« maí 06, 2004 | Main | maí 08, 2004 »
Pyntingar á föngum og heimsvaldastefna Bandaríkjanna
Hmm… Ok, ég ætla ekki að fjalla um pyntingar, þrátt fyrir að Bandaríkjamenn séu duglegir við að láta mig skammast alveg óstjórnlega mikið fyrir að hafa talað (af hálfkæringi þó) fyrir stríði í Írak. Ok, ég studdi það kannski ekki en var pottþétt ekki mikill andstæðingur. En ólíkt Birni Bjarnasyni, þá skipti ég um skoðun.
Nei, ég ætlaði ekki að tala um stríð, heldur datt mér þessi fyrirsögn í hug þegar að ég las þessa færslu hjá Sverri Jakobssyni. Hann segist nefnilega renna í gegnum molana og les mína síðu þegar fyrirsögnin heillar hann. Þannig forðast hann til dæmis færslur, sem heita Djammmmmmmmyndir. Því held ég að fyrirsögnin á þessari færslu sé líklegri til árangurs.
Ég fór að velta því fyrir mér hvort það séu margir sem lesa molana svona. Ég bjó mér til mitt eigið RSS skjal sem ég nota til að fylgjast með þeim bloggum, sem ég les. Þegar mér hefur leiðst mikið hef ég kíkt a molana og þá einmitt les ég ný blogg að miklu leyti útá fyrirsagnirnar. Þannig forðast ég blogg sem byrja á “ég fór í bíó í dag” en leita að einhverju athyglisverðara.
Ég man að þegar að Nagportal var og hét, þá notaði maður það á hverjum einasta degi en RSS molarnir hafa komið í stað þeirrar síðu. Sverrir talar einmitt um að hann sé einnig íhaldssamur í blogglestri, einsog ég held að flestir við sem höfum staðið í þessu lengi séum. Molarnir sjálfir hafa að ég held lítið verið uppfærðir með nýjum síðum. Ég sé að ég er m.a. með fremur asnalegt notendanafn, þar sem ég er titlaður eoe241 þar. Þessi 241 tala helgast af því að mér var úthlutað því svæði af skólanum mínum.
Úff, af hverju fer ég ekki heim í stað þess að sitja hérna skrifandi einn í vinnunni?
