Næsta stopp: Egyptaland

Þar sem að ég sit núna heima með kvef, hálsbólgu og slíkt og úti í morgun var 22 stiga frost í Stokkhólmi þá er ekki laust við að manni dreymi um aðeins meiri hita og sumar. Þessi vetur hérna í Stokkhólmi er búinn að vera með eindæmum slæmur, sá verst í 25 ár heyrði ég einhvers staðar.

Það er allavegana ljóst að veturinn er umtalsvert harðari en sá síðasti. En það er vonandi að sumarið bæti þetta upp því við Margrét hyggjumst eyða sumrinu í Svíþjóð og fara ekki í lengri ferðalög einsog við gerðum í fyrra, heldur njóta Stokkhólms og fara kannski í styttri ferðir.

En í janúar þegar ég var um það bil að verða geðveikur á myrkrinu og kuldanum þá ákváðum við að panta okkur ferð til Egyptalands um páskana. Til að byrja með var hugmyndin að fara bara í einhverja pakkaferð á sólarströnd. Svo örvæntingarfullur var ég orðinn eftir sól að mér fannst það vera farið að hljóma einsog góð hugmynd.

En þegar við fórum að spá betur í þessu þá ákváðum við að fara í aðeins metnaðarfyllri ferð. Við munum því yfir páska vera í 10 daga í Egyptalandi. Við byrjum á því að fljúga til Kaíró (via Amsterdam) þar sem við verðum í 4 daga, sem ætti að vera passlegur tími til að sjá Píramídana og allt það helsta í þeirri borg. Þaðan tökum við rútu til Alexandríu þar sem við ætlum að vera í 2 daga og svo munum við enda á 5 dögum í túristabænum Sharm El-Sheikh. Þar er aðalspennan fyrir köfun, enda þykir köfun í Rauða Hafinu þar í kring vera frábær. Einnig er hægt að fara í ferðir uppá Sinai fjall, svo að það er nóg að sjá.

Þetta er planið. Við spáðum í því að reyna að sjá enn meira (Luxor og nágrenni til dæmis) en ákváðum að hafa einhvern tíma á ströndinni líka. Þetta er ágætis blanda af menningu og strönd.

Ef einhverjir hafa punkta um Kaíró og þessa staði sem við nefnum þá væru þeir vel þegnir. Ég hef auðvitað ekki komið til Egyptalands, en ég hef verið ansi aktívur í múslimalöndum að undanförnu (síðustu tvö stóru ferðalög hafa verið til Sýrlands, Jórdaníu, Líbanon, Ísrael og Indónesíu).

Mynd fengin héðan.

16 thoughts on “Næsta stopp: Egyptaland”

  1. Þið hafið ekki spáð í því að kafa frekar frá Hurgada fyrst þið ætlið til Alexandríu og viljið líka ná Lúxor? Þá er þetta allt svona í betri nálægð við hvort annað, Sharm el Sheikh er einhvern vegin allt önnur átt. Mæli með bílaleigubíl frá Karíó til Sharm el Sheikh, það er ævintýri að keyra yfir Sinaii skagann.

  2. Já, nei – við ákváðum að taka Luxor bara í annari ferð. Ef við hefðum reynt við það þá hefðum við lítinn tíma haft fyrir strönd og köfun.

    Bílaleigubíll segirðu… ég var einhvern veginn búinn að útiloka það að keyra eitthvað þarna – er mjög óvanur því að keyra á ferðalögum.

  3. Hef fylgst með blogginu þínu í gegnum tíðina og ákvað að vera frakkur commenta hér í fyrsta skipti. Var í Egyptalandi í nokkrar vikur fyrir nokkrum árum, þetta er náttúrulega magnaður staður. Mæli með borg hinna dauðu í Kairo, sérstakur staður þar sem fólk býr í gömlum grafhýsum. Egypska safnið er svo náttúrulega skylda sem og allir þessir bazarar sem eru þar í gangi. Ef möguleiki er að ferðast til Dahab þá myndi ég gera það enda afar skemmtilegur staður sem er við Rauða hafið en kannski full langt í burtu (100+ km. frá Sharm El sheik). Toppurinn er að fara upp Níl á Faluga í nokkra daga að mínu mati. Um að gera að nota leigubíla, þeir kosta ekki mikið ef maður passar að semja um verðið fyrir brottför. En það skiptir ekki svo sem ekki máli hvað er gert, landið býður upp á endalausa möguleika.

  4. Dahab er örugglega meira stemmingin sem þú fílar Einar, þ.e. svipað og í SA Asíu og örugglega Roatan. Sharm el Sheik er meiri túrista/pakkastaður. Frábær köfun í Dahab, m.a. Blue hole. Við vorum þar í tæpa viku á 4 vikna ferðalagi um Egyptaland og Ari tók Padi prófið þar.

    Við tókum overnight rútu á milli Luxor og Dahab og svo Dahab og Cairo sem var alveg ágætt og sparaði auðvitað mikinn tíma.

    Mæli annars líka með Falucca siglingu á Níl. Við fórum í 3 daga siglingu á milli Aswan og Luxor, en eins og þú segir hafiði varla tíma í að fara svo langt niðreftir. Reyndar er mjög þægileg næturlest á milli Cairo og Aswan ef þið viljið t.d. kíkja á Abu Simbel.

