Punktar og landbúnaður

Allt að gerast!

  • Múrinn er hættur.  Það er að vissu leyti leiðinlegt.  Vona aðallega að Ármann Jakobs skrifi áfram alvarlegar greinar einhvers staðar á vefnum.  Ég fíla hann eiginlega betur sem alvarlegan penna heldur en sem bloggara, þrátt fyrir að báðar útgáfur af honum séu góðar.
  • Það er einhvers konar hámark nördaskaparins hjá mér að uppáhalds útlenska bloggið er skrifað af gaur sem þykist vera forstjóri uppáhalds tölvufyrirtækisins míns:  Fake Steve Jobs.
  • Var þessi ræða Guðna Ágústssonar áðan eitthvað djók?  Hlutirnir sem áttu ekki að vera fyndnir eru eiginlega miklu fyndnari en þeir sem áttu að vera fyndnir.
  • Á þetta fokking Baugs-ríkisstjórnar-kjaftæði ekki að enda?  Framsókn er að gera svo lítið úr sjálfum sér með svona barnaskap.  Gleyma þeir því að eoe.is bað líka um þessa ríkisstjórn fyrir kosningar?  Er ekki ráð að gefa mér það kredit sem ég á skilið?  Á Hreinn Loftsson að fá allt hrósið?  Það er svo stórkostlega móðgandi fyrir allt fólkið sem kaus þessa flokka að gefa það í skyn að Baugur hafi á einhvern hátt stjórnað gjörðum þess.  Framsókn rís ekki upp með svona bjánaskap.
  • Það sem er einstakt við íslenskan landbúnað:  Lambakjöt & skyr.
  • Það sem er alls ekkert einstakt við íslenskan landbúnað:  Nautakjöt, grænmeti, svínakjöt, kjúklingar, mjólk, jógúrt, ostar, etc etc etc…  Getum við ekki talað um landbúnað án þess að við þurfum að vera með þessa þjóðernisrembu gagnvart öllu sem er frá útlöndum?  Íslenskur landbúnaður er ágætur, en það er fásinna að halda því fram að okkar landbúnaðarvörur skáki alltaf vörum frá öllum öðrum löndum.  Guðni verður að átta sig á því.
  • Zodiac er afskaplega góð mynd.  Afskaplega góð!

Góðar stundir.

17 thoughts on “Punktar og landbúnaður”

  1. Það má nú ekki gleyma því að bæði nautakjöt og alifuglakjöt er framleitt hér á landi við mjög ,,heilbrigðar” aðstæður. Erlendis er sérstaklega alifuglakjöt selt sýkt af camphylobacter og jafnvel með salmonellu, hér á landi er gerist það aldrei. Svipað má segja um nautakjötið þar sem lyfjum og fleiru er dælt í gripina í miklu magni sökum þess að stofninn er verri en sá sem við eigum hér á landi.

    Ég tala fyrir mig þegar ég segi að ég kjósi alltaf innlendar vörur fram yfir erlendar. Einfaldlega sökum þess að gæðin eru svo miklu miklu betri!

  2. Ég held að þetta séu ansi grófar alhæfingar. Þú ert að taka verstu dæmin frá til dæmis USA og segja að slíkt eigi við “erlendis”.

    Hefurðu virkilega fengið betra nautakjöt eða kjúklingakjöt á Íslandi en í útlöndum? Ég bara hef ekki orðið var við það.

  3. FDM: Ef þú velur alltaf íslenskar vörur framyfir hinar erlendu, og þú telur að stór hluti íslensku þjóðarinnar geri slíkt hið sama, þá er vandamálið leyst. Fellum niður tolla á landbúnaðarvörum og leyfum fólki að velja á milli þess að kaupa dýrari íslenskar vörur eða hinar ódýrari aðfluttu. Það hvort gæði erlendu varanna séu minni eða meiri skiptir þá einfaldlega ekki máli í þessari umræðu.

