« maí 02, 2004 | Main | maí 04, 2004 »

Blogglistinn minn

maí 03, 2004

Ég er frekar íhaldssamur í blogglestri. Að öllu jöfnu les ég 20 íslenskar bloggsíður, sem ég fylgist með í gegnum RSS. Valið á bloggum ber þess heldur merki að ég er búinn að lesa blogg lengi og held mikilli tryggð við þá, sem hafa bloggað í mörg ár. Ég hef sjálfur bloggað í yfir fjögur ár. Allavegana, datt í hug að það væri gaman að taka saman þau blogg sem ég les og hvernig ég byrjaði að lesa þau. Einnig væri gaman að fá tillögur að bloggum, sem ég ætti að bæta við.


Gummajóh hef ég lesið síðan hann byrjaði. Hann er einn af fyrstu bloggurunum. Í dag bloggar hann reyndar fulllítið um tæki og tól en fullmikið um lítil börn :-)

Már og Bjarni hafa bloggað síðan elstu menn muna. Hef lesið bloggin þeirra ansi lengi. Báðir skemmtilegir og klárir bloggarar.

Ágúst Flygenring fór einu sinni alveg ofboðslega í taugarnar á mér þar sem hann var að atast útí Bandaríkjamenn og Hægri Krata en hann verður skynsamari með hverju árinu :-) Hann fylgist ótrúlega vel með alþjóðamálum og ég les flestallar þær greinar sem hann bendir á.

Pottinn hef ég lesið alveg síðan ég byrjaði að blogga. Tómas verður skemmtilegri og skemmtilegri, sérstaklega nú þegar hann er farinn að líta Sjálfstæðisflokkinn gagnrýnni augum.

Svansson er einn af mínum uppáhlaldsbloggurum. Hann bloggar oft, bendir oft á skemmtilegar færslur og síður, og hann er einnig gagnrýninn Sjálfstæðismaður, sem er gott.

Jens er eini vinur minn á leslistanum, enda er vinahópur minn ekki mikið fyrir blogg. Jens er án efa með skemmtilegustu bloggsíðu á Íslandi, en samt virðast alltof fáir lesa síðuna hans. Það er synd.

Óli er án efa latasti bloggarinn á þessum lista! Hann bloggar á 5 vikna fresti og þá er aldrei nokkur leið að vita um hvað fær hann til að setja inn færslu.

Stefán Pálsson hef ég alltaf álitið snilling, alveg frá því hann tók Gunnlaug Jónsson í nefið í kappræðum á marmaranum í Verzló. Stefán var einn af þrem vinstri-mönnum, sem ég og Jens tókum í viðtal þegar við vorum í Verzlunarskólablaðinu og ég hef lesið bloggið hans frá upphafi.

Netkærustuna mína, hana Katrínu byrjaði ég að lesa af því að allir aðrir lásu síðuna. Hún er náttúrulega frægasti bloggarinn og getur líka verið æðislega skemmtilegur penni þegar hún nennir því.

Ég las bæði síðurnar hjá Ármanni og Sverri Jakobs, en Sverrir er einn eftir og enn á leslistanum mínum. Ég held þó að hann nenni varla að blogga lengur, allavegana eru bloggin í dag stutt og fá.

Dr. Gunni er án efa fyndnasti bloggari landsins. Hann mætti bara blogga oftar.

Beta er einn albesti bloggarinn. Hún þorir að vera heiðarleg og gefur alveg lygilega oft skotfæri á sér. Sennilega fær enginn bloggari jafn ósmekkleg komment í kommentakerfinu, sem hún á alls ekki skilið. Ólíkt sumum bloggurum, sem blogga bara þegar allt er í lagi í samböndum og öðru, þá þorir Beta líka að blogga um það þegar allt er í rugli. Frábært blogg!

Maju byrjaði ég að lesa eftir að Beta hafði vísað í hana. Skemmtileg og kjaftfor. Frábær bloggari.

Svona einu sinni í viku rekst ég inná síðuna hans Stefáns Einars, svona aðeins til að hneykslast á trú hans á Guð og Davíð. Einu sinni hneykslaðist ég á Ágústi Fl. en nú er Stefán kominn í hans stað nú þegar skoðanir okkar Ágústs verða líkari og líkari.

