« júní 21, 2004 | Main | júní 23, 2004 »

Girl Power!

júní 22, 2004

The Apprentice er nokkuð skemmtilegur sjónvarpsþáttur, sem Stöð 2 sýnir. Fyrir þá, sem hafa ekki fylgst með þessu, þá eru í þessum þætti tvö lið (strákar á móti stelpum), sem keppa í alls kyns viðskiptatengdum keppnum um það að fá stöðu sem yfirmaður í fyrirtæki Donald Trump.

Allavegana, liðin hafa keppt nokkrum sinnum. Fyrst var það hver gæti selt meira límonaði á einum degi, svo um það hvort liðið gæti prúttað betur verðið á nokkrum hlutum (þetta átti að æfa samningatæknina) og svo nú síðast ráku liðin Planet Hollywood stað í einn dag og það lið, sem bætti veltuna mest, vann.

Konurnar hafa unnið allar þrautirnar, og er svo sem allt gott um það að segja. Einhver myndi halda að femínistar yrðu syngjandi kátir með það.

Vandamálið er bara hvernig konurnar hafa unnið þrautirnar.

Þær hafa nefnilega unnið allar þrautir með því að nýta sér kynferði sitt á frekar ódýran hátt. Sumar af stelpunum eru nokkuð myndarlegar og í öllum þáttunum hefur stór partur af sigri þeirra falist í því að plata nokkra gamla kalla til að gera hluti fyrir sig.

  • Í fyrsta þættinum, þegar þær voru að selja límonaði, plötuðu þær nokkra peppera til að gefa þeim fullt af pening. Þær klæddu sig allar í stutt pils og döðruðu við kallana þangað til að þeir gáfu þeim fullt af pening (án þess þó að kaupa einu sinni límonaði).

  • Í annarri þrautinni, sem átti að æfa samningatækni, þá döðruðu þær þrjár við karlkyns búðareiganda. Þær sungu fyrir hann, kölluðu hann fallegum nöfnum og döðruðu við hann þangað til að hann lækkaði verðið á vörunum.

  • Í þriðju þrautinni, þá fóru þær um allan veitingastaðinn á stuttum pilsum og í magabol, seldu staup og helltu gesti staðarins fulla. Þær fengu m.a.s. einhvern kall til að kaupa sér heilan bakka af staupum, sem hann drakk svo með þeim. Sá maður virtist ákaflega einmanna og var því meira en tilbúinn að bjóða stelpunum uppá staup, víst þær voru tilbúnar að drekka það með honum.

Þetta gekk í raun svo langt að eftir síðustu keppni kom Donald Trump til stelpnanna og sagði að það væri niðurlægjandi fyrir þær hversu mikið þær nýttu kynferði sitt í keppninni. Í alvöru viðskiptum í hans fyrirtæki væri ekki þörf fyrir slíkar aðferðir.

Hvernig er það, finnst þeim stelpum sem hafa horft á þáttinn, þetta vera sniðugt? Ég veit að ég á ekki að vera að taka svona raunveruleikasjónvarpsþætti of alvarlega, en þetta fékk mig til að hugsa. Er þetta niðurlægjandi fyrir kvenfólk í viðskiptum, eða bara merki um snjallar konur, sem nýta sér alla kosti sína?

430 Orð | Ummæli (4) | Flokkur: Sjónvarp

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33