Opnun Serrano í Svíþjóð

Það eru sennilega einhver þrjú ár síðan að við Emil byrjuðum að ræða af alvöru þann möguleika að opna Serrano stað í útlöndum. Þetta hafði verið draumur okkar frá stofnun, en við byrjuðum ekki að ræða það af alvöru fyrr en við höfðum rekið staðinn á Íslandi í nokkurn tíma. Þessar pælingar byrjuðu sem símtöl á kvöldin þar sem við ræddum hlutina fram og tilbaka. Einhverjar óljósar hugmyndir um að víst að Íslendingar væru að fíla Serrano, hvers vegna ættu ekki aðrir Evrópubúar að gera það líka?

Eflaust hafa útrásarvíkingar, sem þá voru þjóðhetjur heima á Íslandi, haft þau áhrif á okkur að okkur fannst útrás vera möguleg, en ekki fjarlægur draumur. Kannski getum við þakkað þeim að við höfðum meiri kjark til þess að láta af þessu verða.

Ég man ekki alveg hvenær Svíþjóð varð fyrir valinu. Ég hafði ekki verið neitt sérstaklega spenntur fyrir Svíþjóð alveg þangað til að ég kom fyrst til Stokkhólms. Ég varð strax ástfanginn af borginni og varð sannfærður um að þetta væri staður sem ég gæti hugsað mér að búa. Ég var einnig í miklum samskiptum við nokkra sænska birgja í gömlu vinnunni minni og þar á meðal var einn kontaktinn, sem talaði mikið við mig um það hversu mikil tækifæri hann taldi vera fyrir mexíkóskan mat í Svíþjóð. Þannig að smám saman var stefnan tekin markvisst á Stokkhólm.

* * *

Raunveruleg undirbúningsvinna fyrir opnun hefur tekið gríðarlegan tíma og sennilega meirihluta af mínum vinnutíma í næstum því eitt ár. Það má segja að lokaákvörðun hafi verið tekin í San Francisco ferð okkar Emils síðasta janúar og síðan þá hef ég unnið í þessu á fullu. Við fengum til liðs við okkur sænskt ráðgjafafyrirtæki til þess að finna staðsetningar fyrir staðina okkar. Sú vinna er enn í gangi því planið er að opna fleiri en einn stað.

Við fengum plássið í Vallingby einhvern tímann í sumar. Þegar það komst á hreint þá jókst vinnan umtalsvert. Standardinn okkar fyrir opnun hérna í Svíþjóð er auðvitað allt annar en hann var þegar við opnuðum í Kringlunni fyrir 6 árum. Allt markaðs- og þjálfunarefni hefur verið þýtt á sænsku, við höfum endurbætt matseðilinn og aukið við úrval, sem og lagað nokkra hluti í núverandi réttum og endurbætt markaðsefni. Með því að breyta matseðli og markaðsefni og á sama tíma vera að opna í nýju landi, þá jukum við pressuna og vinnuna við opnunina. En á móti þá ætti Serrano konseptið að vera þéttara og betra heldur en það var áður.

Við byrjuðum að smíða staðinn í nóvember. Vegna gjaldeyrismála var erfitt fyrir okkur að klára málin hérna úti. Við létum smíða afgreiðsluborðið heima og senda það út og það sama má segja um slatta af tækjum og öðru hlutum. Mestallt af smíðavinnunni var klárað í desember rétt eftir að ég fór heim í jólafrí.

Eftir áramót kom ég út ásamt Söndru og Elínborgu, sem eru báðar vanar af Serrano heima á Íslandi. Sandra er núna veitingastjórinn í Vallingby og Elínborg er í eldhúsinu. Það að hafa þær þarna auðveldar mér mjög lífið því þær þekkja það manna best hvernig á að reka Serrano stað. Fyrstu vikuna sem ég var hérna úti héldum við ráðstefnu þar sem við kynntum fyrirtækið og réðum í kjölfarið starfsfólk, sem byrjaði svo í þjálfun. Vikuna fyrir opnun kom svo Emil og auk þess kom Guðni yfirkokkur. Hann þurfti að breyta fulltaf hlutum þar sem að hráefnið er að mörgu leyti ólíkt því hráefni sem við notum heima.

* * *

Síðustu dagar fyrir opnun voru einsog vanalega fullir af stressi. Við höfðum ætlað að opna síðasta miðvikudag, en á mánudaginn var mér ljóst að það væri ekki hægt og því var opnuninni frestað um einn dag. Þrátt fyrir það var það ansi margt sem kláraðist ekki fyrr en á síðustu metrunum. Gosvélar og goskælar voru ekki sett upp fyrr en síðasta daginn og kassakerfið var ekki komið í lag fyrr en að kúnnarnir voru komnir í biðröð fyrir utan.

