stærsta borg Ísrael. Hér er svo sem ekki margt merkilegt að gerast. Borgin er helgur staður fyrir Bahaía og í morgun heimsótti ég Bahaía garðana, sem eru í Carmel fjallshlíðinni.

Í dag eyddi ég svo tímanum í hafnarborginni Acre, sem er rétt fyrir norðan Haifa. Gamli miðbærinn í þeirri borg er mjög fallegur og vel þess virði að eyða einum degi labbandi um þröngar götur og drekkandi bjór við Miðjarðarhafið.

* * *

Ég er ekki alveg viss um það hvað er næst. Er að gæla við það að fara til Nazareth á morgun og þaðan að Galilee vatni. Er einnig að hugsa um að fara suður og skoða Masada. Allavegana ætla ég að vera kominn til Tel Aviv á föstudaginn. Þar ætla ég að eyða helginni á djammi og á ströndinni og fljúga svo til London frá Ben-Gurion á þriðjudagsmorgun.

Já, og svo er YNDISLEGT að skoða þessa töflu. Loksins get ég glaðst yfir árangri míns liðs í íþróttum.

Skrifað í Haifa, Ísrael klukkan 21.51