« maí 08, 2004 | Main | maí 15, 2004 »

Á hótelherbergi í Bilbao

maí 11, 2004

Af hverju í andskotanum er Power Point svona hræðilega hægvirkt á tölvunni minni? Bill Gates, af hverju gerirðu mér þetta?

Úff, ég veit ekki hvort að það er bjórinn eða hvort kynningin mín sé að verða fyndnari þegar líður á kvöldið. Kynningin er komin uppí 43 síður. Það er alltof mikið. Er að reyna að forðast það að vera ekki bara að lesa upp af slædunum. Þarf að minnka textann aðeins.

Í sjónvarpinu núna er Mulholland Drive á spænsku. Spurning hvort ég átti mig á myndinni núna þegar hún er á spænsku . Hvað er eiginlega málið með þennan rauða lampa? Og hvað er dvergurinn úr Twin Peaks að gera þarna? Mikið er þetta samt góð mynd.

Einhvern veginn finnst mér ég alltaf vera í fríi þegar ég er í útlöndum og því er það þvílíkt erfitt að rembast við að sitja hérna inná hótelherbergi pikkandi inná tölvuna mína. Fór niður á barinn áðan og pikkaði þar í klukkutíma og drakk bjór. Smakkaði líka á versta snakki í heimi. Það var álíka vont og svínafitan, sem Danir borða.


Já, og svo vitiði það börnin góð að það er hættulegt að keyra um á lyftara. Ath. fjörið byrjar eftir 2 mínútur og 30 sekúndur. Æ fokk, ekki meira netráp, verð að fara að klára þetta.

(Skrifað í Bilbao klukkan 22.14)

219 Orð | Ummæli (3) | Flokkur: Ferðalög

Bilbao

maí 11, 2004

Bilbao er ágæt borg. Ég er búinn að vera hérna síðan á sunnudag og hefur svo sem ekki mikið gerst. Ég er á fínu hóteli, sem er með þráðlausu interneti. Þar sem ég á eftir að klára kynninguna mína fyrir morgundaginn þá ákvað ég að splæsa á dagspassa á netið.

Allavegana, var á fundi í gær í Vitoria, sem er nálægt Bilbao. Eftir fundinn tók síðan við viðamikil leit að veitingastað. Hérna í Bilbao eru engir túristar og því fylgja ALLIR veitingastaðir spænska módelinu, það er að opna ekki fyrr en klukkan 21. Á vikuferðalagi get ég ekki vanið magann minn á slíkan matartíma og því labbaði ég hálfan bæinn til að finna opinn samlokustað, sem bauð uppá baguette með kjöti, sem Spánverjar virðast dýrka og dá. Fínn matur samt.

Í dag dreif ég mig yfir á Guggenheim safnið, sem er æðislegt! Byggingin sjálf er náttúrulega ótrúlega mögnuð, sennilega ein magnaðasta bygging, sem ég hef séð. Að innan er safn af merkilegri nútímalist, allt frá Lichtenstein og Warhol til Ólafs Elíassonar! Mér finnst rosalega gaman að nútímalistasöfnum, en samt fæ ég alltaf á tilfinninguna að 20% af verkunum séu algjört rusl, sem hvaða simpansi með myndavél, leir eða pensil gæti gert. En safnið er samt mjög skemmtilegt.

Eftir Guggenheim fór ég í gamla miðbæinn, sem er uppfullur af búðum, sem voru lokaðar enda klukkan orðin 2. Gamli miðbærinn er fullur af fallegum byggingum en þar var ekki mikið líf á þeim tíma dags. Þegar búðir opnuðu verslaði ég eitthvað, þar á meðal alltof dýrt bindi, enda hafði mér tekist að gleyma öllum bindunum mínum heima. Hins vegar mundi ég eftir fjórum skyrtum.

Núna ætla ég að fá mér nokkra bjóra og klára kynninguna mína. Á morgun á ég svo flug til Barcelona.

(Skrifað í Bilbao klukkan 19.51)

297 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Ferðalög

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33