Sælgæti, Amsterdam, Blur og Draumalandið

Búinn að vera hérna í Hollandi í þrjá daga.

Búinn að sitja ráðstefnu um sælgæti í tvo daga, sem hefur á köflum verið áhugaverð og á köflum leiðinleg. Fór í gærkvöldi uppí dómirkjuturninn í Utrecht og eftir það á veitingastað, þar sem að við útbjuggum sjálf matinn. Mjög skemmtilegt. Fékk mér aðeins of mikið af léttvíni og var því ansi nálægt því að sofna í allan dag.

Er kominn inná hótel í Amsterdam, rétt sunnan við aðal miðbæinn. Sit niðrí lobbí, þar sem það er ekkert netsamband á herberginu. Ætla að klára að svara vinnutölvupósti og kíkja svo eitthvað út. Ég elska Amsterdam.

* * *

Það er skrýtið hvernig hálf kjánaleg þjóðerniskennd getur stundum gripað mann í útlöndum. Heima gæti mér ekki verið meira sama um það hver á hvaða fyrirtæki í útlöndum. En í samtali í gær voru tveir Norðmenn að segja að danska fyrirtækið Sterling væri byrjað að fljúga frá Osló. Af einhverju óskiljanlegum ástæðum fannst mér tilefni til þess að leiðrétta þá og segja: **íslenska fyrirtækið Sterling, – they were bought by Icelandic investors, you know!**

* * *

Ég á einhverjar 20 blaðsíður eftir af Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason. Ég er viss um að á næstu vikum ég eigi eftir að reyna að pranga þessari bók inná *alla*, sem ég þekki. Þannig að ef þið viljið spara ykkur ónæðið frá mér, drífið ykkur útí bókabúð strax og kaupið bókina! Hún er **skyldulesning** fyrir alla Íslendinga. Kallar fram bæði mikla bjartsýni og algjört vonleysi. Frábær bók, sérstaklega fyrir þá, sem finnst sniðugt að byggja álver og virkjanir fyrir öll þéttbýlissvæði á landinu.

* * *

Ég hætti að fíla Blur fyrir einhverjum árum og hlustaði aldrei á Think Tank. En platan er inná iPod-inum mínum. Á einhverju shuffle fylleríi heyrði ég lagið Sweet Song í fyrsta skipti. Það lag er algjörlega frábært. Mæli með því!

* * *

Ætlunin er að eyða morgundeginum í Amsterdam. Veit ekki hvort ég hef orku til þess að standa í safnaleiðangri, eða hvort ég sest bara inná kaffihús og læt daginn líða þar. Þarf líka að vinna eitthvað, svo ég sé til.

2 thoughts on “Sælgæti, Amsterdam, Blur og Draumalandið”

Comments are closed.