    Mér finnst líka yfirlýsingar um kamfílósýkta kjúklinga frá útlöndum minna á svipaða orðræðu um berklasýkta innflytjendur. En það er kannski bara ég …

  4. Persónulega finnst mér innlendar vörur betri og þá sérstaklega horfi ég til þess hve framleiðslan er betri, þá hvað varðar það að íslenski nautgripastofninn er laus við sjúkdóma sem herja á víðast hvar erlendis eins og í Nýja Sjálandi til dæmis þar sem þarf að vinna á þeim með lyfjum.

    Hvað varðar kjúklinga þá er það bara staðreynd að við þurfum ekki að líta lengra en til Norðurlandanna að finna umtalsvert meiri sýkingar í fuglum á meðan það þekkist ekki hér á landi. Hér eru einfaldlega mjög strangar reglur sem verja neytendur fyrir þessu og tryggja það að kjúklingurinn sem neytandinn kaupir sér er ósmitaður. Að því getum við ekki gengið erlendis, því miður.

    Það verður líka að líta á að bændur og bú eru fagmenn á sínu sviði, eins og til dæmis málarar og píparar. Þannig finnst mér sanngjarnt að þeir fái gott verð fyrir sínar afurðir. Oft er látið eins og bændur séu þeir sem græða á því að okra á neytendum en eru bændur alls staðar að hafa það æðislegt og myljandi efnaðir? Milliliðir eru að græða mest á þessari leið frá bónda til neytanda en oft fá bændur að heyra það hversu gráðugir þeir séu.

  5. Þú ert reyndar kominn langt út fyrir upphaflega punktinn, sem er um þennan blessaða þjóðar-rembing um matvælaframleiðsluna. Það er fásinna að halda því fram að Svíar eða Danir geri minni kröfur en við um sýkingar. Það vekur hins vegar athygli þegar eitthvað kemur upp, enda framleiðslan margfalt meiri en hérna og því tölfræðilega meiri líkur á að eitthvað komi upp.

    Varðandi svo þetta:

    oft fá bændur að heyra það hversu gráðugir þeir séu.

    Geturðu nefnt mér EITT dæmi í umræðunni um þetta?

    Málið er að á Íslandi erum við t.d. að halda uppi óhagstæðri verksmiðjuframleiðslu (einsog á kjúklingum og svínakjöti) í stað þess að kaupa þetta frá útlöndum þar sem þetta er framleitt á hagstæðan hátt. Það er að mínu mati álíka gáfulegt og það ef að ríkið bannaði innflutning á gallabuxum til þess að við gætum haldið uppi gallabuxnaverksmiðju á Akureyri.

    Það er allt í lagi að styðja landbúnað sem heldur uppi byggð (einsog kindur) en við þurfum að kunna okkur takmörk.

    Og varðandi gæðin, ég leyfi mér t.a.m. að fullyrða að ekki einn einasti kúnni á mínum veitingastað myndi taka eftir því ef við byrjuðum að nota erlenda kjúklinga (þeir myndu einna helst taka eftir lækkuðu verði), ekki frekar en að fólk fattar muninn á því þegar að við fáum allt í einu paprikur frá Spáni í stað Ítalíu eða þegar tómatar breytast úr íslenskum í spænska.

  6. Það er einfaldlega staðreynd að það er leyft að selja smitaðan kjúkling í búðum erlendis á meðan það er ekki leyft hér á landi. Ég hef starfað innan þessa geira og þekki ansi vel til og þetta er staðreynd. Erlendis tíðkast það að elda kjúklinginn vel og þess vegna drepast flestar þessar bakteríur.

    Ég hef mikið heyrt þessa umræðu um bændur að þeim sé að kenna hátt verð á afurðum til dæmis í kjölfar sauðfjársamningsins, þú virðist ekki hafa orðið var við það en það er bara hugsanlega munur á því umhverfi sem við hrærumst í.

    Þú talar um að það sé í lagi að styðja landbúnað sem heldur uppi byggð eins og sauðfjárrækt en virðist svo ekki sjá að það eru líka til alifuglarækt og svínarækt og þar eru bændur sem þurfa líka að búa. Það er mun meira þess að auki gert fyrir sauðfjárræktarbændur en aðra bændur!

