Síðustu dagar

Fyrsta helgin hérna í Chicago var bara fín. Á föstudag gerðum við Hildur lítið annað en að horfa á vídeó. Á laugardag fórum við í verslanaleiðangur. Við kíktum fyrst í Woodfield mallið, þar sem ég kíkti í Apple búðina og skoðaði nýja iMacinn, sem er alger snilld. Rosalega flott tölva. Við vorum svo að rölta á milli búða og borðuðum McDonald’s, en við höfðum ekki farið á þann stað í næstum því mánuð, sem hlýtur að vera met.

Við fórum svo í IKEA, sem er stærsta verslun, sem ég hef farið í. Eftir að við komum heim borðuðum við og horfðum á Chicago Bulls-Lakers, sem var snilldar leikur. Ég hef ekki skemmt mér jafnvel yfir körfubolta lengi. Shaq í slagsmálum og Bulls unnu svo í framlengingu.

Um 10 fórum við svo og sóttum Ryan og svo löbbuðum við heim til Dan og Chuck, vina okkar. Þar vorum við að drekka amerískan bjór (ahhh, bud light 🙂 eitthvað fram eftir kvöldi. Um miðnætti fórum við svo í partí, þar sem voru sirka 100 manns, með stelpu ælandi í eldhúsinu (ahhh, bandarísk háskólapartí) Við gáfumst uppá því partíi eftir smá tíma og fórum í annað partí 100 metrum frá. Þar var aðeins minna af fólki, svo við vorum þar eitthvað. Við enduðum svo kvöldið með nokkrum vinum hérna heima hjá okkur.

Við komum með sterkan brjóstsykur og Appolo lakkrís að heiman og gáfum vinum okkar að borða. Það vakti ekki mikla hrifningu. Einn vinur minn ætlaði að æla af brjóstykurnum. Eina, sem þau gátu borðað var Haribo gúmmí. Nammm!