Mitt kramda hægrikrata hjarta

Flest, ef ekki allt, í þessari grein er einsog talað frá mínu hjarta.

Ég vil fá gamla Alþýðuflokkinn aftur. Ekki Samfylkingarsamsuðu, fulla af gömlum sósíalistum. Ég vil almennilegan hægrikrata flokk, sem myndi vinna saman með Sjálfstæðisflokki. Það er nefnilega þannig að Framsóknarflokkurinn dregur fram allt það versta í fari Sjálfstæðisflokknum (svo sem ríkisstyrki í landbúnaði).

Hægri krataflokkur myndi hins vegar draga fram allt það besta í Sjálfstæðislfokknum (frjáls markaður, lægri skattar, minni ríkisafskipti).

Samfylkingin er ávallt að hamra á því að hún sé höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Þýðir það þá að hún sé höfuðandstæðingur minnkandi ríkisafskipta og lægri skatta, sem Sjálfstæðisflokkurinn segist styðja. Samfylkingin leggur áherslu á mennta- og velferðarmál, en málið er að Sjálfstæðisflokkurinn er sammála þeim í helstu atriðum. Helsti andstæðingur minn í stjórnmálum væru Vinstri-Grænir enda er stefna þeirra (fyrir utan suma ágæta spretti í einstaka utanríkismálum) gamaldags og afturhaldssöm.

Ef Samfylkingin heldur áfram að hamra á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé höfuðandstæðingurinn, þá eiga þeir flokkar vart samleið í ríkisstjórn. Það þýðir að eina leiðin fyrir Samfylkinguna er að vinna með Vinstri grænum og Framsókn (guð hjálpi okkur).

Ég held að skárri kostur væri bara fyrir okkur hægri krata að halda okkur til í sér stjórnmálaflokk, þótt sá flokkur næði ekki nema 10-15 prósentum einsog Stefán talar um í greininni.