    Varðandi síðasta punktinn þá ætla ég ekki að leggja þér orð í munn en sem eigandi veitingastaðar þá hlýtur þú að kappkosta að bjóða upp á gæða vöru úr gæða afurðum, eða ert þú að segja að þú notir alltaf það ódýrasta í þínar vörur??

    Ég tek einnig fram að þetta er enginn rembingur í mér hvað varðar innlendar vörur. Mér finnst einfaldlega betri afurðir sem framleiddar eru hér á landi en erlendis. Allt frá gulrótum og káli að alifuglakjöti og lambakjöti og finnst ekkert að því að borga aðeins meira fyrir það.

  7. FDM: Endilega borgaðu meira eins og helmingur þjóðarinnar myndi líklega gera, en gætir þú samþykkt að leyfa okkur hinum að njóta þeirra sjálfsögðu réttinda að versla erlendar landbúnaðarvörur og hætta að greiða alla þessa landbúnaðarstyrki sem nema tugum milljarða árlega?

    Horfum á þetta frá öðru sjónarhorni, gefum okkur að nú fari okkar annars ágætu bændur (fátt yfir þeim í sjálfu sér að kvarta) að framleiða vín – á þá að styrkja þá sérstaklega og hamla innflutning á vínum?

    Annars væri þetta nú ekkert sérstakt mál. Efa það ekki að íslensk stjórnvöld myndu stíga hænuskref ef að tollum og höftum yrði aflétt og ekki hefur umræðan í Evrópu snúist um það að gæðaeftirlit Evrópusambandsins sé of lítið.

    EOE: Sjálfur hef ég lengi verið ákafur stuðningsmaður þess að núverandi stjórnarflokkar mynduðu stjórn – líklega er líka einhver allsherjarspilling þar á bakvið… Hreinn er örugglega fjarskyldur frændi minn:)

    Lifi United!

  8. Það er vert að árétta að það eru ekki landbúnaðarstyrkirnir sem halda uppi matvælaverðinu hérna, heldur innflutningstollarnir. Lagðir eru tollar á innfluttar vörur svo íslenskar vörur séu samkeppnishæfar. Staðan er semsagt sú að við erum að niðurgreiða íslenska framleiðslu svo hún gangi upp, en á sama tíma erum við að leggja gjöld á innfluttar vörur vegna þess að þær eru þrátt fyrir það ódýrari! Sér enginn annar fáránleikann í þessu?

  9. 🙂 Ég veit það, en landbúnaðarstyrkirnir leggjst svo ofan á.
    Ef að við byggjum hér við frjálsa samkeppni, þá borguðu sumir neytendur sama verð eða jafnvel hærra fyrir íslenska framleiðslu en við hin töluvert lægra verð fyrir innfluttar vörur + ágóðann af því að losna við landbúnaðarstyrki, sem t.d. væri hægt að nota til að lækka hér skatta á einstaklinga.

  10. FDM: Víða erlendis er hægt að kaupa lífrænan kjúkling. Hér á landi er bara hægt að kaupa kjúkling sem er sprautaður með aukaefnum (ef hverju heldurðu að hann haldist svona fallega bleikur? Reyndar er allt kjöt meira og minna bætt einhverjum efnum hérna til að það haldist fallegt í búðarborðinu.). Þannig að íslenskra landbúnaðarvörur eru ekkert endilega alltaf bestar og hreinastar. Annars prófaði ég að steikja spænskt lambalæri upp á íslenska mátann þegar ég bjó í Madrid og fann satt að segja ekki mikinn mun á því og íslenska lambalærinu.

  11. Ekki gleyma lifrarpylsu!

    Ef þú segir skyr vera einstakt, þá verðuru að hafa slátrið með, finnst ekki betra kombó en það!

  12. Já, Óli – þegar ég sagði “einstakt” þá var ég að tala um hluti sem mér finnst góðir og ég myndi persónulega sakna í útlöndum.

