Nei, hæ!

Úfff, loksins er Movabletype komið í lag aftur og ég get farið að skrifa á netið á ný. Þeir, sem sjá um server-inn minn voru eitthvað að fikta í Database málum. Í stað þess að gera mér kleift að nota MySQL þá tókst þeim að rústa Berkeley DB, þannig að ég gat bara ekkert notað MT.

Allavegana, það er nú ekkert svakalega mikið búið að gerast síðustu daga. Jú, ég lenti á djammi með Betu Rokk. Við kynntumst í partíi hjá snillingunum hjá DBT, sem eru auglýsingastofa Serrano. Allavegana, þá er Beta Rokk bara skemmtilegasta stelpa og hún og vinkona hennar drógu okkur Emil á Píanóbarinn. Ég var hins vegar búinn að fá alltof mikið af fríu áfengi, þannig að ég entist ekki lengi þar.

Annars gerðist ekki mikið um helgina, lá í þynnku, horfði á Liverpool (og í framhaldi af því lagðist ég í þunglyndi). Serrano gengur bara glimrandi vel. Við vorum með auglýsingu í Fréttablaðinu á föstudag og voru viðtökurnar bara ágætar.

Hmmm, já, stóri PR er með snilldar kvikmyndagagnrýni um nýjustu mynd Michael Moore, sem mig hlakkar mjög mikið til að sjá enda er ég hrifinn af Moore.


Jammm, það gengur misjafnlega vel hjá mínum íþróttaliðum í Bandaríkjunum. Skólanum mínum gengur hrikalega í fótboltanum og einnig eru Chicago Bears búnir að tapa 700 leikjum í röð. Ég hitti reyndar gaur á Serrano, sem var í Bears bol. Hann var frá Wiscounsin (sem er álíka skrítið og Liverpool aðdáandi frá Manchester) og gátum við grátið saman yfir slæmu gengi Bears þetta árið.

Cubs eru í góðum málum, þeir búnir að ráða snillinginn Dusty Baker sem þjálfara og því verða þeir örugglega meistarar næsta sumar. Svei mér þá, mig langar ekkert smá að skella mér út til Chicago á leik næsta sumar. Meira að segja blaðamennirnir á Tribune eru bjartsýnir á að Dusty Baker muni ganga vel.

Jammmm, og Bulls eru bara búnir að vinna fjóra leiki og tapa sex, sem er bara nokkuð gott hjá því liði. Best væri náttúrulega fyrir Bulls ef þeir gætu bætt sig umtalsvert frá síðasta vetri, án þess þó að komast í úrslitakeppnina. Þá gæti þeir átt séns á að ná sér í LeBron James í næsta nýliðavali. Það væri snilld!

One thought on “Nei, hæ!”

Comments are closed.