Síðustu dagar

Síðustu vikur hafa verið nokkuð annasamar. Það er mikið í gangi varðandi Serrano hérna í Svíþjóð og auk þess höfum við Margrét verið með gesti.

Mamma Margrétar og litli bróðir eru nýfarin heim til Íslands. Eiginlega um leið og það gerðist uppgötvaði Margrét að í íbúðinni voru einhverjir maurar byrjaðir að éta sig í gegnum fötin hennar. Ég kippti mér ekkert sérstaklega upp við það enda á hún nóg af fötum, en það endaði þó þannig að við eyddum megninu af gærdeginum heima, hreinsandi öll föt útúr skápum, ryksugandi íbúðina og annað skemmtilegt.

Heimsókn mömmu og bróður Margrétar var skemmtileg. Jón Jökull litli bróðir Margrétar kom hingað fullur sjálfstraust og lét einsog það væri ekkert sjálfsagðara en að segjast styðja Manchester United inná mínu heimili. Ég lét auðvitað ekki bjóða mér það og við tók sjö daga æfingabúðir, þar sem honum var gerð grein fyrir því að Liverpool sé besta lið í heimi. Hann fékk til að mynda ekki að spila Fifa nema með því að lofa því að velja aldrei Manchester United.

Ekki versnaði málstaður minn við það að ég fór ásamt honum og Villa á O’Learys þar sem við sáum Liverpool niðurlægja United. Eftir nokkra vikna leiðindi var þetta ótrúlega kærkominn sigur.

* * *

Við túristuðumst aðeins með þeim um Stokkhólm. Margrét hafði þó aðeins meiri tíma þannig að ég var eitthvað minna með þeim. Á laugardaginn löbbuðum við um Gamla Stan og miðbæinn, fengum kaffi í Kulturhuset og fleira. Um kvöldið fórum við svo á tónleika með Muse í Hovet.

Það eru sex ár síðan að ég og Friðrik sáum Muse í Laugardalshöllinni. Það voru frábærir tónleikar. Tónleikarnir í Hovet voru líka góðir. Muse er ekki í alveg jafn miklu uppáhaldi hjá mér núna og þeir voru þá, en þeir eru samt fínt tónleikaband. Þeir tóku nokkur gömul lög og svo 5-6 lög af nýju plötunni.

2 thoughts on “Síðustu dagar”

  1. “Maurarnir” eru sennilega pälsängrar og eru þeir hrifnastir af ullarfötum. Húsfélagið er sennilega með samning við eitthvað fyrirtæki sem getur komið og eitrað fyrir þeim. Þeir sem eru öfgafullir mæla með að þvo fötin og frysta þau svo til að losna við þessa gesti.

  2. Jamm, ég held að það sé málið. Við erum að rembast við að þvo allan þvottinn og frysta það sem við getum ekki þvegið á 60 gráðum.

    Húsfélagið er með samning, en þeir mæla með þessu fyrst, þar sem að annars þarf að eitra alla íbúðina. Þetta er fjör. 🙂

Comments are closed.