« Serrano dagar 2-4 | Aðalsíða | Ég og McDonald's »

Hvað er ég eiginlega gamall?

7. nóvember, 2002

Fyrir einhverjum tveimur mánuðum varð ég víst 25 ára gamall. Fólk virðist hins vegar eiga eitthvað erfitt með að trúa því.

Áðan var ég í afmælisboði hjá bróður mínum, sem er orðinn 40 ára gamall. Tengdamamma hans sagði að ég væri alveg einsog frændur mínir, synir bróður míns, en þeir eru 15 og 16 ára.

Fyrr á þessu ári ætluðum við Hildur á tónleika með Sigurrós, en þar var 18 ára aldurstakmark. Ég gleymdi skilríkjunum mínum og því vildu dyraverðirnir ekki hleypa mér inn því þeir voru ekki vissir hvort ég væri orðinn 18.

Í síðustu viku var ég í Ríkinu og var ekki með debetkortið mitt. Þar vildi konan ekki trúa því að ég væri jafngamall og ég sagði og hún virtist í raun í vafa um það hvort ég væri orðinn nógu gamall til að kaupa áfengi.

Hvað er að gerast?? Ég veit ekki hvort ég er orðinn nógu gamall til að vera ánægður þegar fólk heldur að maður sé yngri en maður er.


Allavegana, þá er ég að vonast til að ég þurfi ekki að vinna mikið um helgina. Það væri ágætt að fá smá hvíld frá Serrano. Maður hefur í raun ekki hugsað um neitt annað síðasta mánuðinn. Meira að segja þegar maður er ekki í vinnunni, þá eru allir að spyrja um staðinn, þannig að hann verður aðal umræðuefnið.


Já, og ég verð að segja að nýja Richard Ashcroft platan er alger snilld. Ég var afskaplega veikur fyrir Urban Hymns og á einhverjum tíma spilaði ég One Day ábyggilega hundrað sinnum á "Repeat". Reyndar er ég núna í talsvert betra ástandi en ég var þá, þannig að ég verð ekki jafn dramatískur þegar ég hlusta á þessa plötu, en hún er samt góð.

Ég keypti mér líka Bent & Sjöberg og Afkvæmi Guðanna og finnst mér báðir diskar nokkuð góðir. Held að ég sé hrifnari af Afkvæmunum. "Þegiði" og "Rigning á heiðskírum degi" eru góð. Og svo er "Upp með hendurnar" náttúrulega hrein snilld. Á Bent & Sjöberg er "Kæri hlustandi" snilld. Einnig er "Fíkniefnadjöfillinn" gott.


Já, og svo eiga allir að kvitta undir hjá Dr. Gunna með Conan beiðnina. Annars er það mesti misskilningur hjá Dr. Gunna að Conan sé besti spjallþáttastjórnandinn. Staðreyndin er auðvitað sú að John Stewart, sem er með Daily Show á Comedy Central er kóngurinn. Þann þátt horfði ég á hverju einasta virka kvöldi útí Bandaríkjunum.

Einar Örn uppfærði kl. 22:56 | 398 Orð | Flokkur: Dagbók



Ummæli (3)


Það litla sem ég hef séð með John Stewart var mjög gott og því mætti prufa að sýna hann hér.

Gummi Jóh sendi inn - 07.11.02 23:59 - (Ummæli #1)

Hehe…skondið leita af uppýsingum um John Stuart Mill…og fæ þína síðu upp :-) En þú ert nú ekki með leiðilega síðu…keep up the good work :-)

kv. stelpa sem þú þekkir ekki neitt!!!

Erla sendi inn - 08.03.04 23:15 - (Ummæli #2)

Takk fyrir það. Gaman þegar fólk ratar inná síðuna af leit.is og byrjar ekki umsvifalaust á því að kalla mig fávita :-)

Einar Örn sendi inn - 10.03.04 22:16 - (Ummæli #3)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu