Ó leit.is, þú ert mögnuð leitarvél

Ég er búinn að röfla nógu oft um Leit.is á þessari síðu. Ég verð þó að bæta enn við þetta. Fyrir stuttu skrifaði ég [stutta færslu](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/13/11.55.36/), þar sem ég benti á dópsala síðuna, sem var fjallað um í fjölmiðlum.

Síðan þá hef ég sennilega fengið um 500 leitar fyrirspurnir af Leit.is (sjá [hala af fyrirspurnum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/13/11.55.36/) í sjálfri færslunni). Ef leitað er að “Dópsalar” á leit.is, þá kemur *mín* síða fyrst upp. Ef hins vegar er leitað á Google kemur rétta Dópsala síðan hins vegar fyrst upp.

Ég er svo sem ekkert alltof hrifinn af þessari traffík á þessa einu færslu hjá mér. [Sumir](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/07/07.12.10/#3098) virðast hreinlega halda að ég sé [þessi pabbi, sem birtir nöfn dópsalanna](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/07/07.12.10/#3098). Það er orðið ansi slæmt ef fólk fattar ekki muninn á að vísa í viðkomandi síðu og að hafa í raun staðið fyrir síðunni.

Það er líka merki um hversu slöpp leitarvél Leit.is er, að á meðal þeirra 23 leitarniðurstaðna, sem sú síða fann, þá var *ekki ein* niðurstaðan rétt niðurstaða. Það er ansi magnað afrek. Ég geri ráð fyrir að 98% þeirra, sem hafi leitað að orðinu “dópsalar” hafi verið að leita að lista síðunni. Sennilega hafa flestir fundið hana í gegnum mína síðu, en það er náttúrulega ekki ásættanleg niðurstaða.

One thought on “Ó leit.is, þú ert mögnuð leitarvél”

Comments are closed.