Suð-Austur Asíuferð 7: Veikindi og kambódískt karókí

Hverjum hefði dottið það í hug að besta internet-tengingin á þessari ferð minni (hingað til allavegana) myndi vera á litlu netkaffi í Kampot, lítt þekktum smábæ í suður-hluta Kambódíu. Og þó, þá sit ég hérna núna með þessa líka ljómandi tengingu.

Úti er rigning og hérna í Kampot er nákvæmlega ekkert að gera – og ég er enn veikur, þannig að ég fékk mér gott herbergi með sjónvarpi og ætla að eyða kvöldinu í fótboltagláp. Síðustu dagar hafa hvorki verið spennandi né skemmtilegir.

Dvöl mín í Sihanoukville stóð ekki alveg undir væntingum. Ég sá fyrir mér í hillingum sól og strendur og djamm, en lítið af því rættist. Ferðin frá Phnom Penh til Sihanoukville var ágæt. Þrátt fyrir að Kambódía sé fátækasta land, sem ég hef heimsótt, þá er rútuflotinn ekki svo slæmur miðað við önnur lönd. Helsti gallinn við rútuferðina (og ég hef heyrt að þetta sé býsna algengt í Víetnam líka) er að á leiðinni var spilaður karókí diskur með kambódískum slögurum. Þvílík hörmung er vandfundin. En samt er það alltaf pínu gott að koma til lands þar sem vinsæl popptónlist er gjörólík því, sem maður á að venjast. Þrátt fyrir að mér finnist þetta hörmung, þá finnst mér það pínulítið jákvætt. Það síðasta, sem heimurinn þarfnast, eru fleiri lönd sem hlusta á James Blunt og Maríu Carey. Á skalanum 1-10 þar sem 10 er Dylan og 1 er mexíkóskt kántrí, þá var þessi kambódíska tónlist sirka 1,5.

Ég kom til Sihanoukville seinni partinn á miðvikudagin eftir að hafa legið í eymd og volæði í Phnom Penh í þrjá daga með slæma matareitrun. Fyrstu tímana leið mér ágætlega og ég hélt að ég væri orðinn góður, en það var skammvinnt og fljótt sá ég að heilsan var alls ekki nógu góð.

Eftir tvær nætur með dúndrandi hausverk, svima, hita, ógleði og svefnleysi á hörðustu dýnu í heimi ákvað ég að þetta myndi ekki ganga mikið lengur. Ég tók saman dótið og tékkaði mig inná betra hótel þar sem nóttin kostar 15 dollara í stað 3 dollara á fyrri staðnum (Monkey Republic – ábyggilega ágætis staður, en kræst hvað rúmið var mikið drasl). Ekki nóg með það, heldur ákvað ég að prófa kambódíska heilbrigðisþjónustu. Miðað við heilsu mína var ég farinn að gera mér upp hugmyndir um að ég væri kominn með malaríu vegna þess að ég hafði verið bitinn illa í Siem Reap, sem er á útbreiðslusvæði (að mig minnir allavegana) og ég hef sjaldan verið svona slappur.

Læknastofan var hálf skrýtin. Hún var algerlega opin útá götu og 5 sjúkrarúm voru við innganginn full af fólki í misalvarlegu ástandi. Læknirinn leit á mig, spurði mig nokkurra spurninga og tók svo hitamæli uppúr pennastatífinu sínu og lét mig setja hann undir handarkrikann. Útúr því prófi fann hann að hitinn minn var 38 gráður og ákvað því að taka blóðprufu. Tveim klukkutímum seinna kom í ljós að ég er ekki með malaríu né aðra hættulega sjúkdóma og lét hann mig því fá einhverjar pillur til að bryðja, sem ég er byrjaður á.

Í gærkvöldi tók ég því rólega inná nýja og yndislega hótelherberginu mínu og flakkaði á milli kambódískra karókístöðva og einhverra bandarískra skemmtistöðva. Að lokum endaði ég á að horfa á bandarísku gamanmyndina [13 going on 30](http://www.amazon.com/Going-30-Special-Gary-Winick/dp/B0002C4JI0/sr=1-1/qid=1159601927/ref=pd_bbs_1/104-3715870-7946341?ie=UTF8&s=dvd), sem er þrekvirki í bandarískri kvikmyndagerð. Það var aðallega þrennt, sem vakti athygli mína við að horfa á þá mynd

1. Jennifer Garner er alveg ótrúlega, *ótrúlega* sæt.
2. Ég man ekki hvað númer 2 var
3. Man ekki hvað númer 3 var heldur, en það hafði eitthvað með það að gera hvað Jennifer Garner er sæt.

Í dag tók ég svo leigubíl hingað til Kampot. Mér líður aðeins betur og er að gæla við að verða orðinn góður fyrir morgundaginn. Ástæðan fyrir veru minni í Kampot er að héðan ætla ég að fara í dagsferð í Bokor þjóðgarðinn.

Það er ótrúlegt hvað svona veikindi draga úr manni allan kraft. Á stundum langaði mig bara að hætta þessu og fara heim í stað þess að liggja í svitabaði í 40 gráðu heitu herbergi. Núna er samt krafturinn smám saman að koma tilbaka. Planið er að fara aftur til Phnom Penh á mánudaginn og svo sigla niður Mekong ána inn til Víetnam á þriðjudag.

*Skrifað í Kampot, Kambódíu klukkan 14:45*

4 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 7: Veikindi og kambódískt karókí”

  1. Það er tekið að votta fyrir íslenskum Bryson í þessum pistlum þínum. Vel gert. Skemmtileg skrif. Óska þér góðs bata og enn betri ferðarest.

    Hugsaðu bara um mig ef þér leiðist eða ert veikur eða slappur eða við það gefast upp :biggrin2:

  2. Já Jensi ég var einmitt að hugsa það sama. Af hverju semurðu ekki bók um allt þetta flakk þitt, Einar? “Útrás Íslendingsins” eða eitthvað álíka. Þú skrifar vel og ferðast víða, færir létt með þetta og það myndi hver einasti Íslendingur lesa slíka bók. 🙂

  3. Tek undir með fyrrgreindum aðilum og bæti við að ég myndi klárlega kaupa þessa bók! 🙂

    Einar, drífðu þig heim og skelltu þér í jólabókaflóðið 😉

Comments are closed.