« september 01, 2004 | Main | september 06, 2004 »

Bandaríkjaferð 4: Strandblak og pólitík

september 03, 2004

Einn dagur eftir í Chicago og svo á ég flug til Kansas á morgun, þar sem ég ætla að sjá Bob Dylan spila.

Ég er orðinn aumur í löppunum af labbi undanfarinna daga. Hef verið með Dan og Katie á labbi um borgina. Tvo síðustu daga hef ég labbað alveg í gegnum Millenium Park, í gegnum miðborgina og hálfan Lincoln Park. Var á ströndinni í dag, þar sem ég fylgdist með professional strandblaki og naut sólarinnar.

Fór í partí í gær ásamt 25 fyrrum Northwestern nemendum, þar sem við horfðum á fyrsta háskóla-fótbolta-leikinn á þessu tímabili. Leikurinn var algjör snilld og partíið líka. Nóg af grillmat og bjór og frábær stemning.

Semsagt Kansas á morgun og þaðan á ég pantað lestarfar til Flagstaff í Arizona, sem er í klukkutíma fjarlægð frá Grand Canyon.


Þegar ég hef haft tíma og ekki nennt að gera neitt sérstakt hef ég kveikt á fréttastöðunum hérna og einnig lesið blöðin til að fylgjast með bandarísku kosningunum, enda er mér annt um framtíð þessa lands og ég er gríðarlega mikill áhugamaður um bandarísk stjórnmál.

Ef marka má umfjöllun um frambjóðendurna tvo af Fox fréttastöðinni, þá er John Kerry Anti-Kristur endurfæddur, sem getur ekki ákveðið sig hvorum megin hann fer fram úr á morgnana, laug öllu um stríðið í Víetnam og mun leiða þetta land til glötunnar. Hann á að biðjast afsökunar á því að hafa bent á stríðsglæpi, sem Bandaríkjamenn frömdu í Víetnam og menn rífast um það hvort blætt hafi úr sárum sem hann fékk af sprengjubroti. Þetta á meðan að Bush var að fljúga flugvélum í Texas.

Á hinn veginn er George W. Bush hetja og eina von þessarar þjóðar. Hann er gríðarlega sterkur leiðtogi og sá eini, sem getur leitt Bandaríkin áfram í stríði, sem þetta land getur ekki unnið (1984 einhver?). Við þurfum á honum að halda sem aldrei fyrr því hann hefur prívat og persónulega komið í veg fyrir fullt af árásum. Það er honum að þakka að Írakar lentu í þriðja sæti í fótbolta Ólympíuleikunum og hann er eina von fyrir frelsi og lýðræði í þessum heimi.

Ég þori að veðja 10.000 kalli við hvern sem er að Bush vinni þessar kosningar. Einhvern veginn mun þessum andskotum takast að eyðileggja orðspor John Kerry nógu mikið. Við skulum ekki gleyma því að þetta eru sömu menn og sögðu í baráttunni við John McCain að hann væri óstyrkur eftir dvöl sína í fangabúðum og að hann ætti svart barn. Fyrir þessum mönnum er ekkert heilagt.

Það er í raun fáránlegt að horfa á þessa umfjöllun um kosningarnar hérna. Ég hef horft á umtalsvert af umfjölluninni með vinum mínum og þau eru ávallt jafn hissa á þessu rugli. Hvernig geta menn, án þess að brosa, haldið því fram að ræða Schwartzenegger á flokksþinginu hafi verið snilld? Hvernig? Fólk er algjörlega búið að tapa sér.

Guð hjálpi Bandaríkjunum ef að Bush heldur áfram. Það er FULLT af fólki (allir vinir mínir t.a.m.) sem gera sér grein fyrir því hversu hroðalegur forseti Bush er. Það er hins vegar ekki fræðilegur möguleiki á að snúa stuðningsmönnum Bush.

Það er engin leið að koma þeim í skilning um að efnahagsaðgerðir hans séu byggðar á hagfræði, sem enginn hagfræðingur trúir á og að þessi eilífu stríð hans muni minnka öryggi borgaranna fremur en að auka það. Fyrir þeim er hann gjörsamlega óskeikull. Traust þeirra á Bush er eins nálægt trúarbrögðum og hægt er að komast.

Það er skuggalegt að fylgjast með þessu öllu saman…

Skrifað í Chicago kl 18.46

581 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Ferðalög

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33