« mars 04, 2003 | Main | mars 06, 2003 »

Davíð, Ingibjörg og Baugur

mars 05, 2003

Ég var svo reiður eftir samsæriskenningar Sigurðar Kára í Kastljósi í gær að ég ákvað að drífa mig í að lesa þessa blessuðu Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Ræðuna má nálgast á vef Samfylkingarinnar.

Ég er alinn upp Sjálfstæðismaður, varð róttækari með árunum í átt til vinstri en skoðanir mínar þróðuðust aftur í hægri átt þegar ég var í námi í Bandaríkjunum. Ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ég reyndi einu sinni að kjósa í prófkjöri hjá flokknum en gat það ekki vegna þess að ég átti afmæli degi of seint.

Ég er hins vegar alltaf að tapa meira og meira áliti á Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur gert ýmislegt í frjálsræðisátt síðustu ár og ríkisstjórn hans og Alþýðuflokks var góð. Ég hins vegar hef óbeit á mörgum hliðum flokksins. Ég þoli ekki foringjadýrkunina í flokknum. Ég þoli ekki að þingmenn hans komi í áramótaannálum og tilnefni allir Davíð Oddson sem mann ársins. Ég þoli ekki að flokkurinn skuli kalla sig hægriflokk en reyni svo hvað hann geti til að ná að komast til áhrifa í RÍKISútvarpinu. Ég þoli ekki að hann skuli kalla sig hægriflokk en veiti svo ríkisábyrgðir til stórfyrirtækja.

En þessi umræða síðustu daga hefur valdið því að eftir tvo Kastljósþætti hef ég verið öskureiður útí Sjálfstæðisflokkinn. Mér er reyndar nokk sama um þetta Baugsmál. Heldur virkilega einhver Sjálfstæðismaður að Jón Ásgeir hafi ætlað að múta forsætisráðherra?? Trúir því virkilega einhver?

Ef að Davíð hefur svona mikla óbeit á Baugi og þeirra viðskiptaháttum þá á Davíð að beita sér fyrir breytingum á leikreglum í viðskiptalífi. Þeir eiga EKKI að kvarta bara og kveina yfir því að Baugsmenn séu nógu snjallir til að nýta sér hvernig kerfið er byggt upp. Ekki sér maður George Bush kvarta yfir því að Wal-Mart sé að yfirtaka bandarískan matvörumarkað. Hann gerir sér grein fyrir því að leikreglur viðskiptalífsins gera slíkum fyrirtækjum kleift að ná góðri stöðu á markaði með því að vera óhræddir og vægðarlausir í viðskiptum. Ef Davíð vill stuðla gegn því að Baugur hafi góða stöðu á markaðnum ætti hann að skerpa leikreglurnar, ekki að gera lítið úr stjórnarformanni fyrirtækisins í þingsölum og í sjónvarpi.

Eftir allt, þá er okkur frjálst að velja hvar við verslum. Ef almenningur í landinu hefði eitthvað á móti Baugi þá myndu þeir hætta að versla í Bónus og Hagkaup. Það hefur almenningur ekki gert. Það er nefnilega þannig að þótt stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á fyrirtækin í landinu þá er það almenningur sem hefur mesta valdið. Davíð getur reynt að koma slæmu orði á Baug en bara almenningur getur virkilega skaðað Baug, með því að hætta að versla hjá þeim. Það hefur ekki gerst.

Borgarnesræðan

Og þá að ræðunni sjálfri. Ef marka má orð Sjálfstæðismanna hefði mátt ætla að Ingibjörg hefði endað ræðuna á "Bónus býður betur", því þeir hafa gert svo mikið úr stuðningi hennar við Baug og Jón Ólafsson.

Hér er hins vegar kaflinn, þar sem hún talar um þessi fyrirtæki:

Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir.

og

Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum?

Hvar í andskotanum er einhver stuðningur við Baug í þessari ræðu? HVAR?

Það að biðja um að um að fyrirtæki séu ekki dæmd eftir því flokkslínum er alveg jafn réttlátt og að einstaklingar séu ekki dæmdir eftir kynþætti.

Útúrsnúningur Sjálfstæðismanna á þessu er óþolandi. Svona hagar sér ekki flokkur, sem segist hafa frelsi í atvinnulífi að leiðarljósi.

707 Orð | Ummæli (12) | Flokkur: Stjórnmál

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33