Um fjögur leytið daginn fyrir opnun tókum við loka test á staðnum. Við elduðum allan matinn og leyfðum starfsfólkinu að afgreiða einsog um alvöru viðskipti væri að ræða. Það er skemmst frá því að segja að ég var alls ekki sáttur við lokatestið. Tortillurnar, sem við vorum með, voru ekki nógu góðar og auk þess var kjúklingurinn skrítinn. Þá tók við nokkra klukkutíma stress. Mér tókst að redda nýjum tortillum og ég, Margrét og Guðni kokkur enduðum á að fara með taxa heillanga vegalengd að heildsölubúð, sem var enn opinn klukkan 9 um kvöldið. Þar tókst okkur að kaupa nokkra hluti í stað þeirra sem við vorum ekki sátt við. Það fór svo að við Guðni vorum ekki orðnir sáttir við kjúklinginn fyrr en um klukkutíma áður en að staðurinn opnaði á fimmtudagsmorgninum.

Við vorum búin að auglýsa það að 300 fyrstu kúnnarnir myndu fá ókeypir burrito og það var því gaman að sjá að fyrir klukkan 11 var strax komin biðröð fyrir utan staðinn. Allt gekk svo ótrúlega vel í opnuninni og fyrsta helgin hefur líka gengið vel. Á bakvið tjöldin hafa auðvitað komið upp ýmis vandamál, en ekkert sem að kúnninn ætti að hafa tekið eftir.

Þannig að núna er opnunin búin og við getum því farið að einbeita okkur að því hvernig má bæta staðinn og auka viðskiptin á næstu vikum. Það verður nóg í gangi á næstu vikum og mánuðum, en byrjunin lofar allavegana góðu.

17 thoughts on “Opnun Serrano í Svíþjóð”

  1. Þetta er snilld hjá ykkur. Vonandi opniði bara svo fleiri staði í Svíþjóð, síðan hin Norðurlöndin bara.

  2. Innilega til hamingju!!! 🙂 þið eruð náttla bara snillingar!
    Bið að heilsa öllum 😉

  3. Innilega til hamingju með þetta, vona að fólk hætti ekki að vera stórhuga og kjarkað þrátt fyrir hrunið. Ég styð þessa útrás!

  4. Til hamingju gæskur og baráttukveðjur.

    Íslendingar er sólgnir í danskar kjúklingabringur -þú getur kannske flutt eitthvað yfir?

    Telur þú viðskiptahugmynd í því að gerast sænskur hænsnabóndi?

  5. Eins og svo oft áður að þá óska ég ykkur, þér og Emil,.. innilega til hamingju með fyrsta (af mörgum) staðinn í Sverige.

    Þið eruð gott dæmi um sanna víkinga,.. standið í útrás þegar flestir íslendingar eru farnir aftur í að taka slátur og hlusta á langbylgjuna. Þið blásið svo sannarlega lífi í unga frumkvöðla sem hafa að undanförnu ekki séð neitt annað en svartnætti framundan.

    Það sagt,.. þá mæli ég eindregið með því að þið einbeitið ykkur sem allra fyrst að því að auka öryggi á staðnum. Allaveganna hérna á Skáni er mikið um vopnuð rán á skyndibitastöðum þar sem mikil velta er yfir daginn. Það eru til allskonar lausnir eins og við þekkjum frá apótekum heima á Íslandi til að hindra slík tilvik.

    Bara svona hugrenning,..

    Kveðja,.. Boggi

  6. “Einhverjar óljósar hugmyndir um að víst að Íslendingar væru að fíla Serrano,….”
    AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA!!!!!!!!!!!!!!

  7. Frábært Einar og Emil. Til hamingju með nýja staðinn !!
    Fantamikill dugnaður og trú á verkefnið hefur skilað ykkur þarna. Það er líka gaman að heyra móttökurnar fyrsta daginn.

    Ég er ekki í nokkrum vafa að Serrano á eftir að ganga vel í Svíþjóð.

    Áfram Serrano !!!

  8. Til hamingju 😀 besti staðurinn, eitt sem ég verð samt að tjá mig um því miður, er afhverju þetta menntaskóla tilboð hjá ykkur gildir bara fyrir MS, Versló og MR(?) ?

  9. Takk, Birgirþór. Þetta eru einfaldlega einu framhaldsskólarnir sem hafa haft samband við okkur. Við höfum tekið vel í allar fyrirspurnir frá skólum, sem vilja fá afslátt hjá okkur.

Comments are closed.