Matta byrjaði ég að lesa eftir að hann kommentaði á Liverpool færslu á síðunni minni. Fínn bloggari, sem hefur magnaða þolinmæði fyrir þrasi við trúað fólk.

Kristján byrjaði ég að lesa fyrir nokkrum vikum eftir að hann kommentaði á síðuna mína. Hann er Liverpool og Barcelona aðdáandi, sem er nóg til þess að ég lesi síðuna hans.

Járnskvísan er nýjasta viðbótin við blogglistann. Mjööög fyndin síða. Fann þessa síðu á nokkuð fyndinn hátt. Ég sá nefnilega Járnskvísuna í viðtali á Stöð 2. Svo í lok viðtalsins kom eitthvað: “og við þökkum Heiðrúnu Lind, stjórnarmanni í Heimdalli…”. Mér krossbrá, enda var ég sannfærður um að það væru ekki sætar stelpur í stjórn Heimdallar. Fór því á Google því ég hélt að mér hefði misheyrst og fyrsta niðurstaðan var þessi síða Járnskvísunnar. Síðan hennar er þó niðri núna. Vona að þegar hún komi upp aftur, þá hætti hún í “persónulegu blogg” straffinu. Og til að svara væntanlegri gagnrýni, þá var þessi pistill ekki einungis löng afsökun fyrir því að skrifa að mér finnist Járnskvísan sæt :-)

Toggipop er æðislegur bloggari, sem ég hef lesið síðustu mánuði eftir ábendingu frá Gumma Jóh. Eini gallinn er að síðan hans gefur ekki út RSS skrá og því gleymi ég oft síðunni hans. Skemmtilegar sögur og frábær gagnrýni á stelpur og næturlíf í Reykjavík. Ótrúlega skemmtilegur penni.


Ég veit að það er fullt af skemmtilegum bloggum þarna úti, sem ég er að missa af. Vitiði um einhverjar síður sem ég ætti að bæta við þennan hóp? Allar ábendingar eru vel þegnar.

818 Orð | Ummæli (22) | Flokkur: Netið

Tónleikar

maí 03, 2004

Ég er að fara á Pixies. Búinn að kaupa miða!

Jei!

11 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Tónlist

Hannes og Sigurður G

maí 03, 2004

Hinn gríðarlegi hugsjónamaður Hannes Hólmsteinn, sem gleymir af einskærri tilviljun hugsjónum sínum á nákvæmlega sama tíma og Davíð Oddson, var í Íslandi í Dag í viðræðum við Sigurð G. Guðjónsson.

Hannes, sem ég hélt mikið uppá á unglingsárum mínum, hélt áfram að falla í áliti hjá mér. Hann hrópaði m.a. að Jón Ásgeir væri að undirbúa valdarán á Íslandi og svo eyddi hann helming af tímanum í að spyrja Sigurð G. hvort honum finndist í lagi að Jón Ásgeir myndi kaupa RÚV líka. Hvað það kemur umræðunni við er ofar mínum skilningi.

Allavegana, Sigurður var nokkuð rólegur þrátt fyrir æsinginn í Hannesi. Hann stakk svo all svakalega uppí Hannes þegar Hannes var að tjá sig um rekstrarvandræði Norðurljósa:

Vandamálið við þinn málflutning er náttúrulega það að þú hefur aldrei komið nálægt fyrirtækjarekstri.

Snilld! Mér hefur einmitt fundist fáránlegt hvernig Sjálfstæðismenn hafa fullyrt um rekstur Norðurljósa. Þeir hafa ekki hikað við að predika um afkomu fyrirtækisins án þess að vita í raun neitt um forsendur rekstrarins.

Bæ the way, nennir einhver að segja Hannesi Hólmsteini að hann er ekki góð eftirherma. Hann eyddi síðustu mínútunni í að reyna að vera sniðugur með einhverri eftirhermu. Það tókst ekki.

Já, og þessi óheyrilega vitlausu rök Sjálfstæðismanna um það að gagnrýni DV á Davíð réttlæti þetta frumvarp eru hneyksli. Sjálfstæðismenn ættu að skammast sín fyrir að nota ritskoðun sem rök fyrir þingfrumvarpi. Einhvern veginn efast ég um að Sjálfstæðismenn myndu agnúast svona útí DV ef að Össur Skarphéðinsson lægi undir gagnrýninni í stað Davíðs.

250 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Stjórnmál

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33