Tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir

Á síðustu vikum hef ég séð tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir, sem óhætt er að mæla með.

Sú fyrri er **The Two Escobars**, sem að ég sá á kvikmyndahátíðinni í Stokkhólmi fyrir einhverjum vikum síðan. Þetta er heimildamynd framleidd af ESPN og fjallar hún um tvo Kólumbíumenn með sama eftirnafn, Pablo og Andres Escobar.

Andres Escobar var einn besti fótboltamaður í Kólumbíu og lék með hinum frábæra kólumbíska landsliði, sem margir bjuggust við að myndu gera stóra hluti á HM í Bandaríkjunum 1994. Ég man vel eftir þessu liði enda höfðu þeir leikið frábæran fótbolta í aðdraganda mótsins. Þetta var auk þess lið fulltaf furðulegum karakterum einsog Carlos Valderama (með gula afró hárið), markmanninn Rene Higuita og Faustino Asprilla. Andres Escobar var fyrirliði liðsins og einn vinsælasti leikmaður þess.

Hinn Escobar-inn var svo Pablo Escobar, sem var þekktasti og illræmdasti eiturlyfjabarón Kólumbíu. Kvikmyndin segir sögu þessara tveggja manna og hvernig líf þeirra tengdust – en þeir voru að lokum báðir drepnir með stuttu millibili. Fyrst Pablo Escobar þegar að yfirvöld byrjuðu að þjarma að veldi hans – og svo Andres Escobar, sem var skotinn í Bogota eftir að hann hafði skorað sjálfsmark í leik á HM, sem að gerði að engu vonir Kólumbíumanna um að fara langt á HM. Þetta er frábær mynd.

* * *

Seinni myndin var svo sýnd í sænska sjónvarpinu fyrir nokkrum vikum. SVT, sænska ríkissjónvarpið, sýnir í hverri viku heimilidarmyndir frá ýmsum löndum. Thrilla in Manila, sem var framleidd af HBO, fjallar um bardaga milli Joe Frazier og Muhammed Ali, sem fór fram í Manila á Filipseyjum árið 1975 – og er af mörgum talinn besti boxbardagi sögunnar. Þá voru Frazier og Ali nokkurn veginn jafn góðir boxarar, en í dag er Ali margfalt þekktara nafn og Joe Frazier býr einn í litlu herbergi við hliðiná gamla box-salnum sínum í fátækrahverfi í Fíladelfíu.

Myndin sýnir aðdraganda bardagans frá hlið Joe Frazier og fjallar um það hvernig honum fannst hann vera svikinn og niðurlægður af Ali og hvernig að sá biturleiki er enn til staðar núna 25 árum seinna. Einhverjum finnst myndin sennilega taka fullmikið upp hanskann fyrir Frazier, en þar sem að við sjáum nánast aldrei neitt frá hans hlið í dag, þá er það bara ágætt að mínu mati. Áður en ég sá myndina, þá mundi ég ekki hvernig bardaginn í Manila fór – og það er klárlega kostur, því hún nær að byggja upp spennu fyrir sjálfum bardaganum.

Margrét horfði á báðar þessar myndir með mér og var hrifin af þeim báðum, þannig að það er alger óþarfi að vera sérstakur áhugamaður um fótbolta eða box til að hafa gaman af þessum tveimur myndum.

4 thoughts on “Tvær mjög góðar heimildamyndir um íþróttir”

  1. Ef þú hafðir gaman að Thrilla in Manila þá mæli ég með When We Were Kings. Það er hægt að sjá hana alla á YouTube: http://www.youtube.com/watch?v=nUSxWilW9is

    Mig minnir að hún hafi unnið Óskar fyrir bestu heimildamyndina þegar hún kom út. Hún fjallar um bardagann milli Ali og Foreman. Svo er líka Miriam Makeba ansi töff.

  2. Ætla að tjékka á the two escobars í kvöld. Ég er einnig viss um að þú hafi gaman af “once brothers”. Saga Júgóslavneska landsliðsins í Körfubolta.. Vlade Divac, Petrovic, Kukoc.. en splittaðist svo upp vegna stríðsins.

Comments are closed.