« júní 20, 2004 | Main | júní 22, 2004 »

Beastie Boys, Dylan, EM2004 og Texas

júní 21, 2004

Uppfærslur á þessari síðu eru orðnar alveg fáránlega fáar. Fyrir því eru svosem ýmsar ástæður. Kem meira inná það seinna.

Spilaði í kvöld minn fyrsta leik í utandeildinni í tvö ár, núna með Magic en áður spilaði ég með FC Diðrik. Ég lék afleitlega einsog reyndar allt liðið, en ég náði þó að setja eitt mark þegar 5 mínútur voru til leiksloka. Leikurinn var spilaður í 20 stiga hita og sólskini. Lygilega gott veður. Ég þarf nauðsynlega að koma mér í hlaupaform! Er í mjög fínu formi, fyrir utan það að ég hef nánast ekkert hlaupið síðasta hálfa árið.


Er búinn að vera að hlusta á nýja Beastie Boys diskinn, To The 5 Boroughs, sem er algjört æði.

Ég er nógu mikill Beastie Boys fan til að hafa farið útí plötubúð daginn eftir að diskurinn kom út til að kaupa hann. Hann er núna á svona 7. hlustun og verður betri og betri. Beittir textar og flott bít. Hvað getur maður beðið um meira? MCA er með flottustu rapprödd í heimi (fyrir utan kannski Chali 2na úr Jurassic 5).


Ég hef verið mun duglegri við að uppfæra Liverpool heimasíðuna, enda hefur líf mitt snúist dálítið mikið um fótbolta undanfarið. Ég er orðinn verulega stressaður fyrir miðvikudaginn. Veit ekki hvort ég mun höndla það að sjá Þýskaland fara áfram á kostnað Hollands. Treysti á minn mann, Milan Baros, til að klára Þjóðverjana. Annars bendi ég á tvo pistla (og tengdar umræður) af Liverpool blogginu, sem aðdáendum annarra liða ættu að þykja athyglisverðar.

Má ég kynna: Milan Baros
Hvað er í gangi hjá Stevie G?


Eitt af því góða við að vera ungur er að maður uppgötvar stundum gamla snillinga í tónlistinni, og þá getur maður sankað að sér klukkutímum af efni, sem maður hefur aldrei kunnað að meta áður fyrr. Slíkt er að gerast hjá mér með Lou Reed, en samt aðallega með Bob Dylan.

Ég á eiginlega erfitt að lýsa því hversu hrifinn ég er af Dylan. Það er sama hvaða plötu ég spila, þetta er allt snilld. Núna er Blood on tracks í miklu uppáhaldi hjá mér. Simple Twist of Fate er ææææði, Idiot Wind líka. Fokk, þetta er allt snilld, hvert einasta lag. Það er yndislegt að vita til þess að þegar ég fæ einn góðan veðurdag leið á Blood on the Tracks, þá get ég bara fundið einhverja aðra af þessum snilldarplötum meistara Dylan.


Ég er svo að fara í viðskiptaferð til Houston á laugardaginn og verð í 5 daga. Í Houston er eflaust svona 60 gráðu hiti. Í raun er ekki líft í Texas á sumrin. Hef komið einu sinni til Texas, þegar ég fór að sjá goðið mitt, Roger Waters, spila í Houston. Þá var viðbjóðslega heitt. Ég veit ekki hvort ég mun höndla það að vera í jakkafötum þarna :-)

466 Orð | Ummæli (5) | Flokkur: Dagbók & Tónlist & Íþróttir

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33