    Skemmtið ykkur vel og segðu Margréti að klæða sig “vel” því margar stelpur lenda í að vera áreittar og það er óþægilega mikið glápt á mann hvernig sem maður er klæddur… engar stuttbuxur eða stutt pils myndi ég segja (nema á ströndinni).

  5. Annars held ég að 3 dagar séu meira en nóg í Cairo. Einn heill dagur í að sjá pýramídana, einn dagur í að skoða borgina og Egypt museum… Spurning hvort 2 dagar duga? Þetta er ekkert sérstaklega skemmtileg borg þannig séð…

    Mæli með að leigja bíl með bílstjóra í heilan dag og láta hann keyra ykkur að skoða alla pýramídana. Það eru margir aðrir staðir en Giza þar sem færri túristar fara og er vel þess virði að sjá. Við vorum t.d. einu túristarnir að skoða einn af þessum minna þekktu pýramídum og gátum farið inn í hann án þess að borga einhverjar himinháar upphæðir.

  6. Dahab er afskaplega skemmtilegur bakpokaferðalangastaður með afar afslappaðri stemningu. Eins og Pálína benti á þá er the Blue hole þar við sem þykir magnaður staður til að kafa á og get ég staðfest það. Er sammála það sem Pálína sagði – kíkti á sínum tíma á minnsta Pýramídann af þessum þremur stórum og þar bauð einhver herramaður okkur að klifra upp á hann fyrir rétt verð, sem var ekki mikið. Fannst það mun meira spennandi en að vafra í einhverju myrkri inni í þeim. Það er allt leyfilegt fyrir rétt verð. Annars olli Sfinxinn mér mestum vonbrigðum – hann/hún var kettlingur að stærð.

  7. Okei, takk kærlega fyrir þetta.

    Ástæðan fyrir að ég valdi Sharm El-Sheikh var bæði ráðleggingar frá gaurnum sem vinnur með mér – hann er mikill kafari og hann hafði verið á báðum þessum stöðum og mér fannst hann ekki mæla nægjanlega með Dahab til að vega uppá móti því að ég fann betri díla á hótelum í Sharm – og að það eru 100 km frá flugvellinum til Dahab og á svona stuttu ferðalagi vill maður takmarka tíma í rútu. Ég geri mér alveg grein fyrir að Sharm er resort túristastaður.

    Siglingarnar verða að bíða betri tíma, en við höfum smá val um það hvort við tökum 3 eða 4 daga í Kaíró – myndum þá eyða auka degi á Alexandríu ef að við myndum ákveða að 3 dagar nægðu fyrir Kaíró. Gætum þá jafnvel farið í einhverjar styttri ferðir frá Alexandríu, einsog Rosetta t.d. (hefur einhver komið þangað?)

    Og ég tékka á þessu með píramídana – ég er búinn að lesa nóg um þá til að gera mér grein fyrir að Sfinxinn og Píramídarnir geti alveg valdið smá vonbrigðum – þannig að við förum með hóflegar væntingar.

    Heiða, takk fyrir myndbandið. Áhugavert.

  8. Og já, var búinn að lesa þetta um fötin. Ég var eiginlega búinn að gera ráð fyrir að vera svipað klæddur einsog í Sýrlandi, það er aldrei í stuttbuxum. Margrét tekur þetta til sín.

  9. Ég var í Kaíró fyrir nokkrum árum og fór að sjálfsögðu á The Egyptian Museum. Að standa fyrir framan dauðagrímu Tutankhamun er hreint og beint ólýsanlegt.

    Í langan tíma á eftir var alltaf hálf furðulegt að horfa á lok fréttatímans í sjónvarpinu. Ástæðan er að þá birtast alltaf stuttar fréttir um eitthvað sem er að gerast í listum. Það virkaði allt saman eins og ómerkilegt drasl og ég hugsaði alltaf: “Get a fucking job”. Frekar ósanngjarnt en satt.

  10. Jamm, egypska safnið er eitt af fáum söfnum, sem mér hefur lengi langað að heimsækja. Ég hef komið á British Museum, Louvre, Metropolitan, Guggenheim (NY og Bilbao) Rijksmuseum, Hermitage og Prado. Þetta er eiginlega stærsta safnið sem ég á eftir að heimsækja.

  11. Uffizi í Flórens er líka eitt af þessum must see stóru. Mæli með því ef þið skreppið eitthvað til Ítalíu á næstunni!

  12. Leyfi mér bláókunnugri manneskjunni að skrifa hér smá comment, en síðan þín kom upp þegar ég “googlaði” Egyptaland – en þangað stefni ég ásamt fjölskyldu minni og verð reyndar í Dahab um páskana. Ferðumst á eigin vegum og höfum leigt bíl í Sharm El Seihk hjá Sixt bílaleigunni – af fenginni reynslu hefur sú leiga reynst okkur vel og er með sanngjarnt verð. Sjáumst e.t.v á Sinai fjalli – góða ferð.

  13. Takk Rut – sömuleiðis góða ferð.

    Og já, Pálína það eru nú alveg söfn, sem ég á eftir að heimsækja en þessi voru þau stærstu á listanum. Ég á Ítalíu alveg eftir.

Comments are closed.