« september 26, 2004 | Main | september 29, 2004 »

Íkorni

september 27, 2004

ikorni.jpg

Íkorni við Grand Canyon

4 Orð | Ummæli (2) | Flokkur: Myndablogg

Spegilmynd

september 27, 2004

millenium.jpg

Spegilmynd í Millenium Park í Chicago

6 Orð | Ummæli (0) | Flokkur: Myndablogg

Hugleiðingar við heimkomu (Einar djammar edrú)

september 27, 2004

30 dagar á ferðalagi þýðir að maður hefur nógan tíma til að hugsa sinn gang. Í nær öllum borgunum, sem ég fór til í Bandaríkjaferðinni, gisti ég hjá vinum og hékk með þeim mestallan tímann, þannig að ég var lengstum í hópi vina. Inná milli voru þó flugferðir, leigubílaferðir og gönguferðir á eigin spýtum. Auk þess sem ég eyddi nærri viku einn í ferð frá Chicago til Las Vegas, þar með talið 24 tíma lestarferð.

Þess vegna hafði ég nógan tíma til að hugsa um sjálfan mig, fólkið í kringum mig, hvað ég hef gert undanfarna mánuði og hvað ég vilji gera á næstunni.


Á föstudaginn fór ég á djammið. Það þykja nú ekki merkileg tíðindi, enda hef ég sennilega farið yfir 50 sinnum á djammið síðasta árið. Það nýja í þessu öllu var hins vegar að ég var bláedrú allan tímann.

Eitt af því, sem kom aftur og aftur uppí hugann þegar ég fór að hugsa um sumarið og undanfarna mánuði, var hvað ég hafði sagt og gert á djamminu á meðan ég var að drekka. Ég hef gert ófá mistök að undanförnu og satt best að segja vildi ég innilega taka tilbaka nokkur djömm frá því í sumar. Þegar ég hugsaði um þetta allt var ég eiginlega hálf pirraður útí þetta allt saman og umfram allt útí sjálfan mig. Ég er kominn með leið á að gera eitthvað á djamminu, sem ég myndi að öðrum kosti aldrei gera.


Í öllum þessum pælingum mínum í Bandaríkjunum fékk ég eiginlega svolítið ógeð á djamminu og því var ég staðráðinn í að djamma án áfengis eftir að ég kom heim. Og ég gerði það á föstudaginn. Og ég skemmti mér bara frábærlega. Það eina pirrandi var að fólk hafði stanslausar áhyggjur af því að ég væri ekki að drekka allt kvöldið. Held að næst þegar ég geri þetta muni ég þamba pilsner allt kvöldið (já, eða appelsínusafa) svo það líti út fyrir að ég sé að drekka.

Það er hressandi að fara í bæinn svona edrú. Ég var með fólki úr vinnunni á djamminu og við fórum á Vegamót, Sólon og Pravda. Það er margt, sem er öðruvísi svona edrú. Til dæmis verða stelpur ekki sætari þegar líður á kvöldið einsog vill verða þegar maður er að drekka. Einnig þarf maður að borða, því maður fær enga næringu úr áfengi. Ég þurfti því að háma í mig snakk og svo pulsu til að deyja ekki úr hungri. Það að vera bílstjóri er líka mikill ókostur við þetta. Ég endaði kvöldið t.am. á klukkutíma ökuferð um bæinn til að skutla fólki heim. Það hefði ég viljað losna við. :-)


Ég talaði lengi við Grace vinkonu mína þegar ég var í San Fransisco. Þegar við vorum saman sem skiptinemar í Venezuela, þá var ég lítill og vitlaus 18 ára strákur, sem vissi ansi lítið um sjálfan mig (ekki það að ég viti neitt miklu meira núna). Við gátum eytt heilu dögunum talandi um lífið, fólkið í kringum okkur, hvernig manneskjur við vildum verða og hvað við vildum gera.

Í þetta skiptið höfðum við ekki jafnmörg tækifæri til að tala saman, en þau skipti sem við höfðum voru þeim mun mikilvægari. Það var ótrúlega þægilegt að geta talað við einhvern um stelpur og annað á Íslandi, vitandi það að manneskjan hefur ekki minnstu hugmynd um hverja ég er að tala. Því gat ég talað við hana og hún byggt ummæli sín á því hvernig mér leið og ég vissi að þótt hún segði öllum sínum vinum frá, þá myndi það engu breyta. Þetta var rosalega hressandi.

Á meðan ég var úti komst ég að því að stelpa, sem ég var (er) geðveikt skotinn í, er komin með kærasta. Hún hafði verið á lausu í heillangan tíma en ég gat aldrei andskotast til að gera neitt í því. Hvort sem ég sá hana á djamminu eða edrú, þá fann ég alltaf einhverja ástæðu til að gera ekki neitt.

Mitt í öllum þessum samræðum benti Grace mér alltaf á það augljósa, það er að ég hefði bara átt að drífa mig og gera eitthvað í málunum. Í stað þess að vona að eitthvað gerðist í mínu lífi, þá hefði ég átt að gera eitthvað sjálfur. Lífið er alltof stutt til að vonast til þess að einhver stelpa geri eitthvað eða til þess að Guð gefi manni eitthvað pottþétt merki um að maður eigi að gera eitthvað. Maður verður bara að taka áhættu, hvort sem það er í þessum málum eða öðrum. Ég hef gert mig að fífli svo oft á ævinni að það skiptir engu máli hvort ég geri það nokkrum sinnum í viðbót…

768 Orð | Ummæli (9) | Flokkur: Dagbók

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33