Serrano í Svíþjóð vinnur verðlaun

Á mánudagskvöldið unnum við á Serrano í Svíþjóð virt sænsk verðlaun, sem veitt eru til veitingastaða ár hvert.

Anders rekstrarstjóri, ég og Alex yfirkokkur með verðlaunin

Restauranggalan er verðlaunaafhending, sem skipulögð er ár hvert af blaði, sem að fjallar um veitingastaðabransann, og er styrkt af fjölmörgum birgjum í greininni. Afhendingin var á mánudagskvöld í glæsilegum sal á frægasta hóteli Stokkhólms – Grand Hotel.

Á verðlaunaafhendingunni voru nokkrir flokkar, svo sem bar ársins (sem að Orangeriet vann) og veitingastaður ársins (sem að Frantzén / Lindeberg vann) auk einstaklingsverðlauna (einsog sommelier ársins). Serrano var tilnefnt í flokknum Årets Smaksättare. Það er kannski erfitt að þýða þann titil nákvæmlega. Orðið má skilja bæði sem “bragðefni” og einnig nokkurs konar “trend-setter”. Dómefndin útskýrði leit sína þannig að þeir leituðu eftir stöðum, sem að kæmu með nýja hugsun inná sænska markaðinn og væru óhræddir við að standa á bakvið sínar hugmyndir (versus það að reyna að gera allt bragðminna og meira sænskt). Í fyrra vann staðurinn Marie Laveau á Södermalm (sem ég held uppá) þessi sömu verðlaun.

Við vorum tilnefnd ásamt einum öðrum stað og við unnum verðlaunin. Þetta var auðvitað frábært því að allir hinir staðirnir, sem voru tilnefndir og unnu verðlaun voru fínir og dýrir veitingastaðir, en við vorum eini skyndibitastaðurinn sem vann verðlaun. Það sýnir kannski að okkur hefur tekist það markmið okkar að setja á markað hérna mat, sem er í sama gæðaflokki og hefðbundnir veitingastaðir selja – en er afgreiddur á fljótan hátt og er ódýr.

Í dómnefnd voru 30 sérfræðingar og í niðurstöðum sínum þá gáfu þau þessa umsögn um Serrano:

>Mexíkóskur skyndibiti fór í ferðalag til Kaliforníu, keypti sér ný föt, fékk nýtt nafn og endaði í Stokkhólmi. Nú hefur hin heita og ódýra skyndibitakeðja flutt sig inní stórborgina og býður þar uppá kryddsterkan og litríkan skyndibita. Orðið ferskt er ekki nægilega sterkt til að lýsa staðnum.

Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld og það er frábært að fá svona viðurkenningu á því að það er fólk þarna úti sem kann að meta það sem við erum að reyna að gera hérna í Stokkhólmi. Það gekk ekki allt einsog smurt þegar að við opnuðum fyrir rúmu ári hérna í Svíþjóð, en núna finnst okkur einsog hlutirnir séu að gerast og að framtíðin sé björt fyrir okkur hérna.

14 thoughts on “Serrano í Svíþjóð vinnur verðlaun”

  1. Þar sem Serrano hefur undanfarin ár unnið hin virtu Bragðlaukaverðlaun Kristjáns Atla hér heima á Íslandi gleður mig að Svíarnir hafi loks ákveðið að herma eftir mér og verðlauna snilldina.

    Til hamingju. Fyllilega verðskuldað!

  2. Ég er svo ótrúlega stolt af Serrano og þér og Emil fyrir að láta ekkert stoppa ykkur 🙂

  3. Innilega til hamingju Einar og þið öll á Serrano. Þetta er frábært hjá ykkur!

Comments are closed.