    Og góður punktur, Gummi – ég hef aldrei lagst í prófanir á lambakjöti í útlöndum. Hef þó oft fengið vont lambakjöt, en það getur vel verið vegna þess að tengsl manns við íslenksu eldunaraðferðirnar séu svo sterk.

    Og FDM

    þá hlýtur þú að kappkosta að bjóða upp á gæða vöru úr gæða afurðum, eða ert þú að segja að þú notir alltaf það ódýrasta í þínar vörur??

    Nei, auðvitað gerum við það ekki. Ef hins vegar einhver býður mér vöru sem bragðast nákvæmlega eins á lægra verði, þá tek ég því boði – enda er ég ekki í veitingarekstri í sjálfboðaliðavinnu.

  13. Ég skil ekki afhverju stjórnarliðar taka Baugs nafngift stjórnarinnar svona illa. Það er bæði hnittið, lýsandi og hefur sterka tilvísun í stjórnmálasögu og samfélagssögu síðustu ára og missera. Það hljóta að teljast lang stærstu tíðindi stjórnarmyndunarinnar að helstu stjórnmála og auðvaldsöfl landsins grafa loks stríðsöxina og fallast í faðma eftir sögulegar sættir Baugs við nýja vendi Valhallar. Baugsnafnið hefur til að bera bit og næmin sem léleg og hugmyndasnauð endurvinnsla á Viðeyjarstjórnarnafninu nær ekki að toppa. Það er búið að skýra stjórn eftir örnefninu þar sem hún var mynduð. Er samt alveg opinn fyrir öðrum nöfnum. Hef bara ekki heyrt neitt betra enn þá.

  14. Ég skil ekki afhverju stjórnarliðar taka Baugs nafngift stjórnarinnar svona illa.

    Af því að það gefur það í skyn að ríkisstjórn sem nýtur stuðnings 60% þjóðarinnar sé mynduð vegna áhrifa frá fyrirtæki.

    Sérstaklega þegar þetta kemur frá framsókn.

  15. hmmm… ég myndi nú líka telja mjólk og mjólkurafurðir og svo nautakjötið eitthvað mjög einstakt.
    Kýrnar okkar eru “hreinræktaðir íslendingar” sem almenningur er á móti að kynbæta með erlendum stofnum, ólíkt svínum sem reglulega eru kynbættir með erlendum stofnum.
    Annars hefur það verið reiknað út að innan við 6% af útgjöldum heimilanna fer í kaup á íslenskum búvörum, held frekar að smæð samfélagsins og fákeppni ráði matarverði.
    Svo mæli ég með þessum bæklingi fyrir ykkur:
    http://www.bondi.is/landbunadur/wgbi.nsf/Attachment/svona_er_isl_landbunadur_2007/$file/svona_er_isl_landbunadur_2007.pdf

  16. Það má eflaust deila endalaust um það hvað er “einstakt” á Íslandi. Ég hef hins vegar fengið jafngóðar eða betri steikur í nær öllum löndum sem ég hef heimsótt. Eins fannst mér mjólkin t.d. alveg jafngóð í Bandaríkjunum þar sem ég bjó.

    En svo mega aðrir alveg vera ósammála mér.

    Annars hefur það verið reiknað út að innan við 6% af útgjöldum heimilanna fer í kaup á íslenskum búvörum

    Það má vel vera. En ég á veitingastað og talsvert stór hluti af okkar útgjöldum fer í íslenskar landbúnaðarvörur og því hef ég alveg leyfi til að kvarta. 🙂

  17. Æ, ég veit það…
    Ég er uppalin í sveit og mín fjölskylda eru bændur. Það er grautfúlt að sjá hvað kjötið kostar út í búð og svo hvað bóndinn fær lítið fyrir það. Og svo koma kaupmennirnir og skammast út í hvað allt er dýrt.
    Bændur þurfa að vera duglegri að selja sjálfir beint til neytenda… Það meikar ekki sens (svona á slæmri íslensku) að bændur sé að fá svona 6-8 þús fyrir lamb en eitt lambalæri sé svo selt á um 4 þús.

Comments are closed.