« september 30, 2003 | Main | október 03, 2003 »

Eru allar stelpur á Íslandi á föstu?

október 02, 2003

Að undanförnu hef ég lent í samræðum við nokkrar mismunandi manneskjur um sama hlutinn. Nefnilega: "Eru allar stelpur á Íslandi á föstu?"

Einhver hugsar nú með sér: "Bull og vitleysa er þetta í Einari, hann er bara svona óheppinn að hann finnur ekki allar gellurnar, sem eru á lausu". Það má vel vera, en ég ætla að færa rök fyrir því að allar stelpur á Íslandi séu á föstu.


  1. Þegar ég fór á Ungfrú Ísland keppnina síðastliðið vor, fylgdi með miðanum mínum ágætis bæklingur um keppendurna. Þrátt fyrir að ég hafi nú verið með stelpu á þeim tíma, þá fór ég að forvitnast um það hver af keppendunum væri nú á lausu. Ég verð að játa það að ég fékk smá sjokk.

    14 af 21 keppenda var á föstu! Semsagt, í litlum hópi af myndarlegum stelpum á aldrinum 18 til 20 ára áttu 67% þeirra unnusta. Reyndar var lang-sætasta stelpan, Helena Eufemía á lausu, þannig að kannski er einhver von enn í þessum heimi.

    Ég nefndi það við systir mína, sem er félagsfræðingur, að það væri athyglisvert að kanna það á milli landa hversu stórt hlutfall af þáttakendum í fegurðarasamkeppni viðkomandi landa er á föstu. Ég efast um að mörg lönd myndu toppa Ísland.

  2. Allir vinir mínir eru á föstu. Og þá meina ég allir! Ég á kannski kunningja, sem eru á lausu, en allir mínir góðu vinir eru á föstu. Þetta er í hróplegu ósamræmi við mína bestu vini útí Bandaríkjunum. Þar eru allir á lausu. Þrátt fyrir það er þetta ekki ólíkt fólk. Flestir vinir mínir í báðum löndum hafa svipað menntunarstig, eru á svipuðum aldri, finnst gaman að djamma, og svo framvegis. Ég get ekki fundið neinn stórtækan mun á fólkinu. Hvernig stendur þá á því að allir íslensku vinir mínir eru á föstu?

  3. Ég hef ítrekað lent í því að reyna við stelpur á skemmtistöðum, sem eru á föstu (nota bene, ég kemst aldrei að því fyrr en eftir laaangan tíma). Síðasta kærastan mín var m.a.s. með strák fyrst þegar við hittumst. Þetta er gengið svo langt að ég er nánast sannfærður um að allar sætar stelpur á skemmtistöðum borgarinnar séu á föstu. Í raun er ég oft svo sannfærður að ég þori varla að reyna við stelpur vegna sannfæringar minnar um að þær séu allar á föstu. Hugsanleg lausn á þessu væri að merkja sérstaklega allar stelpur, sem eru á föstu, einsog ég hef áður lagt til.

  4. Í Bandaríkjunum voru allir steinhissa á því að ég væri í langtímasambandi þegar ég var 25 ára. Á Íslandi eru allir steinhissa á því að ég sé á lausu nú ári síðar.

    Í flestum öðrum löndum myndi 26 ára karlmaður vera talinn á besta aldri og hann væri sennilega alltaf að djamma með hinum "single" vinum sínum. Síðan myndi hann flækjast í og úr samböndum næstu 5-6 árin, svo finna einhverja stelpu þegar hann væri um þrítugt og gifta sig 35 ára.

    Á Íslandi virðast hins vegar margir halda að maður sé alveg einstaklega óheppinn að vera ekki kominn í langtíma samband þegar maður er 22 ára.

    Ég tel að þetta sé dálítið óheppilegt. Fyrst og fremst vegna þess að samfélagið þrýstir á að allir krakkar finni sér maka og séu komin með eigin íbúð, bíl og 90% lán þegar þau eru orðin 25 ára. Ég vil meira að segja halda því fram að margir haldi áfram í óhamingjusömum samböndum, bara af því að allir aðrir séu á föstu. Fólk er hrætt við að þurfa að viðurkenna að sambúð hafi ekki virkað og því haldi það áfram í óhamingjusömum samböndum.

    Erlendis gefur fólk sér betra tækifæri til að kynnast og búa á sitthvorum staðnum. Á Íslandi þarf fólk að flytja saman helst innan nokkurra mánuða.


Á "Ég er" síðunni minni setti ég nýlega í gríni inn klausu neðst, sem les: "Ef þú vilt koma einhverju á framfæri við mig, eða ert ýkt sæt stelpa á aldrinum 18-25 og á lausu, endilega sendu mér tölvupóst."

Fyrir þessa klausu var ráðist á mig á reunion-i Verzlunarskólanema í síðasta mánuði. Ein ágæt stelpa hélt því þar fram að ég ætti ekki að takmarka mig við 18-25, þar sem ég væri nú einu sinni orðinn 26 ára. Ekki nóg með það, heldur vildi hún að ég myndi opna hug minn fyrir eldri konum og ætti því að vera að leita að konum á milli 18-30 ára. Ég hélt því þá fram við hana að það væri engin 26 ára stelpa á lausu á þessu landi. Meira að segja væri engin 20 ára stelpa á lausu. Við þessari fullyrðingu átti hún fá svör en hún og vinkonur hennar héldu samt áfram að kalla mig öllum illum nöfnum.

Eflaust eru einhverjar 25 ára gamlar stelpur á lausu. Það er hins vegar óhóflegur þrýstingur á þær stelpur á að vera í sambandi. Ég þekki til að mynda eina stelpu, sem ég er nokkuð viss um að sé í óhamingjusömu sambandi, sem heldur áfram í sambandinu af því að hún er hrædd við að vera single aftur. Það er nefnilega ekkert voðalega fínt að vera 25 ára stelpa á lausu á Íslandi í dag.

Sem er náttúrulega fáránlegt, því þetta er alveg pottþéttur aldur. Í hvaða vestrænni stórborg sem er, þætti þetta fullkomlega eðlilegur aldur fyrir stelpu til að vera ennþá að vera flakkandi á milli sambanda. En ekki á Íslandi.


En af öllu þessu sögðu, þá er ég samt kominn með leið á því að vera single. Stór hluti af því er náttúrulega þrýstingur frá umhverfinu. Allir aðrir eru á föstu. Einhvern veginn búast allir við að ég ætti að vera á föstu líka. Það er oft frábært að vera single, en gljáinn fer aðeins af því þegar maður er einn á djammi með tveimur hjónum, sem fara heim klukkan 3. :-)

961 Orð | Ummæli (38) | Flokkur: Dagbók

PR menn

október 02, 2003

prmenn.jpg

Ég og Jens í brúðkaupspartíi heima hjá Kristjáni og Þórdísi.

10 Orð | Ummæli (4) | Flokkur: Myndablogg

Dan á þjóðvegi 1

október 02, 2003

dan-vegur.jpg

0 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Myndablogg

Church on Spilled Blood

október 02, 2003

Churchjpg.jpg

Church on Spilled Blood í St. Pétursborg, Rússlandi.

8 Orð | Ummæli (1) | Flokkur: Myndablogg

Makkinn minn

október 02, 2003

MacG4.jpg

0 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Myndablogg

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33